Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:09:44 (6056)

1996-05-14 23:09:44# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:09]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir var að spyrja um rök þeirra sem vilja halda nafnleyndinni. En jafnframt brtt. hv. allshn. er gert ráð fyrir því að líka sé hægt að velja það að hafa ekki nafnleynd. Aftur á móti var í umsögnum sem komu fram frá ýmsum mannréttindasamtökum og embættismönnum í íslenska stjórnkerfinu, hvergi minnst á það hvernig ætti að leysa vandamál fólks sem hefur þurft á þessari þjónustu að halda. Það er hvergi drepið á það að þetta fólk sé í vandræðum og það þurfi að leysa þessi vandamál með þessu móti sem er þekkt aðferð og viðurkennd. Auðvitað er í þessu tilfelli verið að hugsa um hagsmuni parsins. Mér finnst mótrök ykkar vera þau að mæla frekar með því að barnið verði ekki til. Í þessu tilfelli eru engin önnur rök sem geta í rauninni mælt með ykkar tillögu önnur en þau að segja það að það fólk sem á þessu þarf að halda,verði einfaldlega að bíða þar til tæknin hefur leyst vandamálið og hægt verður að gera þetta allt með glasafrjóvgunum framkvæmdum með smásjáraðgerðum.