Sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:43:31 (5941)

1996-05-13 15:43:31# 120. lþ. 136.1 fundur 306#B sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það getur varla talist fréttnæmt sem ég hef sagt í þessari umræðu því að hv. þm. þekkir það mjög gjörla. Ég vil segja það sem mína skoðun að mér finnast hugmyndir formanns einkavæðingarnefndar nokkuð skynsamlegar út frá mínum persónulega sjónarhóli séð. En ég ítreka að það er auðvitað ríkisstjórnin sem ræður.

Það ber hins vegar að undirstrika það mjög rækilega að það geta staðið rök til þess að breyta fyrirtækinu í hlutafélag án þess að selja fyrirtækið nokkurn tíma og ég ætla að nefna ástæður fyrir því. Þær eru m.a. að fyrirtæki sem starfar í hlutafélagsformi getur eignast hlut í öðrum fyrirtækjum. Það kann að vera mikilvægt fyrir þetta fyrirtæki sem innan tíðar mun þurfa að stunda sína starfsemi í mikilli samkeppni við önnur fyrirtæki erlend, að geta þróað ýmsan búnað í samvinnu við íslenska tæknimenn og hugvitsmenn til þess að Póstur og sími hf., þótt alfarið í eigu ríkisins sé, geti tekið þátt í samkeppninni eins og sterkt og það fyrirtæki getur orðið.

(Forseti (ÓE): Tíminn sem ætlaður var fyrir þennan dagskrárlið er í raun og veru liðinn, en forseti ætlaði að gefa síðasta þingmanninum sem bað um orðið, tækifæri. Telur þingmaður sig nauðsynlega þurfa að koma fleiru að? (Gripið fram í: Nei.) Nei.)