Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:15:36 (6032)

1996-05-14 21:15:36# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:15]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. um tæknifrjóvgun og breytingartillaga sem lögð hefur verið fram af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur, Bryndísi Hlöversdóttur og Kristínu Halldórsdóttur. Vil ég aðeins gera að umtalsefni breytingartillögu þeirra hv. fjögurra þm. sem mælt hefur verið fyrir af 1. flm. Í tillögunni er gert ráð fyrir því í einföldu máli, á mannamáli ef svo má segja að nafnleynd verði aflétt, að það eigi að vera á valdi foreldris hvort barninu verði sagt frá kynfrumugjafa eða ekki. Það er engin önnur kvöð í tillögunni en sú hvort foreldrar telja sig bundin því að segja barninu frá uppruna sínum. Í hv. allshn. kom að sjálfsögðu mjög til umræðu hvort þeirri breytingu sem hér um ræðir ætti að koma á í einni svipan, þ.e. að aflétta alfarið þeirri nafnleynd sem hefur ríkt á þessu sviði síðan 1980 er tæknifrjóvgun hófst.

Frá því að þessi aðferð við að aðstoða fólk í vandamálum sínum hvað varðaði barneignir hófst þá er búið að beita henni með góðum árangri og eftir því sem mér er sagt þá hafa orðið til á þriðja hundrað börn þannig. Samkvæmt upplýsingum lækna sem hafa séð um þessi mál undir lögum að um nafnleynd sé að ræða hefur aldrei komið upp neitt í huga þeirra foreldra sem hafa samband við læknana sem vita einir um gjafann, ---við skulum segja vita einir eitthvað um gjafann. Þeir vita reyndar ekki hver hann er en vita þó eitthvað um hann --- þá hefur aldrei komið upp nein efasemd hjá foreldrunum eftir því sem læknar segja, um að þessi aðferð við að leysa þetta vandamál sé röng, þ.e. að það hefði átt að vera heimilt að þessir foreldrar fengju uppgefið nafnið á gjafanum einhvern tímann síðar. Þessi spurning hefur aldrei vaknað hjá því fólki sem hefur fengið þessa þjónustu. Það hefur aldrei talið það nauðsynlegt að opna fyrir þennan möguleika. Það er kannski af einföldum ástæðum. Ef nafnleynd hefði verið aflétt þá hefði ekki verið hægt að fá neitt gjafasæði. Það hefði ekki verið hægt að fá neitt gjafasæði frá Danmörku sem er það land sem hefur þjónað skulum við segja þeim pörum sem hafa á þessu þurft að halda.

Það er oft búið að rifja það upp hér að í Svíþjóð var nafnleynd aflétt sem leiddi til þess að sæðisgjafar urðu mun færri en áður. Frá Svíþjóð var ekki hægt að fá sæði einfaldlega vegna þess að það voru svo fáir sem vildu gefa undir þeim ákvæðum að upp gæti komið sú staða að þeir þyrftu að gangast við börnum sem hefðu orðið til með þessari aðferð. Það er því ljóst að aflétting nafnleyndar þýði einfaldlega að þjónustan leggst niður á Íslandi.

Það má vera eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að norska Stórþingið geti talað um þetta þannig að það sé allt í lagi að aflétta nafnleynd. Ég tel að það sé fyrst og fremst vegna þess að Noregur er stórt land miðað við Ísland. Þar búa nokkrar milljónir en á Íslandi búa 250 þús. manns. Það er ljóst að Ísland getur ekki staðið undir því að halda uppi svokölluðum sæðisbönkum sem er talið mjög dýrt, okkar þjónusta á þessu sviði verður í öllum tilfellum að koma að utan.

Ég vil einnig benda á, þegar verið er að tala um að aflétta alfarið nafnleyndinni, að það er heilmikil siðfræði á bak við það sem gerist þegar nafnleyndinni verður aflétt, fyrir utan það að við erum hreinlega að koma í veg fyrir að þessi þjónusta verði veitt. Siðfræðin byggist á því fyrir það fyrsta að með afléttingu nafnleyndarinnar er konu leyfilegt að gefa systur sinni egg og móðir getur gefið dóttur sinni egg, faðir getur gefið syni sínum sæði og þannig er hægt að ímynda sér þá möguleika að þessar gjafir geti verið þvers og kruss. Spurningin er einmitt hvort þessi siðfræði geti samrýmst hinum almennu siðfræðikröfum sem Íslendingar hafa gert sér hingað til. Þess vegna var um það rætt í allshn. að veita þeim ráðgjöf sem vildu aflétta nafnleyndinni svo þeir áttuðu sig betur á því hvaða hugmyndir fólk yfirleitt hefði og það gerði sér grein fyrir því hverjar afleiðingarnar yrðu. Í nefndinni var tekið mjög vel á þessu máli að mínu viti enda nauðsynlegt þar sem verið er að opna til hálfs að þessu leyti. Það er verið að opna til hálfs þannig að fólk getur valið um nafnleynd eða sleppt nafnleynd. Það þarf eflaust líka að velta því fyrir sér ef við ætlum að halda áfram eða þurfum áfram að fá gjafasæði hvort menn öðlist ekki nægjanlega reynslu til að nálgast þau siðfræðivandamál sem koma upp innan fjölskyldna sem hafa verið með egggjafir á milli nákominna ættingja.

Það er svo annað sem mér finnst skipta mjög miklu máli og um leið gera gera tillögu þeirra fjórmenninganna óþarfa. Eins og kemur fram í bréfi frá kvennadeild Landspítalans þá mun með smjásjárfrjóvgunaraðgerðum verða mögulegt innan hugsanlega tveggja ára eða við skulum segja innan nokkurra ára, að nota aðeins eina sæðisfrumu til þess að frjóvga egg en það er tækni sem ekki er mögulegt að brúka í dag. Þá má því segja að í nærri 90%--100% tilvika þar sem fólk þarf aðstoðar við, að það sé hægt að gera það með glasafrjóvgun og eggfrumum parsins en ekki fengnum annars staðar frá. Í þessu felst náttúrlega sú lausn sem allir eru að bíða eftir, þ.e. að parið geti átt barn saman í orðsins fyllstu merkingu.

Ég held að það væri mjög mikið slys ef breytingartillaga þessara fjórmenninga, hv. þingmanna, yrði samþykkt vegna þess að það mun einungis leiða til þess að það fólk sem þarf á þessari þjónustu að halda fær enga úrlausn sinna mála á meðan tæknin er ekki betri en nú er, öðruvísi en að fara til útlanda á eigin kostnað og þá er það ekki samfélagið sem er að reyna að leysa þeirra vandamál heldur verða þau að gera það sjálf. Við aftur á móti veitum öðrum þjónustu eins og við glasafrjóvgun sem þykir sjálfsagt og þess vegna finnst mér alveg fráleitt að við reynum með einhverjum aðgerðum á Alþingi að ýta þessum hópi frá þessari þjónustu með aðgerðum sem eru alls ekki tímabærar því eins og ég sagði áðan sjáum við fram á það innan örfárra ára að gjafasæði og gjafaeggfrumur eiga að geta heyrt sögunni til.