Lögræðislög

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:48:59 (6048)

1996-05-14 21:48:59# 120. lþ. 137.8 fundur 456. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:48]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögræðislögum sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og Margréti Frímannsdóttur. Í frv. leggjum við til að sjálfræðisaldur barna verði hækkaður úr 16 árum í 18 ár.

Það er alveg ljóst að umræðan um hækkun á sjálfræðisaldri hefur verið töluvert mikið til umræðu, bæði innan þings og utan. Margir hafa látið í sér heyra um það efni og þeir sem hafa ályktað um þetta hafa allir ályktað um að hækka beri sjálfræðisaldurinn.

Það má í þessu sambandi nefna að fagfólk sem um þetta mál hefur fjallað er á einu máli um að hækka beri sjálfræðisaldurinn. Það sama gildir um Samband ísl. sveitarfélaga sem hefur ályktað um málið. Það má nefna tillögu starfshóps á vegum borgarstjóra um úrbætur í miðbæ Reykjavíkur og það má nefna tillögur samráðsnefndar um málefni barna og ungmenna sem skilaði skýrslu til mín sem félmrh. 1992. Þar var eindregið var mælt með því að sjálfræðisaldurinn yrði hækkaður, en á þeim tíma, á árinu 1993 beindi ég því sem félmrh. til hæstv. dómsmrh. að hann beitti sér fyrir því að leggja fram frv. um hækkun á sjálfræðisaldrinum. Eftir því sem ég best veit hefur það mál verið til skoðunar í dómsmrn. í nefnd síðan 1993 og á ráðstefnu sem haldin var um hækkun sjálfræðisaldursins á vegum Barnaheilla kom fram hjá fulltrúa dómsmrn., sem fjallaði um þetta mál, að vinna nefndarinnar væri á lokastigi og stefnt væri að því að leggja fram frv. um málið á komandi hausti. Þess ber að geta að á þessu þingi Barnaheilla var ályktað í þessu máli, en um var að ræða málþing á vegum Barnaheilla sem haldið var samhliða því að Barnaheill hélt landsþing sitt. Í ályktun landsþingsins segir um þetta efni:

,,Landsþing Barnaheilla skorar á Alþingi að samþykkja breytingu á lögræðislögum í þá veru að maður er sjálfráða 18 ára gamall nema sviptur sé sjálfræði og fjárræði 18 ára gamall nema sviptur sé fjárræði. Landsþing Barnaheilla samþykkir að skora á Alþingi að hækka sjálfræðisaldur barna úr 16 árum í 18 ár. Barnaheill bendir á að barn á rétt á umsjá foreldra sinna til 18 ára aldurs samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í þeim sáttmála frá 1989 segir í 1. gr.: ,,Börn eru allt fólk í heiminum yngra en 18 ára.`` Meginmarkmiðið með þessu ákvæði barnasáttmálans er að slá skjaldborg um börn til 18 ára aldurs og leggja þannig ábyrgð á hendur foreldrum og samfélagi á uppeldi barna til 18 ára aldurs. Barnasáttmálinn gerir þá kröfu til samfélagsins að barnið eigi rétt á umsjá foreldra sinna til 18 ára aldurs.``

Í áðurnefndri skýrslu sem ég vitnaði til, skýrslu um málefni barna og ungmenna sem unnin var á vegum samráðsnefndar um málefni barna og ungmenna, segir um hækkun á sjálfræðisaldrinum eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það er álit samráðsnefndarinnar að fyrst á annað borð var farið að framkvæma víðtæka endurskoðun á barnaverndarlögum hefði verið eðlilegt að hækka sjálfræðisaldur í 18 ár eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Nú á tímum dveljast langflestir unglingar á Íslandi í heimahúsum fram að og jafnvel fram yfir tvítugt og lúta þar almennum húsaga og handleiðslu foreldra sinna og sjálfræði þeirra hefur því einungis táknrænt gildi. Einu tilvikin þar sem sjálfræðisaldurinn hefur einhverja verulega þýðingu er gagnvart unglingum í alvarlegum vanda. Þegar skjólstæðingurinn verður 16 ára og þar af leiðandi sjálfráða standa þeir sem starfa að meðferðarmálum unglinga oft frammi fyrir því að það meðferðarstarf sem hafið er ónýtist.``

Ég hef vitnað til þess, virðulegi forseti, að það virðist vera víðtækur stuðningur hjá þeim sem hafa fjallað um þetta mál að hækka beri sjálfræðisaldurinn. Ég legg áherslu á að það að hækka sjálfræðisaldurinn er ekki bara gert vegna unglinga sem hafa lent í miklum vandamálum og þurfa á meðferðarúrræðum að halda þannig að nauðsynlegt er að vista þá á meðferðarstofnunum jafnvel gegn vilja þeirra. Það er ekki ein og sér ástæðan fyrir því að þetta mál er flutt eða ástæðan fyrir því að hækka ber sjálfræðisaldur og vil ég rökstyðja það nánar.

Við verðum að horfa til þess að inntak forsjárskyldu er uppeldisskyldan og ég tel að það gangi gegn ákvæðum laga um vernd barna og ungmenna að sjálfræðisaldurinn sé 16 ára en markmið þeirra er að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar börnum þegar við á. Ég held að einmitt það að sjálfræðisaldurinn er 16 ára gangi gegn þessu markmiði og komi í veg fyrir að foreldrar geti sinnt því uppeldishlutverki sem lög um vernd barna og unglinga kveður á um. Við verðum að líta til þess að árin 16--18 hjá ungmennum eru mikilsverð ár í þroska- og félagsmótun barna og því er mikil mótsögn í því að sjálfræðisaldurinn sé 16 ár.

Ég held að það sé ekki hægt að halda því fram verið sé að gera ungmenni ábyrgðarlausari með því að hækka sjálfræðisaldurinn heldur er fyrst og fremst með þessari breytingu verið að undirstrika sameiginlega ábyrgð barnsins, foreldranna og samfélagsins alls og ég vil halda því fram að með þessu ákvæði sé hreinlega verið að auka réttaröryggi barnanna. Ég held að flestum ungmennum sé það fyrir bestu að búa við öryggi og aðhald foreldra til 18 ára aldurs. Rökin eru mörg sem haldið hefur verið fram til stuðnings því að hækka sjálfræðisaldurinn. Í mínum huga eru þau mikilvægust að þjóðfélagsaðstæður hafa breyst mjög á umliðnum árum og áratugum. Ég tel hreinlega að það leiði til þess að ungmenni þurfa lengri tíma til þess að aðlagast sjálfræðisaldri en til 16 ára.

Til eru tölur um það að ungmenni búa mikið lengur í foreldrahúsum en áður tíðkaðist. Talað er um að 80% barna eða ungmenna 16--18 ára búi enn í foreldrahúsum. Síðan hefur ýmislegt breyst í þjóðfélaginu. Áður fyrr gátu ungmenni fengið vinnu þegar þau svo óskuðu þannig að við þekkjum það að þjóðfélagsaðstæður hafa breyst mjög mikið í þessu efni. Ákvæðið um 16 ára sjálfræðisaldur kemur líka í veg fyrir aga, vil ég segja. Það kemur í veg fyrir aðhald og eftirlit foreldra t.d. með útivist og skólagöngu ungmenna. Það kemur líka í veg fyrir að foreldrar geti haldið uppi eðlilegum aga á því sem ég vil kalla mótþróaskeiðið, þ.e. aldurinn 16--18 ára. Ungmenni eru oft í uppreisn gegn þjóðfélaginu, gegn foreldrum sínum og geta því notað það sem vopn og hótun við foreldra sína, t.d. ef foreldrar vilja halda uppi ákveðnum aga varðandi útivist barna 15 ára o.s.frv. Maður heyrir að börn á þessum aldri segja stundum við foreldra sína að þau skuli svo sannarlega nýta sér það þegar þau verða 16 ára og sjálfráða. Þá hafi foreldrarnir ekkert yfir þeim að segja og þau verði úti eins lengi og þau vilja o.s.frv. Þau hóta að flytja að heiman og þar fram eftir götunum.

Ég held því, virðulegi forseti, að þegar allt á litið séu kostirnir miklu fleiri en gallarnir við það að hækka sjálfræðisaldurinn. Gallarnir hafa líka verið tíundaðir í þessu efni og var það gert á málþingi Barnaheilla sem ég vitnaði til í upphafi máls míns. Af þeim sem mæla gegn hækkun sjálfræðisaldurs, en ég held að sá hópur sé í miklum minni hluta, er því haldið fram að það sé verið að svipta stóran hóp unglinga réttindum sem sjálfræðisaldurinn veitir og það sé rétt að sjálfræðisaldur og skólaskyldualdur fari saman, það sé jákvætt, stuðli að aukinni ábyrgð barna og réttara sé að ungmenni öðlist réttindi í þrepum en ekki öll í einum áfanga við 18 ára aldur. Þarna sé verið að taka réttindi af ungmennum 16 ára gömlum til að vernda fámennan hóp ungmenna sem hafa lent í vandamálum á kostnað annarra miklu stærri hópa ungmenna í þjóðfélaginu sem eigi rétt á að fá sjálfræði við 16 ára aldur. Mér finnst öll þessi rök lítilvæg á móti þeim kostum sem ég hef greint frá og fleira væri hægt að tína til fyrir því að það eigi að hækka sjálfræðisaldur.

[22:00]

Ég held að það verði aldrei nógsamlega undirstrikað að þetta er ekki fyrst og fremst úrræði til að beita gegn börnum sem búa við vandamál heldur til að tryggja öryggi og vernd allra barna til 18 ára aldurs. Raunverulega erum við að tala um framlengingu á forsjárskyldu foreldra. Við vitum að það er töluvert ósamræmi í því að sjálfræðisaldurinn sé 16 ár en síðan verða ungmenni fjárráða og lögráða 18 ára. Þessu er öðruvísi háttað í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þar er sjálfræðisaldurinn 18 ár og þróunin í nágrannalöndum okkar hefur orðið allt önnur en hér. Annars staðar á Norðurlöndum var sjálfræðisaldurinn víða orðinn 20--21 árs en var lækkaður aftur í 18 ár á þessari öld en nú er sjálfræðisaldurinn í öllum löndunum 18 ár enda er til þess vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1989 en þar segir í 1. gr.: ,,Börn eru allt fólk í heiminum yngri en 18 ára.`` En þessi samningur var fullgiltur af hálfu Íslands á árinu 1992.

Það er svo sérstakt að Ísland virðist alltaf skera sig úr frá öðrum þjóðum hvenær ungmennum er veitt réttindi. Við getum tekið ökuleyfisaldurinn sem dæmi. Hér er hann 17 ár en í löndum mjög víða í kringum okkur er hann 18 ár og það hefur alltaf annað slagið komið upp umræða um að hvort hækka eigi ökuleyfisaldurinn í 18 ár enda þekkjum við það að því miður eru flestir sem lenda í bílslysum og umferðarlagabrotum 17 ára. En það eru líka margir sem telja að það sé erfitt að snúa til baka þegar við erum búin að búa svo lengi við 17 ára ökuleyfisaldurinn eða hækka hann í 18 ár og hafa fært til þess ýmis rök sem vissulega ber að hlusta á.

Síðan má taka eitt sem er ósamræmi líka hér miðað við önnur lönd og það eru aldursmörkin vegna kaupa á áfengi. Hann er víðast í löndunum sem við berum okkur saman við 18 ár meðan hann er 20 ár hér. Mér skilst að tillaga liggi fyrir frá heilbrrn. um að hækka aldursmörkin vegna kaupa á tóbaki úr 16 ára til 18 ára aldurs. Jafnvel þó að ungmennin séu sjálfráða er þeim ekki treyst fyrir því. Með tilliti til alls þessa ósamræmis sem er í aldursmörkunum, virðulegi forseti, er ástæða til þess að samræma réttindi varðandi ábyrgð og skyldur ungmenna.

Ég nefndi áðan að einn hluti þess sem margir tefla fram sem hækkun á sjálfræðisaldri sé að hann sé ákveðin vernd gegn vandamálum, þ.e. það sé frekar hægt að beita ákveðnum meðferðarúrræðum gagnvart ungmenni sem er í vandamálum, t.d. vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Meðferðarúrræði fyrir þessa hópa eru oft erfiðari. Við horfum fram á að í því þjóðfélagi sem við búum við núna er fíkniefnaneysla hjá ungmennum á aldrinum 14--15 ára ekki óþekkt, að ekki sé talað um neyslu á aldrinum 16--18 ára og þegar unglingarnir eru orðnir 16 ára geta þeir, ef þeir hafa verið í meðferð áður, ráðið því hvort þeir hætti meðferð sem þeir eru í nema það sé þá um að ræða tímabundna sviptingu á sjálfræði sem er erfitt ferli að ganga í gegnum og fáir mæla með. Sumir halda því fram að einu tilvikin þar sem sjálfræðisaldurinn hafi einhverja þýðingu sé einmitt gagnvart unglingum í alvarlegum vanda. Þegar unglingur sem á við vandamál að glíma verður 16 ára standa þeir sem vinna að meðferðarmálum frammi fyrir því að meðferðarstarfið getur orðið ónýtt. Ég verð að segja að það kom ný sýn á þetta mál á málþingi Barnaheilla sem kom mér vægast sagt mjög á óvart þegar fulltrúi dómsmrn., sem hélt þar erindi, upplýsti það að nefndin sem er að vinna í þessu máli á vegum dómsmrh. teldi hugsanlegt að ákvæði í manréttindasáttmálanum kæmi í veg fyrir að hægt væri að vista viðkomandi á sjúkrahúsi jafnvel þó að sjálfræðisaldurinn væri hækkaður til lengri eða skemmri tíma án heimildar yfirvalda eða dómstóla og bar þar fyrir sig ákvæði mannréttindasáttmálans. Þetta er nýtt innlegg inn í umræðuna og þarf auðvitað að skoða sérstaklega hvort þessi persónulegu réttindi ýmiss konar sem mannréttindasáttmálinn kveður á um komi í veg fyrir að það sé hægt að beita þessu úrræði varðandi meðferð t.d. vegna áfengis- og vímuefnaneyslu hjá þeim sem eru innan sjálfræðisaldurs. Þetta kom mér satt að segja mjög á óvart, virðulegi forseti, og sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar hlýtur að skoða þann þáttinn alveg sérstaklega.

Ég nefndi áðan barnasáttmálann og gerði ráð fyrir því að eðlilegt sé að miða aldursmörkin við 18 ár en við þau mörk taki börnin yfir réttinn til að ráða sér alfarið sjálf og séu þau jafnvel tilbúin til að axla þá ábyrgð sem frelsinu fylgja. Í barnalögunum er mælt fyrir um að foreldrar skuli hafa samráð við barn sitt áður en persónulegum málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem gerlegt er, þar á meðal með tilliti til þroska barnsins. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að ungmennið getur ráðið sér sjálft 16 ára gamalt en engu að síður hafa foreldrar framfærsluskyldu þar til barn er 18 ára. Barnið þarf ekki að hlíta neinum húsaga en engu að síður hafa foreldrarnir þessa framfærsluskylda. Það eitt út af fyrir sig mælir með því að saman fari sjálfræðisaldurinn og framfærsluskylda foreldra.

Ég sé út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekki ástæðu til þess að fjalla ítarlegar um frv. og vænti þess að hv. allshn. sem fær þetta mál til meðferðar og reyndar annað sem hér er á dagskrá sama efnis sem kemur væntanlega til umræðu á eftir sem lýsir þeim áhuga sem þingmenn hafa á málinu. Ég vænti þess að allshn. muni skoða málið ítarlega og mér segir svo hugur að það sé meirihlutavilji á Alþingi fyrir því að hækka sjálfræðisaldurinn. Nái þetta frv. fram að ganga koma önnur lög til endurskoðunar, svo sem lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerð og lög um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki er koma í veg fyrir að það auki kyn sitt.

Þó það sé kannski ekki í tengslum við þetta mál getur þetta þó haft áhrif á barnabætur og barnabótaauka. Sumir halda því fram ef sjálfræðisaldurinn verði hækkaður í 18 ár þurfi líka að framlengja barnabætur og greiða þær til 18 ára aldurs sem mér finnst vera visst samhengi í en það eru líka aðrir sem halda því fram að þetta sé alveg óháð og sjálfstæð ákvörðun ríkisstjórnar hvort barnabætur framlengist til 18 ára jafnvel þó sjálfræðisaldrinum væri breytt. Vissulega þarf að skoða þetta allt í samhengi og ég vænti þess að allshn. taki málið til ítarlegrar umfjöllunar. Það er ýmislegt sem þarf að skoða tengt þessu máli, einmitt það sem ég nefndi hvort þetta muni engu breyta um meðferðarúrræði hjá ungmennum sem ná sjálfræðisaldri. Ég held að það sé kannski of mikil bjartsýni að ætla það að Alþingi samþykki á þessu þingi hækkun á sjalfræðisaldrinum en engu að síður tel ég mikilvægt að þetta frv. fari til umsagnar og verði skoðað ítarlega í nefndinni. Ég held að það sé einboðið að frv. um breytingu á lögræðislögum verði lagt fram aftur strax á haustþingi ef ekkert sést frá dómsmrn. í þessu efni en þeir hafa haft þetta mál óvenjulengi til skoðunar. Maður skilur vart af hverju þeir þurfa að taka sér svona langan tíma í þetta mál sem virðist þó vera nokkuð augljóst en það hefur verið til skoðunar í dómsmrn. frá 1993 þegar félmrn. beindi því til dómsmrn. að beita sér fyrir því að sjálfræðisaldurinn yrði hækkaður.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.