Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 15:01:26 (5982)

1996-05-14 15:01:26# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[15:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði, annað getur beðið þangað til ég tek þátt í umræðunum enda ekki hægt að koma öllu að í andsvari.

Ég vil fyrst segja að ég met það mjög mikils og hef sagt það áður að hv. þm. hefur sýnt mikinn áhuga í verki og sótt ráðstefnu fjmrn. um nýskipan í ríkisrekstri. Ég vil enn fremur láta koma fram varðandi launakerfið, sem hún talaði um í ræðu sinni og hversu miðstýrt það er, að fjmrn. er ekki horfið frá þeirri hugmynd að breyta þessu launakerfi og valddreifa því. Til skoðunar hafa verið hugmyndir sem færðar hafa verið í búning í Svíþjóð. Það þarf sjálfsagt að staðfæra þær hér en þá mundi það gerast að starfsmannaskrifstofan breyttist í eins konar vinnuveitendasamband ríkisins eða þá í þjónustuskrifstofu fyrir þá aðila sem semdu um kaup og kjör við starfsmenn. Við töldum hins vegar eðlilegra að fara í þessa hluti í þeirri röð sem þeir hafa nú raðast, ekki síst vegna þess að nauðsynlegt er að taka á réttindum, ekki síst biðlaunaréttindum. Það hef ég aldrei falið að ég tel mjög mikilvægt að breyta þessum réttindum sem ég tel að hægt sé að gera með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir bótalaust.

Varðandi viðhorfsbreytingu vegna jafnréttis karla og kvenna skal ég viðurkenna það að ég tel að hún sé ekki komin fram en ég geri mér vonir um að það sé a.m.k. skárra að fara þá leið sem er farin í frv. en búa við það kerfi eða réttara sagt það kerfisleysi sem nú tíðkast í þessum málum þar sem enginn veit hvað snýr upp og niður í launum starfsmanna.