Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:27:15 (5967)

1996-05-13 22:27:15# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:27]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat í upphafi ræðu sinnar um þekkingu sína á kynlífi laxa. Síðan fjallaði hann um það að sá sem hér stendur hafi þykkar höfuðskeljar og ég var að velta fyrir mér samhenginu, hvort það væri eitthvað við líkamsbyggingu mína sem hann hefði lært á af reynslu sinni af kynlífi laxa. Reyndar kom nú þekking hans og dýrkun á laxinum vel í ljós þegar hv. þm. fór að berjast eins og laxinn sem syndir á móti straumnum gegn þeim takmörkunum sem verið er að setja í frv. á biðlaunaréttinn. Ég hygg að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna telji ekki eðlilegt að við formbreytingu á ríkisfyrirtæki yfir í hlutafélag fái fólk greidd út bæði laun og biðlaun á sama tíma. Ég hygg að það sé mikill meiri hluti þjóðarinnar sem stendur með því. Að minnsta kosti hef ég fundið það í samtölum mínum við fólk og mína kjósendur. Ég hygg að sú stefna ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessu frv. eigi sér marga fylgismenn.

Hv. þm. notaði gjarnan kaflaskipti í ræðu sinni til þess að ræða um málþóf og rétt stjórnarandstöðunnar til þess að beita eða nota eða misnota sér þá aðstöðu sem hún hefur hér til þess að tala um málin vel og lengi. Hann sagði að hann mætti nota tímann til þess að ræða smáatriði út í hörgul og tók sem dæmi framgangskerfið í háskólanum. Ég dró þá ályktun af ræðu hans að það væri eitt af dæmunum um smáatriðin sem þyrfti að ræða í sambandi við þetta mál. En varðandi framgangskerfið hefur margkomið fram það sama og kom fram hjá rektor á fundi efh.- og viðskn. Hann sá í sjálfu sér ekkert ósamrýmanlegt á milli þeirra ákvæða sem verið er að samþykkja í frv. og framgangskerfisins.