Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 21:07:03 (5955)

1996-05-13 21:07:03# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[21:07]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem tala markvisst í einn og hálfan tíma eiga nú mjög erfitt með að draga saman ræðu sína í örstuttu máli.

Hvað spurningu hv. þm. Péturs Blöndals um biðlaunaréttinn, þá snýst þetta ekki um það hvort sá sem hér stendur sé ánægður með biðlaunaréttinn eða ekki. Þetta snýst fyrst og fremst um það hvort að í biðlaunaréttinum felist réttindi sem séu varin af stjórnarskrá, réttindi sem ekki verða af tekin nema fullar bætur komi fyrir og það er nákvæmlega það sem hefði átt að skoða í þessu máli. En það hefur ekki verið gert. Það á ekki að skoða hvort ég er ánægður með núgildandi biðlaunarétt.

Hvort ég er ánægður með launakerfi opinberra starfsmanna? Ég verð að taka undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að ég er enginn sérstakur talsmaður þess að því launakerfi sem nú er við lýði verði viðhaldið. En á hitt er að líta að það er ekki eðlilegt að því kerfi verði breytt einhliða heldur þarf að koma þar til samráð. Í því ljósi tel ég að það sé afturför að fara í þann farveg sem frv. ætlar launastefnu ríkisins.