Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 21:12:03 (5960)

1996-05-13 21:12:03# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[21:12]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kemur hér og talar í löngu máli um það að frv. brjóti hvorki meira né minna en í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og að það brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hv. þm. er ekkert að tala hér sem bara einn hv. þm. heldur líka sem útlærður lögfræðingur og væntanlega fræðimaður á þessu sviði. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til hv. þm. að hann leggi að einhverju leyti fræðimannsheiður sinn undir í þessu máli. Ef einhverjir eru nú sammála hv. þm. og þessi ákvæði þegar þau eru orðin að lögum verða til þess að vekja upp málaferli og þegar upp verður kveðinn dómur, þá getum við hin sem hlýddum á hv. þm. hugsað með okkur: Ja, var hv. þm. með þessu að staðfesta að hann væri góður lögmaður eða lögfræðingur og fræðimaður eða fræðimaður sem ekki bar hina minnstu virðingu fyrir því sem hann hefur lært í sínum fræðum? (Gripið fram í: Þetta var auðskiljanlegt.)