Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 15:04:50 (5984)

1996-05-14 15:04:50# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[15:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má vera að það sé svo en ég held að þegar grannt er skoðað séu hugmyndir okkar um það hvert stefna skuli ekki svo ólíkar, mínar og hv. þm. Ég vona að ég sé ekki að kasta rýrð á hv. þm. með því að segja þetta þótt ég viti það vel að hann vilji gagnrýna mig fyrir þær aðferðir sem ég hef beitt í málinu því að hv. þm. hefur gert svo lítið að flytja ræðu á ráðstefnu sem hér var haldin og þar sagði hv. þm. m.a. og ég vitna orðrétt í hann, með leyfi forseta:

,,Og ýmislegt af þeirri nýskipan í ríkisrekstrinum sem fjmrh. hefur talað fyrir á síðustu árum er af hinu góða. Þar vil ég benda á aukin útboð á vörum og þjónustu, samningsstjórnun sem þó nær ekki tilgangi sínum að fullu nema forstöðumenn fái meiri völd.`` Ég get fullvissað hv. þm. um að við viljum stefna að þessu. Það getur vel verið að hv. þm. telji að við gerum það ekki í þeirri röð sem hann hefði helst kosið en ég held að meginstefnan, markmiðið sem við erum að stefna að, sé ekkert ólíkt hvort sem við erum í Sjálfstfl. eða Alþb. Þó viðurkenni ég að sjálfsögðu það sem hv. þm. hefur sagt í ræðu sinni og að hann hefði ugglaust viljað fara öðruvísi að en við höfum gert en við erum að vinna að þessu verki í góðri trú til þess að ná fram árangursríkari og skilvirkari ríkisrekstri. Enda þótt það skipti mjög miklu máli að starfsmenn ríkisins séu ánægðir hjá vinnuveitanda sínum og það sé undirstöðuatriði til þess að ná árangri megum við ekki gleyma því að ríkisreksturinn er fyrir alla landsmenn.