Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:39:31 (6062)

1996-05-14 23:39:31# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:39]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefni þessi ákvæði með gjafann og þiggjandann ekki síst vegna þess að það var talað um það alveg skýrt í þeirri tillögu sem hér er til umræðu að það verður að skipta við sæðisbanka þar sem nafnleynd er aflétt, það er alveg skýrt. En samkvæmt þeirri umræðu sem fór fram í allshn. gilda þær reglur að þá á viðkomandi aðili sem gefur sæði, t.d. til sæðisbanka í Svíþjóð, líka rétt á að fá að vita um tilvist barns. Einnig tel ég mjög mikilvægt að löggjafinn kveði alveg skýrt á um það hvort foreldri á að fá upplýsingar um gjafann eða kannski jafnvel að fá að velja, sumir halda því fram. Þessi tillaga segir ekkert um það. Þessi tillaga er mjög góð varðandi rétt barnsins en hún er ekki nógu skýr að mínu mati um rétt þiggjandans og gjafans. Ég er alls ekki að segja að þar með sé hún ótæk, en ég vildi gjarnan að hv. þm. léti kanna það lögfræðilega.