Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:35:10 (5971)

1996-05-13 22:35:10# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir kjarnyrta en ekki mjög stuttorða ræðu. Í fyrsta lagi var byrjunin ansi laus í reipunum og ekkert mjög hnitmiðuð. Það var rætt um drykkjusiði fyrrv. ríkisstjórnar o.s.frv. Síðan varð hann eitthvað ákveðnari og hann ræddi t.d. um það að margar stofnanir væru komnar langt af leið. Hann hefði kynnst því í ráðherratíð sinni sem var því miður að hans mati of stutt. Mín spurning er sú: Er hv. þm. þá ánægður með æviráðninguna sem nú er í gildi sem gerir það ókleift að losa þessar stofnanir við forsvarsmenn þeirra? Önnur spurning til hv. þm.: Mig langar svo mikið til að heyra hv. þm. lýsa því yfir enn einu sinni að hann sé ánægður með biðlaunakerfið eins og það er núna praktíserað. Mig langar til að heyra hann segja að það sé eðlilegt og sanngjarnt að fólk sé með tvöföld laun. Þjóðina langar til að heyra hv. þm. lýsa því yfir og mig langar til að hv. þm. segi mér rökstuðninginn fyrir því að þeir opinberir starfsmenn sem af tilviljun vinna hjá Pósti og síma, eigi að fá hálfs árs laun eða eins árs laun gefin, en hinir sem vinna ekki hjá Pósti og síma fái engin biðlaun og engin tvöföld laun. Þetta er spurning til hv. þm. En aðalatriðið er að hann segi mér að hann sé ánægður með núverandi biðlaunakerfi og það sé eðlilegt að fólk sé með tvöföld laun.