Sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:38:38 (5938)

1996-05-13 15:38:38# 120. lþ. 136.1 fundur 306#B sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil beina spurningu til hæstv. fjmrh. Telur hann eðlilegt og æskilegt að hlutabréf í Pósti og síma yrðu seld, færi svo að stofnuninni yrði breytt í hlutafélag eins og frv. sem liggur fyrir þinginu gerir ráð fyrir? Nú er mér ljóst að ríkisstjórnin segist ekki munu selja fyrirtækið eða stofnunina á þessu kjörtímabili. Mér er einnig ljóst að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að ef af sölu yrði, þá færi það áður fyrir þingið. Þetta er vitað.

Hins vegar er ástæða til að ætla og ég hef rökstuddan grun um það að þetta sé fyrst og fremst sett fram til þess að friða þá sem eru andvígir einkavæðingu Pósts og síma. Þess vegna er mjög mikilvægt að þekkja og vita hverjar skoðanir einstakra ráðamanna eru og ekki síst hæstv. fjmrh. Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Telur hann æskilegt að hlutabréf í Pósti og síma yrðu seld á markaði eða yrðu seld, ef stofnuninni yrði breytt í hlutafélag, á næsta kjörtímabili ef þingmeirihluti væri fyrir hendi?