Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:11:44 (6057)

1996-05-14 23:11:44# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:11]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er líklega hárrétt hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að það er ekki gerð grein fyrir því í öllum þeim umsögnum sem fyrir allshn. liggja hvernig eigi að leysa vandamál þessa fólks ef nafnleyndin verður afnumin. Það er örugglega alveg hárrétt hjá honum þó ég hafi ekki sérstaklega leitað að þessu í umsögnunum. Þrátt fyrir það að ég vilji alls ekki gera lítið úr vandamálum þessa fólks eins og ég margítrekaði áðan, hv. þm., þá er það nú svo að það eru til önnur úrræði og þau hafa í mörgum tilvikum reynst ágætlega. Þó að vissulega sé mjög æskilegt að ganga með barn sitt sjálfur eða að eiga barn sem er líffræðilegt afkvæmi annars foreldris þá getur bara verið að það sé ekki alltaf hægt. Ég tel ekki, hæstv. forseti, að ég sé með þessum orðum að gera á nokkurn hátt lítið úr vanda þessa fólks. Ég vil ítreka það enn og aftur. Við verðum einfaldlega að horfa á það að málið snýst ekki um það. Málið snýst um rétt þess barns sem við erum með aðstoð tækninnar að búa til.