Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 23:15:03 (5979)

1996-05-13 23:15:03# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[23:15]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að vekja athygli á því að sú umræða sem hér fer fram um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefur staðið í nærri 30 klukkustundir. Það er ástæða til að vekja athygli á því að nær allir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið til máls í þessum umræðum. Það er ástæða til að vekja athygli á því að þeir hafa í raun og veru aðeins nýtt ræðutíma sinn að hluta. Það er vert að geta þess að allir þessir þingmenn gætu talað aftur nema einn þeirra sem hefur fullnýtt ræðutíma sinn, það er sá ræðumaður sem fór hér síðast úr stólnum. Með öðrum orðum það eru aðstæður til að tala allmikið lengur enn um þetta mál ef menn væru í málþófi. Ef menn væru í því að nýta ræðurétt sinn til hins ýtrasta eins og gert er þegar menn eru í málþófi. En það er ekki um það að ræða. Það sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa fyrst og fremst gert er það að þeir hafa með ræðum sínum vakið athygli á því hvað þetta mál er sérstakt og alvarlegt. Þess vegna er ástæða til að mótmæla ítrekuðum áburði hæstv. fjmrh. um að stjórnarandstaðan hafi verið að beita ofbeldi í þessu máli og hafi gert það sem hún hafi getað til að koma í veg fyrir að málið verði afgreitt. Málið liggur auðvitað ekkert þannig. Stjórnarandstaðan hefur nýtt sinn rétt af því hvernig þetta mál er vaxið. Af hverju hafa menn talað? Í fyrsta lagi vegna efnis málsins, þess efnis að hér er um það að ræða að það er verið að þrengja mjög alvarlega að starfssviði verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Þessi lög fyrir verkalýðshreyfinguna eru hliðstæð kosningalögum fyrir kjósendur eða stjórnarskrá fyrir þjóðina. Þessi lög eru þess vegna ekki eins og hver önnur lög ef ég má leyfa mér að flokka lög úr þessum virðulega ræðustóli, hæstv. forseti. Hér er um að ræða mál sem snertir öll starfsskilyrði, allan starfsramma verkalýðssamtakanna í landinu og þess vegna er það sem ákveðið er af öllum stjórnarandstöðuflokkunum að taka myndarlega þátt í umræðum um þetta mál við þær aðstæður sem nú eru.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á að mótmæla vinnubrögðum í málinu vegna þess hvernig er komið fram við alla verkalýðshreyfinguna í landinu. Ekki aðeins opinbera starfsmenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og BHMR og önnur samtök opinberra starfsmanna sem þetta frv. snertir heldur líka heildarsamtökin öll með frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur með öðrum orðum tekið um það ákvörðun með aðstoð Framsfl. að gera heildaratlögu að þessum samtökum með þeim frv. sem verið er að ræða. Vinnubrögðin eru með þeim hætti að þau brjóta í bága við hefð, sem ég mun rekja hér á eftir, með þeim hætti að við hljótum að mótmæla af öllum kröftum í málinu. En við viðurkennum, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hefur því miður enn þá meiri hluta hér í þessari stofnun hvað sem verður í næstu alþingiskosningum. Auðvitað mun vilji ríkisstjórnarinnar ráða úrslitum ef hún kýs að beita honum. Því miður bendir allt til þess þrátt fyrir þann málflutning sem við höfum haft uppi og þrátt fyrir myndarlegar ábendingar stéttarsamtakanna í landinu að ríkisstjórnin ætli sér að knýja þessi mál í gegn.

Það er líka ástæða til þess, hæstv. forseti, að vekja á því athygli að mótmæli stjórnarandstöðunnar, sem hæstv. fjmrh. gerir lítið úr og kallar málþóf, eru samkvæmt þingsköpum og þingsköpin eru sett með lögum. Hér er með öðrum orðum ekki verið að brjóta á neinn hátt þær reglur sem gilda um þessa stofnun í einu og öllu. Hér er öllum leikreglum þingræðisins fylgt til hlítar af okkur. Við teljum hins vegar að þegar meiri hlutinn tók t.d. þetta mál út úr efh.- og viðskn. hafi hann reynt á þanþol þingræðisins meira en góðu hófi gegnir. Þar hafi menn komið fram og beitt valdi gagnvart minni hluta efh.- og viðskn. Það virðist reyndar vera landlægt í efh.- viðskn. af meiri hluta hennar um þessar mundir að gera lítið úr minni hlutanum, að taka lítið mark á því sem frá minni hlutanum kemur ef nokkur kostur er á slíku af hálfu meiri hlutans. Það ber að harma að þingmenn stjórnarflokkanna skuli haga sér með þeim hætti. En loks hefur það komið í ljós, herra forseti, í þessum umræðum sem hér hafa farið fram, gagnstætt því sem stjórnarliðið hefur verið að halda fram í allan vetur, gagnstætt því sem var haldið fram t.d. sl. vetur fyrir hátíðarnar, að stjórnarandstöðusveitin hér á þinginu er sterk og samstæð þegar kemur að málum af þessu tagi. Það er mikilvægt að undirstrika það atriði vegna þess að það hefur pólitískt inntak og pólitíska tilvísun sem getur skipt miklu máli, ekki aðeins fyrir stjórnarandstöðuna og stjórnarflokkana að taka tillit til á Alþingi heldur skiptir það máli líka úti í þjóðfélaginu og skiptir kannski sérstaklega máli fyrir samtök launafólks í landinu að vita að það er til samstæð og sterk stjórnarandstaða þegar kemur að því að taka á málum og verja mál sem verkalýðshreyfingin í landinu hefur borið fyrir brjósti. Þess vegna er ljóst, hæstv. forseti, að hér er ekki um að ræða neitt sem heitir málþóf, hér er um að ræða miklar umræður þar sem menn nýta rétt sinn samkvæmt lögum. Hins vegar er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnin ætlar að beita valdi hins sterka. Hún ætlar að efna til atkvæðagreiðslu sem fer væntanlega fram um þetta frv. á miðvikudaginn kemur og þá mun koma í ljós hvernig menn skipa sér en það er ætlun ríkisstjórnarinnar að knýja málið til enda. Við munum hins vegar að sjálfsögðu beita því afli sem okkur er gefið samkvæmt lögum í þessum efnum bæði við 2. og 3. umr. málsins.

Virðulegi forseti. Þetta mál á sér sérkennilegan aðdraganda. Það á sér aðdraganda sem er hægt að rekja allt aftur í tíð síðustu ríkisstjórnar og ég mun ekki fara nánar út í hér. Málið er lagt fram seint og það kemur inn í þingið með þeim hætti að fylgifrv. upp á 100--200 greinar kemur svo seint fram að jafnvel stjórnarliðið sjálft ákveður án sérstakra leiðbeininga að draga það til baka. Stjórnarliðið og hæstv. fjmrh. viðurkenna þannig að málið er illa undirbúið. Með því að leggja ekki áherslu á bandorminn um stöðu opinberra starfsmanna hefur hæstv. fjmrh. viðurkennt að málið er illa undirbúið og ótækt. Auðvitað væri eðlilegt, hæstv. forseti, að á þessum grundvelli tæki hæstv. fjmrh. ákvörðun um það að draga frv. eins og það liggur hér fyrir út af borðinu. Það gefur líka tilefni til þess, hæstv. forseti, að benda á að rétt hefði verið að taka þetta frv. út af borðinu að fyrir þinginu liggur frv. til laga um réttindi kennara og skólastjórnenda í grunnskólum. Þar er gert ráð fyrir því að festa í sessi þau lagaákvæði sem eru nú í gildi varðandi réttindi og skyldur opinberra starfsmanna um leið og grunnskólinn verður fluttur til sveitarfélaganna. Þar með er verið að segja við kennarana í landinu að samþykkt á þessu frv. verði hugsanlega til einskis því að hún verður öll tekin til baka með þeim samþykktum sem hér verða gerðar ef svo fer fram sem horfir um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna almennt.

Hæstv. forseti. Við höfum gert mjög ákveðnar kröfur í málinu um að þessi frv. verði tekin til baka, verði tekin hér út af borðum Alþingis. Við höfum gert um það kröfur að frv. um stéttarfélög og vinnudeilur verði líka tekið út af borðum Alþingis. Þannig höfum við tekið undir þau sjónarmið sem fram hafa komið frá stéttarfélögunum í landinu í þeim umsögnum sem þau hafa sett hér inn. Það er ekki þannig að bara tveir eða þrír menn á Lækjartorgi, hjáróma raddir eins og hæstv. félmrh. sagði, hafi látið þessi sjónarmið heyrast, þau hafa heyrst frá öllum hinum stóra fjölda stéttarfélaganna í landinu. Þess vegna endurtek ég enn þá kröfu þó það virðist örvænt um að menn hlusti á hana að frv. verði tekin út af borðinu. Af hverju vill ríkisstjórnin afgreiða þessi frv. núna í stríði við stjórnarandstöðuna og verkalýðshreyfinguna? Hvernig stendur á því? Hvaða rök eru fyrir því að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. leggja ofurkapp á að afgreiða málin og gera þau að lögum í bullandi stríði við stéttarsamtökin í landinu og stjórnarandstöðuna á Alþingi? Af hverju er það? Ég held, hæstv. forseti, að það sé fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin ætli sér að knýja fram heildarniðurstöðu í kjarasamningum í haust á grundvelli þessara laga, á grundvelli þeirra fjötra sem menn eru að gera tillögur um í þessum frv. Ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því í öðru lagi að verði þessi frv. að lögum þá mun sú ríkisstjórn sem nú situr halda áfram á sömu braut gegn verkalýðshreyfingunni í landinu og gegn stéttarsamtökunum í landinu. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þingheim og þjóðina að gera sér grein fyrir því að sú hætta er yfirvofandi af því að núverandi ríkisstjórn er svo ósvífin, er svo frek til valda, er svo tillitslaus við stéttarsamtökin í landinu, gerir sér svo litla grein fyrir þýðingu þeirra, að hún gæti átt það til að reyna að halda áfram á þessari braut eftir að þessi frv. væru orðin að lögum. Þetta er stórhættulegt mál í augum allra launamanna á Íslandi af því að með því er verið að gefa tóninn um framhaldið sem getur verið varasamt svo ekki sé fastara að orði kveðið fyrir hinn almenna launamann og réttindabaráttu fólks í landinu.

Í umræðum um þetta mál hefur líka komið ákaflega skýrt fram, hæstv. forseti, að í þessari stofnun er pólitískur grundvallarágreiningur uppi. Sá ágreiningur er mjög fróðlegur og merkilegt að velta því fyrir sér að oft á tíðum er það svo að menn telja að allir séu í grófum dráttum sammála um það sem heitir launamál. Sammála um að menn eigi að hafa laun og hafa það sæmilegt og búa við sæmilegt félagslegt öryggi og annað eftir því og að búa við sæmilegt atvinnuöryggi og þess háttar. Þegar þessi mál eru hins vegar skoðuð ofan í kjölinn kemur greinilega í ljós að í þessum efnum eru uppi verulega ólík sjónarmið í þessari stofnun. Verulega ólík sjónarmið. Það eru annars vegar þeir sem telja að vinnuaflið sé undirstaða alls, allra verðmæta sem við eigum í þessu þjóðfélagi, afl hins vinnandi manns. Hins vegar eru þeir sem telja að það sé fjármagnið eitt sem á að ráða og ráði úrslitum í þróun og framþróun samfélagsins. Á grundvelli þessara sjónarmiða eru menn að takast á þó menn geri sér ekki alltaf grein fyrir því hér í þessum umræðum að það eru einmitt grundvallarsjónarmiðin sem er tekist á um. Menn hafa þess vegna mismunandi sjónarmið gagnvart því hvernig á að taka á eignarréttinum, þ.e. annars vegar eignarrétti á fjármagni og hins vegar eignarrétti á vinnuafli. Það eru greinilega til aðilar í þessari stofnun sem telja að mismunandi sjónarmið eigi að gilda eftir því hvort fólk er að fjalla um fjármagn eða landareignir eða því um líkt eða hvort verið er að fjalla um vinnuaflið eða aflahæfið eins og það heitir á lagamáli.

[23:30]

Það er nokkuð merkilegt að velta því fyrir sér að t.d. Sjálfstfl. leggst ævinlega í mjög harða vörn fyrir því að það megi ekki snerta á eignarréttinum gagnvart eignum eins og landareignum eða fjármagni. Hins vegar telur hann engu máli skipta hvernig farið er með aflahæfið, þ.e. vinnuaflið og þann eignarrétt sem hver maður hefur yfir því. Þetta kemur ágætlega fram þessa dagana, hæstv. forseti, einmitt í þessari stofnun hér vegna þess að fyrir ríkisstjórninni liggur frv. til laga um vernd og þjóðareign á auðlindum í jörðu og virkjanir. Það hefur verið skoðun okkar alþýðubandalagsmanna mjög lengi að jarðhiti og virkjun fallvatna eigi að vera á vegum þjóðarinnar og fallvötnin eigi að vera hennar eign. Við höfum viljað setja um þetta miklu skýrari löggjöf en hefur verið til. Við höfum flutt frv. um þetta. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur flutt um þetta frv. hér á Alþingi árum saman, aftur og aftur og við endurflytjum þessi frv., m.a. nú á yfirstandandi þingi. Þessi frv. hafa alltaf strandað í þessari stofnun. Af hverju hafa þau strandað? Það er ekki vegna þess að menn geri sér ekki grein fyrir því að það þarf að vera til einhver lagarammi af þessu tagi heldur er það vegna þess að í núverandi stjórnarflokkum, og ekki síður í Framsfl. en í Sjálfstfl., eru mjög sterk öfl sem vilja verja einkaeignarréttinn í öllum tilvikum. Þeir eru ekki tilbúnir til að leggja á hann neinar hömlur í neinu tilviki. Þetta er þeim mun athyglisverðara í ljósi þess að á sama þingi hefur hæstv. iðnrh. lýst því yfir að hann ætli að flytja frv. þar sem gert er ráð fyrir því að ríkisstjórnin geri tillögur um það hvernig eigi að takmarka eignarrétt á jarðhita og að því er varðar virkjun fallvatna. En hæstv. iðnrh. kemur málinu ekki fram. Af hverju er það? Það er vegna þess að í Framsfl. og Sjálfstfl. er svo sterk landeigendaandstaða við þau sjónarmið sem fram koma í þessum tveimur frv. Þannig á einkaeignarrétturinn á fjármagni og landi svo að segja algjörlega skothelda talsmenn í stjórnarflokkunum. Þegar hins vegar kemur að því að skerða eða takmarka gildi eignarréttarins á vinnuafli þá er allt annað uppi.

Nú kunna menn að halda því fram að það sé álitamál hvort hægt sé að líta á eignarrétt á vinnuafli eins og um sé að ræða eignarrétt á landi. Í því sambandi hafa fræðimenn haft mjög deildar meiningar. Gaukur Jörundsson, umboðsmaður Alþingis og fyrrv. lektor og prófessor, hefur fjallað um þetta í ítarlegri grein í Úlfljóti, tímariti laganema, þar sem hann segir m.a. um aflahæfið og eignarrétt á aflahæfi manna á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Fræðimenn eru ekki á einu máli hvort telja beri aflahæfi manna til eignar í skilningi eignarnámsákvæða í stjórnarskrá. Paul Andersen segir t.d. að vinnuhæfið verði sennilega að teljast eign í skilningi dönsku stjórnarskrárinnar samanber Dansk statsforfatningsret 1954, bls. 700, 23--724. Alf Ross er á annarri skoðun og virðist reisa hana á því að hinn persónulegi þáttur sé hér yfirgnæfandi samanber Dansk statsforfatningsret II 1960, bls. 541. Kastberg telur aftur á móti aflahæfið njóta verndar eignarnámsákvæða norsku stjórnarskrárinnar. En fyrir lögjöfnun, samanber Norges statsforfatning nr. II er málið talið líta þannig út.``

Síðan segir umboðsmaður Alþingis og það er merkilegt.

,,Bjarni Benediktsson virðist hins vegar þeirrar skoðunar að afla- eða vinnuhæfi manna falli undir hugtakið eign í íslensku stjórnarskránni samanber ágrip af íslenskri stjórnlagafræði II 1948, bls. 106.``

Gaukur Jörundsson fjallar mjög ítarlega um þetta mál og telur sig sýna fram á það, m.a. með þessari tilvitnun í Bjarna Benediktsson, að það verði að líta þannig á að afla- eða vinnuhæfi manna falli undir hugtakið eign eins og það er í íslensku stjórnarskránni. Það er mjög merkilegt, hæstv. forseti, að minna á þetta þegar þess er gætt hversu lítils aflahæfið eða vinnuaflið er metið af núverandi hæstv. ríkisstjórn sem telur að frelsi peninganna sé úrslitaþáttur í framþróun þjóðfélagsins en minna máli skipti hvernig farið er með vinnuaflið. Þetta er grundvallaratriði, hæstv. forseti. Það er grundvallaratriði líka að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að flokkur eins og t.d. Framsfl., án þess að ég ætli að fara að skattyrðast sérstaklega við hann eins og er nú í tísku í þessari stofnun, tekur afstöðu í þessu máli núna algjörlega fjármagnsmegin. Ef við gerum upp hugmyndafræðilegan grunn þeirra mála sem hér eru uppi, annars vegar þessa frv. og hins vegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, þá er það ljóst að þetta er fyrst og fremst flutt og sett á blað til þess að straumlínulaga þjóðfélagið eftir hinum almennu þörfum fjármagnsins frekar en vinnuaflsins. Ég hef ekki heyrt einn einasta framsóknarmann rökstyðja af hverju hann stendur að flutningi þessara frv. eins og þau eru. Það væri mjög fróðlegt að heyra hvaða rök eru fyrir því og fróðlegt að heyra að hve miklu leyti þetta passar við hinn félagslega þátt í stefnu Framsfl. sem er grunnþáttur eða var, í stefnu Framsfl. eins og hún var skrifuð 1916. Ég hef engin rök heyrt af því tagi.

Ég hlýt þess vegna, hæstv. forseti, að lýsa því yfir að ég harma að í umræðunni sem hér hefur farið fram hefur okkur ekki auðnast að setja þessi mál sem skyldi í almennt hugmyndafræðilegt samhengi. Auðvitað eru menn uppteknir af innihaldi málsins og einstökum atriðum þess en það er fróðlegt hins vegar að rifja upp og glöggva sig á því að hér er um að ræða mál þar sem vatnaskilin milli hægri og vinstri í stjórnmálum koma að mörgu leyti, ekki að öllu leyti, en að mörgu leyti nokkuð glöggt fram.

Um þessi mál er einnig fróðlegt í þessu sambandi að velta því fyrir sér hvernig þetta er með opinbera starfsmenn. Eru þeir eitthvað afbrigðilegur þjóðflokkur? Er hægt að hugsa sér að það sé farið með þá allt öðruvísi en aðra í þjóðfélaginu? Það hefur verið skoðun hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórnar. Mér heyrist oft að það sé talað heldur niður til opinberra starfsmanna. Það er nokkuð sérkennilegt því þeir eru að mörgu leyti undirstaða velferðarkerfisins og alveg jafnmikilvægir og allir aðrir Íslendingar þegar upp er staðið. Ég geri ráð fyrir því að þegar menn fjölluðu um kjör opinberra starfsmanna hér fyrr á þessari öld eða á síðustu öld, þá hafi menn yfirleitt verið að tala um embættismenn í mjög þröngri merkingu þess orðs. Það var reyndar ekki fyrr en á miðri síðustu öld að til urðu lagaákvæði um opinbera starfsmenn. Þau voru reyndar ekki um kjör opinberra starfsmanna beinlínis heldur var það konungsbréf og úrskurðir frá því um miðja 19. öld þar sem fjallað var um önnur atriði sem snertu embættismenn á Íslandi og reyndar ekki síst íslenskukunnáttu embættismanna. Það var ekki fyrr en kom fram á árið 1919 að fjallað var um launamál opinberra starfsmanna. Síðan voru sett lög 1935 og 1947 um aldurshámark, 1915 um verkfall opinberra starfsmanna, 1943 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og í 14. kafla hegningarlaganna voru ákvæði um brot í opinberu starfi. Það var þess vegna ekki fyrr en um miðja þessa öld, það er nú ekki lengra síðan, að menn tóku ákvörðun um að reyna að semja frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það frv. var lagt fram á Alþingi 1953. Það var mælt fyrir því af þáv. fjmrh., Eysteini Jónssyni. Í aðdraganda frv. og greinargerð þess er dálítið merkilegt að sjá hverjar aðalundirstöðuheimildir þessara laga voru eins og þau voru samin á sínum tíma. Það er talið upp í þskj. 148 á þinginu 1953--1954 og þar segir, m.a. með leyfi hæstv. forseta, að þetta frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna 1953 ,,... sé byggt á ályktunum og tillögum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.`` Þannig að fyrir liðlega 40 árum töldu menn ástæðu til að fara sérstaklega eftir þeim tillögum sem fluttar voru og lagðar höfðu verið fram af Bandalagi starfsmanna ríks og bæja. Í framsögu Eysteins Jónssonar fjmrh. er þetta rakið mjög rækilega. Ég ætla ekki tímans vegna að fara yfir það í einstökum atriðum en ég ætla að lesa upp það sem ráðherrann segir um 14. gr. þessa frv. vegna þess að það snertir nákvæmlega það sem við erum að tala um hér núna. Þar er verið að tala um svokölluð biðlaun, en núv. fjmrh. hefur verið alveg sérstaklega flinkur við að úthúða biðlaunum eins og kunnugt er. Í ræðu forvera hans 6. nóv. 1953 segir svo, með leyfi forseta:

,,Í 14. gr. frv. er þess vegna mælt svo fyrir að sé opinber staða lögð niður skuli starfsmaður jafnan fá föst laun er starfanum fylgja, greidd í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár en í 12 mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur. Þykir sanngjarnt að mismuna mönnum nokkuð eftir starfsaldri enda rosknum mönnum ógreiðara oft um útvegun nýrra starfa en þeim sem yngri eru. Þá þykir og sanngjarnt að opinber starfsmaður eigi að öðru jöfnu rétt til sömu stöðu ef hún er sett á fót aftur innan skamms tíma og hníga að því ákvæði 2. mgr. 14. gr. sem mæla svo fyrir að sé staðan aftur stofnuð innan fimm ára eigi starfsmaðurinn að öðru jöfnu rétt til hennar.``

Finnst mönnum tónninn í þessari ræðu Eysteins Jónssonar, 1953, kannski eitthvað öðruvísi í garð opinberra starfsmanna en tónninn í þeim ræðum sem fram koma frá núv. hæstv. fjmrh.? Það er alveg ótrúlega lærdómsríkt að lesa umræðuna frá 1953 og 1954 um þessi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, vegna þess að það er svo lærdómsríkt að sjá hvað andinn er annar að því er varðar þessa lagasetningu sem slíka en menn hafa tamið sér að undanförnu af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þó verður ekki sagt að menn hafi á þessum árum að öllu leyti gengið fram á þann hátt að veruleg ánægja hafi verið með það af hálfu opinberra starfsmanna og langur tími leið frá því þessi lög voru sett og þangað til Bandalag starfsmanna ríkis og bæja öðlaðist þá burði sem síðar varð í stéttarbaráttu.

En það er líka fróðlegt að rifja það upp, því að almörgum árum seinna eða um það bil 30 árum síðar var til meðferðar í þessari stofnun frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fyrsta umræða fór fram 1986, þann 3. desember og hæstv. fjmrh. mælti fyrir frv. Hver var hann? Hann heitir Þorsteinn Pálsson. Hvað sagði hann í ræðu sinni? Ég ætla að rifja það upp, hæstv. forseti. En ég ætla að geta þess áður að þá höfðu nýlega verið gerðir kjarasamningar um m.a. leikreglur á vinnumarkaði opinberra starfsmanna og það er nokkuð merkilegt að velta því fyrir sér að þá tóku menn leikreglurnar inn í kjarasamninga. Það er alveg gagnstætt því sem mér finnst að núverandi fjmrh. hæstv. sé alltaf að segja, þ.e. að eitt sé kaupið og allt annað lögin sem séu þar með ekki kjör. Ég tel að lögin séu kjör og það viðurkenndi t.d. þáverandi hæstv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson, árið 1986 þegar hann mælti fyrir frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ég ætla að lesa aðeins úr þeirri ræðu, með leyfi forseta:

[23:45]

,,Miklu skiptir að samskipti og samningar um kaup og kjör milli ríkis og sveitarfélaga og starfsmanna þeirra geti farið fram með eðlilegum hætti og samkvæmt leikreglum sem báðir aðilar viðurkenna. En svo er ekki eins og nú standa sakir. Með hliðsjón af því að samningstímabil núgildandi samninga er senn á enda er brýnt að hið háa Alþingi afgreiði mál þetta hið fyrsta og áður en gert verður þinghlé vegna jóla.`` --- Þetta var 3. desember. --- ,,Ég mælist því til þess við hv. þingdeild að hún fyrir sitt leyti greiði fyrir afgreiðslu málsins.

Að samningu þessa frv.`` --- segir hæstv. þáv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson --- ,,unnu með fjmrn. öll heildarsamtök opinberra starfsmanna en innan þeirra eru næstum allir þeir starfsmenn sem lögin munu taka til, ef samþykkt verða.``

Er ekki einhver munur á þessu og núverandi vinnubrögðum, hæstv. forseti? Og síðan segir:

,,Fulltrúar þessara aðila hafa lagt fram mikið starf og sýnt mikinn samstarfsvilja í þeim tilgangi að tryggja málinu brautargengi. Fullkomin samstaða er milli þeirra og fjmrn. um frv. þetta og ágreiningur um einstök atriði var lagður til hliðar í stað þess að láta hann spilla öðrum málum brýnni og mikilvægari sem full samstaða er um.``

Er ekki dálítill munur á þessu, hæstv. forseti, og vinnubrögðum núverandi ríkisstjórnar gagnvart samtökum opinberra starfsmanna? Það má kannski velta því fyrir sér hvernig standi á því að núverandi ríkisstjórn hefur fyllst þessum ótrúlega hroka. Hvað er það sem hefur gerst í millitíðinni sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin hefur fyllst þessum hroka gagnvart samtökum launamanna í landinu? Það er dálítið umhugsunarvert. Það er ekki bara umhugsunarvert fyrir okkur sem hér erum heldur líka stéttarsamtökin í landinu. Hvað er það sem gerir það að verkum að verkalýðsfélögin lenda í þeirri stöðu að ríkisvaldið þorir á móti þeim eins og hér er verið að gera? Hvað hefur komið upp? Hvað hefur komið upp sem gerir það að verkum að stéttarsamtökin hafa ekki það agavald gagnvart viðsemjanda sínum sem þau höfðu lengi áður? Hvað er það sem hefur gerst? Ég hef út af fyrir sig oft giskað á það, hæstv. forseti, að ein ástæðan fyrir því hvernig komið er og fyrir þessum hroka gagnvart stéttarsamtökunum, sé sú að menn hafa að sumu leyti ofreynt sig við að sitja á samtakamætti launafólks vegna hinnar svokölluðu þjóðarsáttar. Ég held að að sumu leyti hafi menn gengið kannski skrefinu lengra en góðu hófi gegnir og gengið á baráttuinnistæður stéttasamtakanna og þar með skapað möguleika fyrir að stjórnvöld til að leyfa sér að sýna hroka eins og þann sem kemur fram núna og á sér enga hliðstæðu í samskiptum ríkisstjórnar við opinbera starfsmenn um heildarreglurnar á vinnumarkaði. Hér er verið að tala um heildarreglurnar á vinnumarkaði, stjórnarskrá opinberra starfsmanna, kosningalög opinberra starfsmanna, grundvallarlög þeirra og ekkert minna. Ég vitnaði þessu máli til stuðnings, hæstv. forseti, í fyrrverandi hæstv. fjmrh., Þorstein Pálsson, og vil láta það koma fram að stjórnarandstaðan á þessum tíma, þó að hún hefði hvergi komið að þessum málum, taldi engu að síður sjálfsagt að afgreiða málin í þinginu eins og þau lágu fyrir --- það átti a.m.k. við um okkur alþýðubandalagsmenn --- vegna þess að um þessi mál hafði náðst samstaða milli þáverandi ríkisstjórnar annars vegar og opinberra starfsmanna hins vegar.

Eitt af því sem var spurt um í umræðunni var: Er ætlunin með þessum frv., sögðum við, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að hafa áhrif á uppbyggingu félagslegrar skipunar opinberra starfsmanna? Er það tilgangurinn með þessum frv.? Þar vitnuðum við m.a. til 5. gr. frumvarpanna eins og þau lágu þá fyrir. Um þetta atriði, til að undirstrika hvað hæstv. þáv. fjmrh. fannst fráleitt að setja lög í blóra við þá samninga sem höfðu gengið yfir um þessi efni, segir hæstv. fjmrh. á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Vegna ummæla hv. 3. þm. Reykv. um 5. gr. frv. og spurningar um hvort henni væri ætlað að hafa áhrif á félagslega uppbyggingu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þá er því til að svara að það er ekki stefnt að því með frv. að hafa nein áhrif á uppbyggingu félagslegrar skipunar opinberra starfsmanna. Það hefur frá öndverðu í þessu starfi verið afstaða fjmrn. að opinberir starfsmenn ættu að ráða því sjálfir með hvaða hætti þeir haga skipulagi og uppbyggingu félagsstarfs síns.``

Hér er um að ræða gífurlega merkilega yfirlýsingu frá þáv. hæstv. fjmrh. Og alveg nákvæmlega eins og fram kom hér áðan í tilvitnun minni í fyrrverandi hæstv. fjmrh., Eystein Jónsson, er hér um að ræða allt annað viðhorf og allt annan tón gagnvart opinberum starfsmönnum en kemur fram í tíð núv. hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar.

Það er kannski rétt að geta þess líka, hæstv. forseti, að frá umræðunum á Alþingi um kjarasamninga opinberra starfsmanna 1986, ríkti mjög góð samstaða um þessi mál. Það tóku allir undir þau sjónarmið sem fram höfðu komið frá hæstv. ráðherra og frá stéttarsamtökunum eins og þau lágu þá fyrir.

Af einhverjum ástæðum hef ég gaman af að lesa eina tilvitnun, hæstv. forseti, úr efri deild Alþingis fyrir hæstv. fjmrh. sem er á þessa leið:

,,Virðulegi forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að fagna þessu máli og því víðtæka samkomulagi sem náðst hefur milli fjölmargra aðila um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Hér eiga margir aðilar hlut að máli, samstaðan er mjög víðtæk og henni vil ég fagna hér.`` sagði þingmaður Kvennalistans, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Það má því segja að það hafi verið mjög víðtæk ánægja með það hvernig að þessum málum var staðið á sínum tíma, 1986 eins og hafði verið 1954. Allir flokkar tóku undir þessi sjónarmið og það er satt að segja dálítið umhugsunarefni hvað það er ólíkt þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu og hér í þessari stofnun þegar ríkisstjórnin kýs að segja í sundur friðinn í landinu með því að knýja í gegnum þingið frv. eins og það sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Það er náttúrlega alveg ljóst að ríkisstjórnin vill frekar stríð um málið. Það er greinilegt að hún kýs frekar stríð en frið um málið. Hún vill átök. Hún vill sýna hver hefur valdið. Þeir vilja sýna hver hefur meiri hluta á Alþingi. Þeir vilja sýna hnefann og láta hlýða sér. Það er greinilegt. Þetta mál var t.d. tekið út úr efh.- viðskn. --- var það ekki? --- daginn fyrir 1. maí. Það var auðvitað til að storka. Það var enginn annar tilgangur með því. Það er alveg augljóst mál. Það var tekið út til að storka, sýna hver valdið hefur. Og það var fróðlegt að hlusta svo á hæstv. blessaðan félmrh. sem sá ekki nema tvo menn á Lækjartorgi þar sem voru þúsundir að mótmæla þessu. Þetta segir okkur auðvitað dálítið um ríkisstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl., þessar helmingaskiptastjórnir, þar sem menn eru algjörlega blindir á verkalýðshreyfinguna þegar þeir leggja saman og má ekki á milli sjá hvor þeirra er blindari þegar að því máli kemur.

Hæstv. forseti. Ég hef tekið eftir því að í umræðum um þessi mál hefur fjmrh. og stjórnarliðið kvartað undan öllum umsögnunum. Ég man ekki betur en það væri jafnvel talað um að þetta væri hið versta mál því það væri svo mikið pappírsflóð og pappírseyðsla í þessum málum. Og hæstv. fjmrh. hefur aftur og aftur sagt: ,,Ég hef nú setið hérna undir öllum þessum ræðum``, segir hann, aumingja blessaður kallinn, með leyfi forseta, og kvartar undan því að hann sé orðinn svo gasalega þreyttur og þetta séu 30 tímar og 100 mín. að meðaltali --- það er örugglega alveg rétt því þær eru dýrar tölvurnar í fjmrn. --- og hann sé orðinn lúinn á þessu og þessum óskaplegu umsögnum sem menn eru alltaf að lesa hérna og alltaf sömu umsagnirnar. Og svo eru menn alltaf að lesa þetta sama prófessorabréf, ,,fjórum sinnum``, sagði ráðherrann, gasalega þreyttur og toginleitur, með leyfi forseta, eftir allt þetta. Það er kannski ekki á það bætandi en ég ætla að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, ég ætla að leyfa mér úr þessum stól að lýsa því yfir að ég er þakklátur því fólki sem hefur fyrir því að hafa skoðanir á málum á Alþingi. Ég er þakklátur því fólki sem sendir umsagnir. Ég er þakklátur því fólki. Og ég er þakklátur því fólki sem sendir ítarlegar umsagnir um þingmál. Ég verð hins vegar að játa það að ég óttast að það sé ekki farið nægilega vel yfir þessar umsagnir. Það er mér nokkurt umhugsunarefni þegar Alþingi sendir út beiðni um að einhver stofnun eða félag geri athugasemdir við frv. Svo koma athugasemdirnar. Þetta eru kannski ítarleg plögg sem menn hafa vandað sig við, legið yfir langtímum saman og svo kemst fólk að því að það er eiginlega ekkert með þetta gert. Er þetta ekki dálítill dónaskapur við þetta fólk? Og svo er auk þess talað illa um þessa pappírshauga ofan í kaupið eins og hæstv. fjmrh. og hans liðsmenn gera hér. Ég er ekki viss um að hv. formaður efh.- og viðskn. hafi náð að fara mjög nákvæmlega yfir þessar umsagnir. Ég er ekki viss um það. (VE: Lesið þetta upphátt.) Ég er ekki viss um það. Ég held að það sé alveg augljóst mál að þeir sem hafa lagt í þetta verulega vinnu, hljóta að hafa það á tilfinningunni að það hafi kannski ekki verið nægilega mikið með þetta gert. Þetta eru alvarlegir pappírar. Þetta er ekki eitthvað sem fólk kastar höndunum til við í fljótræði. Það er alveg greinilegt að hér er um að ræða alveg þrautunnar umsagnir. Eru menn svo miklar mannvitsbrekkur í efh.- og viðskn. og á Alþingi Íslendinga og í fjmrn. að það sé bara hægt eiginlega að lesa þetta upphátt og inn um annað eyrað og út um hitt? Er það tilfellið? Ég ber mikla virðingu fyrir lestrarhæfileikum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar en ég verð að segja alveg eins og er að ég dreg gríðarlega í efa að hann hafi haft öll móttökutæki mjög vel opin á sama tíma og hann las upp textana. Þetta er ekki eitthvað sem menn kasta höndunum til við eins og stundum gerist, eins og t.d. með ályktanir og svona fljótræði. Hér er greinilega um að ræða alveg þrautvandaðar umsagnir.

Ég tel ástæðu til þess af því að hv. formaður efh.- og viðskn. hefur ekki gert það, að þakka fyrir þessar umsagnir. Ég vil þakka t.d. fyrir umsögnina frá Bandalagi háskólamanna sem er ákaflega ítarlegt plagg og alveg þrautunnið, þar sem farið er mjög ítarlega yfir þessi mál og t.d. eru ákvæðin um opinbera starfsmenn hér á landi borin saman við það sem gerist í löggjöf annars staðar, m.a. í Þýskalandi og í Evrópusambandinu. Hér er um að ræða umsögn sem er upp á fleiri tugi síðna. Ég hef ekki orðið var við það, þó að menn hafi hreyft ýmsum þáttum í þessu skjali, að menn hafi lyft því upp að auga sér og sagt: ,,Við fulltrúar ríkisstjórnarinnar ætlum að taka mark á þessu.`` Alveg þvert á móti hef ég upplifað tilfinninguna þannig að þessum mönnum þætti heldur verra að fá þessa pappíra, heldur verra. (VE: Nei. Mjög gott.) Þegar menn ekki þakka fyrir sig (VE: Ég þakka fyrir mig.) þá dreg ég þá ályktun að menn hafi helst ekki viljað fá þetta. A.m.k. voru þær þakkir ákaflega hljóðar, hæstv. forseti, hjá hv. þm. (VE: Þú hefur ekki hlýtt á ræðuna.) Ég hlýddi einmitt á ræðu hv. þm. Hún var ákaflega athyglisverð. (VE: Það hefur farið inn um annað og út um hitt.) Það er að vísu nokkuð til í því, já.

[24:00]

Ég nefni líka, hæstv. forseti, fjölmargar umsagnir frá samtökum starfsmanna hins opinbera sem ég tel að hafi allar verið býsna fróðlegar og ótrúlega sterkar. Ég bendi t.d. á þann texta sem kemur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þar er farið mjög ítarlega yfir efnisatriði þessa frv. Hér er hreyft rökum í ýmsum málum sem ég sé ekki að menn hafi tekið nægilega mikið tillit til. Þar með tel ég að menn hafi gert heldur lítið úr þessu. Af hverju tekur ekki hæstv. fjmrh. meira mark á samtökum opinberra starfsmanna í þessu máli? Af hverju vill hann vera í stríði við opinbera starfsmenn? Nú þekki ég hæstv. fjmrh. vel frá fyrri árum og veit að honum er ekki illa við fólk af fyrra bragði. Og hann sofnar örugglega ágætlega á kvöldin án þess að vera vondur við fólk og ég er viss um að hann er oft góður við börn og gamalt fólk. Það er ekki vafi á því. En af hverju er það þá sem hæstv. fjmrh. þarf endilega að vera í þessu geðvonskustríði við opinbera starfsmenn? Og við launamarkaðinn eins og hann leggur sig því það er allt það sem er undir í þessu. Af hverju er það? Ég held að það hafi ekkert með innrætið að gera hjá hæstv. ráðherra. Ég held að það sé fyrst og fremst það að hann er fangi tiltekinna ofstækissjónarmiða markaðarins og fjármagnsins. Frelsi fjármagnsins er uppspretta alls að hans mati, jafnvel þó það þýði fjötrar á fólkið. Ég tel að þetta sé hans vandi og komi fram í þessum málum og birtist með þeim hætti sem menn sjá hér. Meðal annars með þeim hætti að ég sé ekki að þessir menn geri í raun og veru neitt eða a.m.k. sáralítið með það sem opinberir starfsmenn hafa að segja.

Ég ætla ekki að fara yfir allar þessar umsagnir í einstökum atriðum þótt margt í þeim sé ákaflega fróðlegt. Ég tel t.d. fulla ástæðu til að fara nokkuð rækilega yfir umsögn Kennarasambands Íslands svo ég nefni dæmi. Og ég tel að hér séu einnig alveg sérstaklega skemmtilegar bókmenntaperlur svo ég segi ekki annað um það af því ég get ekki neitað mér um það að nefna þetta með stjórn Prestafélagsins þó ég ætli ekki að fara að lesa það upp. Mér fannst það skemmtilegt því ég hef miklar mætur á þeim texta sem kemur frá formanni Prestafélagsins sem skrifar í Reykholti á kyndilmessu 1996 alveg unaðslegan texta um köllun presta til embættis sem ég vona að allir þingmenn þaullesi. Ég ætla ekki að fara yfir það hér en ég ætla að lesa eina umsögn í heild. Hún er nokkuð löng en ég ætla að lesa hana. Hún er ekki um Ágsborgarjátninguna ef hæstv. fjmrh. óttast það. Ég ætla ekki að segja orð um þessa umsögn annað en það að ég ætla að lesa hana. Hún er þrjár síður, A4. Umsögn Félags starfsmanna Alþingis og starfsmanna Ríkisendurskoðunar er dags. 17. apríl 1996. Með leyfi forseta:

,,Vísað er til bréfa efh.- og viðskn. Alþingis þar sem óskað er eftir umsögnum Félags starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélags Ríkisendurskoðunar um frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Félögin hafa ákveðið að skila sameiginlegri umsögn um málið.

Gildandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru frá árinu 1954. Miklar þjóðfélagsbreytingar hafa orðið frá þeim tíma og má fallast á að nauðsynlegt sé að færa margt í lögunum til nútímalegra horfs. Mikilvægt er að ríkið móti skýra starfsmannastefnu og kynni hana rækilega. Að svo miklu leyti sem þetta er gert í umræddu frv. er það í sjálfu sér fagnaðarefni. Sé á hinn bóginn litið á þetta frá sjónarhóli stéttarfélaga ríkisstarfsmanna er margt sem stingur í augun. Verður hér á eftir vikið nánar að þeim atriðum sem félögunum þykja aðfinnsulverð.

Í V. kafla athugasemda með frv. er greint frá því að eitt meginmarkmið þess sé að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Í frv. er hins vegar hvergi gerð nákvæm grein fyrir í hverju meintur ójöfnuður er fólginn eða útskýrt hvernig ná á fram jöfnuði þarna á milli. Þeim jöfnunaráformum frv. sem lúta að því að skerða fyrirliggjandi réttindi ríkisstarfsmanna er mótmælt. Í þessu sambandi má benda á ýmis þau atriði sem forsvarsmenn BHMR, BSRB og KÍ hafa haldið á lofti og varða m.a. breytingu á ráðningarformi, skerðingu á ráðningarfestu, afnám eða skerðingu á biðlaunarétti og almenna skerðingu málskotsréttar. Til viðbótar þessu vilja Félag starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélag Ríkisendurskoðunar sérstaklega benda á eftirfarandi atriði:

1. Mismunandi tegundir starfsmanna. Frv. gerir ráð fyrir að starfsmönnum ríkisins verði skipt í tvo flokka, þ.e. embættismenn og aðra starfsmenn. Í grg. með frv. á bls. 21 þar sem færð eru rök að þessari skiptingu segir m.a.

,,Samkvæmt því gerir frv. ráð fyrir að mismunandi reglur gildi um starfsmenn ríkisins eftir því hver réttarstaða þeirra er. Þannig er lagt til að starfsöryggi þeirra starfsmanna, er hvorki njóta samnings- eða verkfallsréttar, verði tryggt nokkuð betur en venja er meðan aðrir starfsmenn ríkisins, er njóta almennt samnings- og verkfallsréttar, búi við svipað öryggi í starfi og launþegar á hinum almenna vinnumarkaði.``

Starfsmenn Alþingis og stofnana þess hafa ekki verkfallsrétt og er í 56. gr. frv. gert ráð fyrir að svo verði áfram. Samningsréttur þessara starfsmanna er því takmarkaður. Þrátt fyrir óljóst orðalag 22. gr. virðist af athugasemdum mega ráða að örfáum starfsmönnum Alþingis og Ríkisendurskoðunar sé ætlað að falla í flokk embættismanna. Meginþorri starfsmanna Alþingis mun því búa við skert starfsöryggi þrátt fyrir sín takmörkuðu réttindi. Þar er því í raun um þriðja flokkinn að ræða, þ.e. starfsmenn með samningsrétt, en án verkfallsréttar. Ekki virðist frv. gera ráð fyrir að koma að neinu leyti til móts við þessa starfsmenn heldur eiga þeir að hafa alveg sömu réttindi og skyldur og sá stóri hópur ríkisstarfsmanna sem hefur bæði samnings- og verkfallsrétt.

2. Staða Alþingis. Íslensk stjórnskipun byggist á þrískiptingu ríkisvaldsins, í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Gengið hefur verið út frá því að sjálfstæði hvers þáttar fyrir sig skuli vera sem mest. Því er mikilvægt að Alþingi og þær stofnanir sem starfa í skjóli þess séu eins óháðar framkvæmdarvaldinu og kostur er. Með lögum nr. 94/1986, um kjarasamning opinberra starfsmanna, var þeirri skipan komið á að forsetar Alþingis gera kjarasamninga við starfsmenn Alþingis, en fram til þess tíma hafði fjmrh. verið viðsemjandi starfsmanna þingsins. Knúið var á um þessa breytingu til að skerpa á sjálfstæði þingsins. Samkvæmt frv. virðist hins vegar eiga að stíga skref aftur á bak í þessum efnum. Þannig er gert ráð fyrir að fjmrh. setji eða staðfesti reglur til frekari útfærslu á lögunum, sbr. 7., 8., 9. og 42. gr., sem forsetum Alþingis ber að taka mið af á sama hátt og æðstu stjórnendur framkvæmdarvaldsins, skv. 51. gr., m.a. við ákvarðanir á viðbótarlaunum til starfsmanna. Þá gerir 4. gr. ráð fyrir að fjmrh. skeri úr ágreiningi um gildissvið laganna og skv. 47. gr. ákveður fjmrh. laun og launakjör þeirra starfsmanna sem kjósa að standa utan stéttarfélaga. Ekki virðist ætlunin að forsetar þingsins komi nálægt þessum ákvörðunum þegar í hlut eiga starfsmenn þingsins. Nauðsynlegt er að frv. verði yfirfarið í ljósi þessara athugasemda.

3. Reglur fjármálaráðherra. Margt er óljóst eins og málið horfir við í dag í sambandi við þau ákvæði frv. sem fjmrh. er ætlað að setja nánari reglur um framkvæmd á. Ekkert segir t.d. um það í 9. gr. hvort ,,launaaukinn`` verður sýnilegur eða einkamál forstöðumanns og hlutaðeigandi starfsmanns. Þannig er erfitt að sjá hvort ákvæðið feli í sér raunveruleg réttindi starfsmanna eða ekki. Því er mikilvægt að fjmrh. kynni í hverju það regluverk sem honum er ætlað að setja verði fólgið áður en frv. verður afgreitt sem lög frá Alþingi.

4. Uppsagnir starfsmanna. Alls ekki er ljóst hvaða tilgangi áminning skv. 21. gr. er ætlað að þjóna því samkvæmt skýru ákvæði 44. gr. er hún ekki nauðsynlegur undanfari uppsagnar. Uppsagnir hljóta ávallt að þurfa að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Það ætti að vera lítið mál fyrir forstöðumann að gefa starfsmanni upp ástæður fyrir uppsögn, svo sem að fækka þurfi starfsfólki vegna samdráttar í rekstri eða einfaldlega að hlutaðeigandi starfsmaður sé óhæfur til að gegna því starfi sem hann var ráðinn í. Eðlilegt er að lögin kveði á um slíka skyldu. Loks skal bent á að ekki er gert ráð fyrir að starfsmaður sem sagt er upp geti skotið máli sínu til æðra stjórnvalds en slík heimild er fyrir hendi í dag samkvæmt stjórnsýslulögum.

5. Tilflutningur embættismanna. Í 36. gr. er gert ráð fyrir að heimilt verði að færa embættismann úr einu embætti í annað og jafnvel í embætti er lýtur öðru stjórnvaldi. Ef nýja embættið er lægra launað skal greiða honum launamismuninn þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í fyrra embættinu. Ákvæði þetta er sagt sett með stoð í 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir:

,,Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.``

Vart verður ákvæðið skilið öðruvísi en svo að það sé órjúfanlegt skilyrði að embættismanni sem fluttur er til í starfi gefist kostur á lausn frá embættinu með hinum lögmæltu ellilaunum eða ellistyrk. Lífeyrisgreiðslur hafa leyst af hólmi eldri greiðslur í formi eftirlauna eða ellistyrks. Íslenskir lífeyrisþegar byrja hins vegar ekki að fá lífeyri fyrr en við örorku eða eftir að hafa náð tilteknum aldri. Í Danmörku, þar sem sambærilegt ákvæði er til staðar, öðlast menn hins vegar rétt til greiðslu fulls lífeyris ef þeim er sagt upp starfi af ástæðum sem ekki eru þeim sjálfum að kenna. Er þar litið svo á að það sama eigi við ef embættismaður er fluttur til í starfi. Ef ætlunin er að lögfesta framangreitt ákvæði frv. óbreytt þarf a.m.k. að skoða hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins í svipað horf og gildir í Danmörku.

Benda má á að Hæstiréttur hefur kveðið upp dóma þar sem embættismönnum voru dæmdar bætur vegna frávikningar á grundvelli 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar.

6. Starfsmenn utan stéttarfélaga. Í 2. mgr. 47. gr. er mælt fyrir um að starfsmenn geti staðið utan stéttarfélaga og er gert ráð fyrir að þeir starfsmenn njóti sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Nauðsynlegt er að það liggi fyrir meðan frv. er til umfjöllunar á þinginu hvort ætlunin sé að 7. gr. laga nr. 94/1981, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, haldi gildi sínu, en þar er kveðið á um að starfsmenn sem standa utan stéttarfélaga greiði gjald til þess stéttarfélags sem þeir ættu að tilheyra, eða hvort ætlunin sé að gera einhverjar breytingar þar á. Ekki verður annað séð af orðalagi framangreinds ákvæðis en að það verði í raun og veru stéttarfélögin sem semji fyrir hönd þessara starfsmanna líka þótt óbeint sé.

Það skal að lokum tekið fram að sökum sérstöðu þeirra félaga sem standa að þessari umsögn hvað varðar tengsl þeirra við þingið er þess óskað að félögin verði ekki kölluð sérstaklega fyrir nefndina vegna málsins.``

Þetta vildi ég lesa upp, hæstv. forseti, vegna þess að hér er m.a. um það fólk að ræða sem við leitum oft til sem hér erum og erum að fjalla um ýmis mál. Einnig vegna þess að að nokkru leyti hefur verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem ég hef lesið upp. Það er þakkarvert og ég geri engar athugasemdir við það. En mér finnst að þessar athugasemdir séu þannig að þær ættu að gefa mönnum tilefni til að staldra við og fresta afgreiðslu þessa máls.

Ég vil síðan, hæstv. forseti, víkja aðeins að umsögn Alþýðusambands Íslands sem sendir ítarlega umsögn um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég tel pólitískt mikilvægt að undirstrika að Alþýðusamband Íslands tekur mjög afdráttarlaust undir þær kröfur að þetta frv. sem hér liggur fyrir verði ekki að lögum á yfirstandandi þingi. Ég hugsa satt að segja að það sé orðið nokkuð langt síðan að Alþýðusambandið hefur tekið jafnákveðið til orða að því er varðar réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og gert er í þessu frv. Því held ég að það sé ástæða til þess, m.a. vegna þess að ég fjallaði áðan sérstaklega um samstöðuna í stjórnarandstöðunni og samstöðu verkalýðssamtakanna um þessi mál þá held ég að ástæða sé til að undirstrika þá samstöðu með því að lesa nokkrar línur upp úr umsögn Alþýðusambands Íslands um fyrirliggjandi frv. en þar segir svo, með leyfi forseta:

[24:15]

,,ASÍ ætlast til þess af Alþingi að frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verði ekki að lögum í því formi sem það liggur nú fyrir þinginu. Miðstjórnin væntir þess að á næstu mánuðum verði þetta mál til umræðu ásamt þeim öðrum frv. og hugmyndum sem fram hafa komið um réttarstöðu launafólks á Íslandi á sameiginlegum vettvangi ríkisvalds og verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnurekenda. Samráð á slíkum vettvangi er eina aðferðin sem einhver von er til að leiði til samkomulags um niðurstöður er til farsældar horfa.``

Þetta segir Alþýðusamband Íslands, hæstv. forseti, um það mál sem við erum hér að ræða og má segja að hæstv. félmrh. hafi svarað þeirri spurningu sem mér kemur oft í hug þessa daga í þinginu: Af hverju er ríkisstjórnin að reyna að pressa þetta mál í gegn í stríði við allt og alla? Er það út af kjarasamningunum í haust? Það sagði hæstv. félmrh. vegna þess að hann virðist vera þeirrar skoðunar að þessi frv. eigi að nota, ef þau verða að lögum, eins og svipu til að láta hvína yfir hausunum á launafólki í landinu. Hvert er hið einfalda svar hæstv. fjmrh. við þessu? Af hverju er verið að knýja á um það að þessi mál verði að lögum í stríði við alla? Hvað er það sem rekur á eftir? Nákvæmlega hvað er það? Væri ekki venjulegra og heppilegra út frá launastefnu ríkisins og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að það væri sest yfir þessi mál og reynt að semja um þessi mál í pakka? Ég tek eftir því að hæstv. fjmrh. orðar það þannig að ekki sé verið að taka neitt af fólki sem er umsamið. Mig minnir að hann orði það þannig. Ég er algerlega ósammála þeim sjónarmiðum. Ég tel að hann sé að taka kjör af fólki með þessum breytingum á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hann er að skerða kjör. Menn hafa sætt sig við það á undanförnum árum og áratugum að laun opinberra starfsmanna væru ákveðin að einhverju leyti með hliðsjón af þeim aðstæðum sem þeir búa við að ýmsu leyti sem sumar hafa verið taldar til kjarabóta. Þess vegna er augljóst mál að um leið og þessum lögum er breytt í blóra við opinbera starfsmenn eins og á að gera þá er náttúrlega verið að lækka hjá þeim kaupið. Það jafngildir kauplækkun það er alveg augljóst mál en ekki kauphækkun eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilssin virðist halda. Það er verið að taka ákvörðun um kauplækkun á þessu fólki. Það er ekki nokkur leið að halda öðru fram. En fróðlegt væri að vita hvert væri hið einfalda svar hæstv. fjmrh. við þessari spurningi því nóg er nóttin og væri hægt að ræða þetta mál enn frekar.

Ég hef farið yfir þó nokkrar umsagnir og þykir satt að segja leitt að hafa ekki farið yfir þær allar því þeir sem hafa sent þetta inn eiga skilið að farið sé rækilega yfir málin úr þessum ræðustól. En ég ætla aðeins, hæstv. forseti, að víkja að öðrum hópi ráðgjafa okkar hér. Við höfum talað um starfsmenn Alþingis og Ríkisendurskoðunar og ég ætla að víkja að öðrum hópi sem fær kaup fyrir að veita ríkisstjórninni og framkvæmdarvaldinu ráð og það er Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Það er afar ítarleg umsögn, sem kom inn 17. apríl og er allmargar síður, þannig að tímans vegna er ekki kostur að fara að lesa það upp í einstökum atriðum. En hér er bent á mjög mikilvæg atriði, m.a. varðandi ráðningarfestuna en það er eins og enginn þori að tala um hana. Bent er á það undirstöðuatriði að störf embættismanna hafa mikla stjórnskipulega þýðingu og farið er mjög nákvæmlega yfir þær brtt. sem gerðar eru við lögin um þetta fólk. Ég held satt að segja að það sé dálítið skrýtið að sjá þessa ítarlegu athugasemd frá háskólamenntuðum starfsmönnum Stjórnarráðsins þegar þess er gætt að væntanlega kemur frv. ofan úr Stjórnarráði en það er eins og enginn af þessum embættismönnum hafi komið nálægt þessu frv. Það virðist vera algjörlega víst. Hvar var frv. samið, hæstv. ráðherra? Það var verið að tala um að það hefði verið samið aðallega úti í bæ. Væntanlega hafa þessir venjulegu embættismenn Stjórnarráðsins ekki komið mikið nálægt þessum textum --- eða er það? Það virðist ekki vera þannig. Mér sýnist að málið liggi þannig að einhverjir allt aðrir hafi verið kallaðir til. Það er ástæða til að harma það því að þarna er um að ræða fólk sem kann til verka. Þó að menn áskilji sér allan rétt til að fara misjafnlega eftir því sem sagt er og frá þessu fólki kemur finnst mér full ástæða til að ætlast til þess að það sé a.m.k. haft með í ráðum þegar verið er að semja svona texta vegna þess að mér liggur við að segja að það sé fag þessa fólks að setja saman texta af þessu tagi.

Eins og fram hefur komið hjá hæstv. fjmrh. og hv. formanni efh.- og viðskn. eru þeir báðir orðnir mjög þreyttir menn þannig að ég ætla í sjálfu sér ekki að fara að fara yfir einstök atriði í frv. vegna þess að það hefur verið gert oft áður eins og hæstv. ráðherra hefur sagt. Hann segist hafa svarað öllum hugsanlegum spurningum um þetta frv. Ég ætla svo sem ekki að spyrja hann að neinu en ég ætla að halda til haga nokkrum atriðum sem mér finnast skrýtin í þessu frv. Það kann út af fyrir sig vel að vera að það hafi áður verið fjallað um þau, ég ætla ekki að fara ítarlega yfir málið. Ég ætla að segja alveg eins og er að mér finnst ákvæði í 4. gr. skrýtin um það að fjmrh. hafi þetta algjöra úrskurðarvald um að skera úr um gildissvið laganna. Mér finnst nokkuð langt gengið eins og þetta er sett upp þarna. Mér finnst líka auglýsingagreinin afar tætingsleg, jafnvel eftir breytinguna. Mér finnst það ekki vönduð lagasetning sem þar er í uppsiglingu. Ég held að menn hefðu átt að skoða það mál aðeins betur. Ég tel að eins og reglurnar eru settar upp sé hætta á tilviljunarkenndum geðþóttaákvörðunum vegna þess að forstöðumönnum stofnana er heimilt að haga þessum málum nokkurn veginn eins og þeim sýnist. Það eru því ekki skýrar reglur um það hvernig eigi að fara með málin þó að búið sé að fella út síðasta málslið 2. mgr. 7. gr. um minni háttar og meiri háttar skrifstofustörf eins og við þekkjum. Ástæða er til að þakka fyrir það. En ég óttast að framkvæmd skv. 2. mgr. gæti orðið tilviljunarkennd vegna þess að sá rammi sem setja á um starfsemi forstöðumannanna liggur ekki fyrir að því er mér er kunnugt um.

Að því er varðar 13. gr. þá fannst mér orðalagið á henni í upphafi lítillækkandi. Mér fannst nálgunin sýna ákveðna tilhneigingu til að tala að ofan til opinberra starfsmanna alveg eins og með ,,minni háttar skrifstofustörf``. Hérna segir:

,,Starfsmenn eiga rétt á sveigjanlegum vinnutíma samkvæmt ákvörðun forstöðumanns enda verði slíku við komið að skaðlausu.``

Nú er búið að laga þetta aðeins en þetta var dæmi um lítillækkandi ákvæði. Ég tel einnig að í ákvæðunum eins og þau voru í 21. gr. og eru að nokkru leyti enn sé svipaður tónn. Ef menn vilja gera þetta að lögum og bera ábyrgð á því er það svo sem þeirra mál og ekki mitt að benda þeim á hluti en mér finnst samt ósmekklegt að tala að ofan til starfsmanna sinna eins og mér finnst vera gert í þessari grein.

Varðandi takmarkaðan ráðningartíma í 23. gr. þá hafa menn talsvert talað um það. Ég get út af fyrir sig játað að ég er sennilega í hópi þeirra stjórnmálamanna sem hef talað einna mest um að það eigi að ráða menn til takmarkaðs tíma. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri lýðræðislegt, veitti aðhald, það tryggði jafnvel frískari stýringu á hlutunum ef þannig væri að málum staðið. Ég tel t.d. að æviráðning útvarpsstjóra sé ekki skynsamleg svo ég taki dæmi. Það eigi að ráða slíka menn til takmarkaðs tíma í senn. Sérstaklega þegar um er að ræða stofnanir sem eru á samkeppnissviði finnst mér að það eigi að velta því fyrir sér. Aftur á móti þegar um er að ræða aðra starfsmenn ríkisins þá finnst mér að þessi tímabundna ráðning þurfi ekki alltaf endilega að vera af hinu góða. Ég held að stjórnkerfið eigi að temja sér faglega og vandaða festu líka. Ég tek að vísu eftir því að núv. ríkisstjórn tekur ekkert mark á því sem kalla má faglega eða vandaða festu í stjórnkerfinu eins og kemur m.a. fram í því að einhverjir aðrir en embættismenn eða starfsmenn í ráðuneytunum fá að semja frv. eins og þetta. En ég held að menn eigi ekki að ganga of langt í því að kollvarpa því að til sé tiltekin samkvæmni í embættisathöfnum og ákvörðunum hjá okkur. Þess vegna finnst mér að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að það sem hefur verið kallað festa í þessum efnum er ekkert skemmtiatriði heldur er um að ræða tiltekna alvöru sem getur m.a. stuðlað að því að treysta það sem er stundum kallað kjölfestan í okkar þjóðfélagi.

Mig langar í sjötta lagi varðandi einstök ákvæði í frv. líka að nefna 47. gr. Hún er satt að segja alveg ótrúleg þar sem kveðið er á um rétt starfsmanna til að standa utan stéttarfélaga eins og það er orðað í frv. Um það hafa félagar mínir í stjórnarandstöðunni sagt margt og ég ætla ekki að þreyta hinn langþreytta hæstv. fjmrh. á því að endurtaka það. En ég get ekki farið úr ræðustólnum án þess að nefna það vegna þess að mér finnst þetta eitt af ljótustu atriðum þessa frv.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir nokkur atriði, bæði almennt og ég hef reynt að setja málið í almennt pólitískt samhengi. Ég hef bent á það og viðurkennt að við stjórnarandstæðingar höfum ekki sparað ræðuhöld, við höfum haldið hér eins og eina ræðu á mann hver. Hæstv. fjmrh. hefur ekki reiknað það út í kvöld eftir kvöldfréttirnar eða svo hvað þetta eru margar mínútur á mann en menn hafa talað dálítið. Það er alveg ljóst að menn gætu talað meira, menn hafa ekki fullnýtt rétt sinn samkvæmt þingsköpum. Menn eru þar með ekki í neinu málþófi þó að þessar ræður hafi verið fluttar, það er svo langt frá því. Það er beinlínis ósmekklegt þegar hæstv. fjmrh. er að halda því fram að við séum að reyna að hindra lýðræðið og framgang þess. Við hörmum ef ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar í gegn með mál af þessu tagi, okkur þykir það leitt. Við bendum á það og við eigum málskotsrétt, bæði út í þjóðfélagið og til næstu alþingiskosninga. Við getum líka bent á í þessu samhengi að í haust verða allir kjarasamningar lausir. Það er væntanlega ljóst mál að þau kjör sem eru ákveðin í þessum lögum eða öðrum munu hafa áhrif á þá kjarasamninga og aðkomuna að þeim kjarasamningum. Það getur ekki hjá því farið. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin sé svo skyni skroppin að hún haldi að hún sé að greiða fyrir kjarasamningum með þessum vinnubrögðum með því að slíta sundur friðinn hér í þessari stofnun og úti í þjóðfélaginu líka.

Ég held að ástæða sé til að ítreka þess vegna þrátt fyrir allt þá áskorun okkar að ríkisstjórnin dragi þessi frv. til baka og hefji eðlilegar viðræður við stéttarsamtökin í landinu. Það er vont fyrir Ísland ef ríkisstjórnin heldur áfram með þessi mál. Það er vont fyrir þjóðina. Það hefur ekki bara með að gera innihald þessara frv., það hefur með að gera hið almenna umhverfi í samfélaginu. Ég held að það væri skynsamlegt ef greindir og réttsýnir menn eins og hæstv. fjmrh. á til að vera velti því fyrir sér hvort það er ekki leið til að hætta þessari vitleysu eins og þetta lítur út hér vegna þess að það bætir ekki neitt. Það er alveg ljóst að ef stjórnarandstaðan nýtti sér allan þann rétt sem hún hefur samkvæmt þingsköpum gætum við verið hér fram á forsetakosningar, svo ég nefni nú dagsetningu sem hefur stundum verið nefnd, vegna þess að menn eiga talsverðan rétt til að tala ef menn t.d notuðu sams konar aðferðir og Sjálfstfl. notaði þegar hann var að tala á móti frv. um stofnun umhvrn. En það eru 115 dálkar í Alþingistíðindum. Þá yrðum við náttúrlega fram á 29. júní en núverandi stjórnarandstaða er svo ábyrg að hún hagar sér ekki þannig. Ábyrgðarlausasta stjórnarandstaða sem er til á Íslandi er þegar Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu. Þá er einskis svifist eins og kom fram þegar þeir ætluðu að koma í veg fyrir að stofnað yrði umhvrn. og töluðu 115 dálka í Alþingistíðindum. Núv. stjórnarandstaða er ekki með neinar hugmyndir uppi en hún hefur samt sem áður sýnt í þeirri umræðu sem hefur farið fram til þessa styrk sinn og samstöðu. Það er mjög mikilvægt, ekki bara innbyrðis í sinn hóp á milli flokkanna sem hér eiga fulltrúa sem er mjög mikilvægt heldur líka styrk sinn og samstöðu með stéttarsamtökunum í landinu. Kannski er það tilvísun til pólitísks framtíðarveruleika sem gæti orðið þannig að svona hrokaframkoma við stéttarsamtök eins og sýnd hefur verið að undanförnu verði ekki reynd aftur.