Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 17:15:40 (6008)

1996-05-14 17:15:40# 120. lþ. 137.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[17:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Enn á ný sýnir þetta andsvar hæstv. ráðherra að honum er jafnrétti kynjanna ekki ofarlega í huga. Hann getur þess réttilega að faðir minn hafi verið einn af skátaforingjum í Reykjavík en hann gat þess ekki að móðir mín náði miklu lengra innan skátahreyfingarinnar en nokkru sinni pabbi.

Herra forseti. Varðandi þau ummæli sem við höfum verið að rifja upp að hæstv. forsrh. hafi látið út úr sér í umræðum um lífeyrissjóðsmálin er alveg rétt að það var þegar verið var að tala um lífeyrissjóðsfrv. Ég gat þess í ræðu minni að það hefði verið svo. En hæstv. forsrh. sagði ,,sérstaklega`` varðandi lífeyrissjóðamálið, hann sagði ekki ,,eingöngu`` varðandi lífeyrissjóðamálið.

Hæstv. fjmrh. hefur orðað það svo, að vísu ekki í dag, að það væri tómt bull að ætla að biðlaunarétturinn væri áunninn. En það er samt sem áður þannig að hann er hlutfall af tíma, þ.e. menn fá ákveðin réttindi ef þeir hafa verið í starfi meira en 15 ár hjá ríkinu og þessi réttindi eru minni ef þeir starfa innan við 15 ár þannig að þetta eru áunnin réttindi.

Herra forseti. Hvað má maður álykta út frá dóminum um SR-mjölið sem hæstv. fjmrh. segir alltaf að tengist þessu máli ekki neitt? Þar kom m.a. fram að staðan hjá hlutafélagi er ekki sambærileg stöðu hjá ríkinu. Að hvaða leyti var það mál þannig að það var ekki sambærilegt? Viðkomandi starfsmaður var í sama starfi í sama herbergi við sama síma með sömu kjör og hélt áunnum réttindum en hvað vantaði hann? Hann vantaði möguleikann til að byggja ofan á þessi réttindi og það eru þau réttindi sem verið er að svipta menn með þessu lagafrv. og í þeim felst fémæti. Auðvitað er verið að gera þessar breytingar til þess að hæstv. ráðherra getið búið til hlutafélög úr fjölda ríkisfyrirtækja án þess að borga mönnum fyrir missi þessa möguleika.