Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:29:43 (6034)

1996-05-14 21:29:43# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:29]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spyr hvaðan komi þær rannsóknir sem ég hafi vitnað til um að aldrei hafi komið upp efi í huga þessa fólks. Það komu læknar á fund allshn. og upplýstu okkur um hverjar þær aðferðir væru sem beitt er til að velja sæði, þ.e. fengnar eru upplýsingar um útlit, augnalit og fleira. Fólkið sem hefur þegið þessa þjónustu hefur haft samband við læknana sem hafa framkvæmt tæknisæðingar. Og upplýsingarnar um að það hafi aldrei komið upp efi hjá þeim sem hafa haft samband við þessa lækna koma frá læknunum sjálfum. Auðvitað er ég ekkert að nafngreina þá. Það er ástæðulaust. En það kemur samt fram í áliti allshn. hverjir hafa komið á fund nefndarinnar. Það hefur einnig verið vitnað í bréf frá kvennadeild Landspítalans og þar eru sérfræðingar sem þekkja þetta og leggja einmitt til eins og gert er hér af hv. allshn. að halda nafnleyndinni og láta skoða málið á næstu einum til tveimur árum.

Varðandi sjónarmið barnsins þá tek ég að sjálfsögðu undir það að sjónarmið barnsins skiptir miklu máli. En það er náttúrlega samt ljóst að í þeirri stöðu sem við erum nú þá verður ekki til neitt barn ef við fáum ekkert gjafasæði. Það hlýtur alltaf að vera ákvörðun foreldranna hvort þau vilja eignast barn eða ekki með þessum aðferðum. Þau verða að eiga það við sig á meðan ekki er annað hægt hvort þau óska nafnleyndar eða ekki. Á meðan við búum við þetta ástand þá verðum við að lúta því.