Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:33:57 (5970)

1996-05-13 22:33:57# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir langa vist í björgum Sjálfstfl. er þrátt fyrir allt svo mikil ærleiki til í hjarta hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að hann getur ekki komið hingað upp og haldið því fram að þetta séu ónýt réttindi. Hann segir: ,,Þau eru einhvers virði.`` Hann er að lýsa því yfir að það sé hægt að ræða um þetta í kjarasamningum. Honum finnst þau að vísu léttvæg en hann segir ekki: ,,Þau eru einskis virði.`` Það er nokkurs virði fyrir mig.

Að því er varðar orð hæstv. forsrh. þá er ég þeirrar skoðunar að þau séu gulls ígildi. Það er mín reynsla og ég að því leytinu til tek miklu meira mark á hæstv. forsrh. en stjórnarliða. En hv. þm. skyldi vara sig á því að vera að tala um það hér að hæstv. forsrh. standi fast að baki þessu frv. Það sagði líka hæstv. ráðherrann þegar hann stóð hér í stólnum og sagði: ,,Ríkisstjórnin er einhuga að baki mér.`` En þá var hæstv. forsrh. uppi í Stjórnarráði að tæta í sundur lífeyrisfrumvarpið sem er dautt.