Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:32:01 (6035)

1996-05-14 21:32:01# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:32]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki kom nú neitt nýtt fram í þessu svari frá hv. þm. Læknar sem komu á fund allshn. eru bornir fyrir þessu. Ekki ætla ég að vefengja það. En að þeir séu einhver stóridómur eða hæstiréttur í þessu --- og ef það er ekki stutt þeim mun ítarlegri rannsóknum þá er þetta auðvitað ekki marktækt sem hér er haldið fram. Ég hef við yfirferð málsins einmitt heyrt andstæð sjónarmið um erfiðleika sálræns eðlis má kannski segja, hjá þeim sem standa í því að undirgangast tæknifrjóvgun með gjafakynfrumum. En ég ætla ekki að hafa uppi stór orð eða réttara sagt kveða fast að orði um það vegna þess að ég hef ekki niðurstöður rannsókna um það efni. Það þyrftu menn að hafa til að fullyrða eins og hv. þm. gerir.

Það er einkennileg röksemdafærsla sem kemur fram hjá hv. þm. og við höfum heyrt frá fleirum, þ.e. að ef ekki verði heimiluð tæknifrjóvgun þá verði ekkert barn til og þess vegna eigum við ekki að vera að leggjast gegn því að setja reglur þar að lútandi. Þetta er slík endileysa séð frá rétti barna, að þetta er tæpast svaravert. En það er einmitt réttur barnsins sem er hér settur í öndvegi og er það sem skiptir meginmáli í þessu sambandi. Varðandi það hvað tæknin gerir kleift skulum við vona að læknar sem eru að gera ráð fyrir því að möguleikarnir á frjóvgun frá sambúðarfólki eða foreldrum með kynfrumum þeirra eigi eftir að bera mjög aukinn ávöxt. Það skulum við vona en það eru hins vegar spádómar sem menn vita ekki hvort ganga upp og munu aldrei ganga 100% upp frekar en aðrar tæknilegar aðferðir í þessum málum.