Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 16:31:15 (5998)

1996-05-14 16:31:15# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[16:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. um orð hæstv. forsrh. sem hann lét falla um lífeyrisréttindi, þ.e. að áunnin lífeyrisréttindi verði ekki skert, þá vil ég láta það koma fram að það er skoðun mín að biðlaun séu ekki áunnin réttindi eins og lífeyrisréttindi og að mínu áliti eru þau ekki bótaskyld eins og lögvarin eignarréttindi sem eru vernduð í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ég veit að hv. þm. hefur lesið dr. Gauk Jörundsson. Það hef ég að sjálfsögðu gert líka og þeir sem hafa unnið að frumvarpssmíðinni með mér. Niðurstaða okkar er eindregið sú að ekki sé hægt að jafna saman biðlaunaréttinum og síðan lífeyrisréttindum. Að vísu munu dómstólar í landinu væntanlega taka af skarið í þessum málum og ég á von á því og það hefur orðið samkomulag um það milli ríkisins og BSRB að reyna að flýta niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem þar liggur. Ég hef kynnt mér þetta mál og ég tel hverfandi líkur á því að niðurstaða dómsins verði á þann veg að dæmt verði á grundvelli þess að þarna sé um bótaskylda eignaupptöku að ræða á grundvelli 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í reynd held ég að það sé það mikill munur á þessum réttindum að óþarfi sé að jafna þeim saman eins og mér heyrðist hv. þm. gera þegar hann vitnaði til ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar.