Sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:40:03 (5939)

1996-05-13 15:40:03# 120. lþ. 136.1 fundur 306#B sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:40]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð óvenjulegt að fá fyrirspurn af þessu tagi því að auðvitað er hv. þm. það ljóst að sá sem hér stendur ræður því ekki og allra síst einn, hvaða stefna verður tekin í þessu máli síðar ef einhver stefnubreyting verður af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. sagði reyndar að hann vissi að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að selja hlutabréf í Pósti og síma, ef það frv. nær fram að ganga sem er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi og það væri sérstök ákvörðun sem borin yrði undir Alþingi ef hugmyndir yrðu uppi þar að lútandi. Þetta get ég staðfest.

Ég vil hins vegar segja hv. þm. sem kemur honum sjálfsagt ekki mikið á óvart að ég tel fulla ástæðu til þess með þetta fyrirtæki, eins og svo fjölmörg önnur, að kannað sé hvort aðrir gætu tekið reksturinn yfir, aðrir en ríkisvaldið. Mér finnst sjálfsagt að kanna það. Það þarf auðvitað aðdraganda og það gildir ekki einungis um Póst og síma heldur ýmislegt fleira í opinberum rekstri.

Ég vil segja hv. þm. það jafnframt að það er ekki á mínu valdi að gefa neinar bindandi yfirlýsingar um það. Það er ríkisstjórnin öll sem ræður og þó sérstaklega sá ráðherra sem fer með þennan málaflokk, þ.e. samgrh. Hann hefur ekki að því er ég best veit gengið eins langt í hugmyndum sínum eins og ég vildi gjarnan að gengið yrði. Ég vona að það komi hv. þm. ekki á óvart sem ég segi hér. Ég hef reyndar sagt honum áður, a.m.k. tvisvar svo að ég muni, hver mín persónulega afstaða er. En það er auðvitað ríkisstjórnin og síðast en ekki síst, aðallega og fyrst og fremst Alþingi sem á síðasta orðið í þessu efni.