Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:57:00 (6066)

1996-05-14 23:57:00# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:57]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það dregur að lokum þessarar umræðu. Ég ætla að bæta við örfáum orðum, þar á meðal smávegis athugasemd sem ég kom ekki að í andsvari. En ég vil þó í upphafi segja að ég held að þessi umræða í kvöld hafi verið á marga lund mjög gagnleg, þau skoðanaskipti sem hér hafa farið fram milli þingmanna. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, þá geta þau viðhorf sem hér hafa komið fram verið til athugunar fyrir endurmat á þessum lögum að samþykktri viðbótartillögu eða fram kominni tillögu allshn. um nýtt ákvæði til bráðabirgða. Allt er þetta væntanlega af hinu góða. Við erum að ræða mál sem hefur margar hliðar, má segja, og þar sem menn vega og meta þær reglur sem setja ber og það er mjög nauðsynlegt.

Það er jafnframt mjög nauðsynlegt að talað sé skýrt í þessum efnum þannig að ljóst sé út frá hverju er gengið þegar reglur eru settar. Ég ætla ekki að fara að ræða frekar sjónarmið þeirra sem hafa verið andstæð mínum málflutningi og þeirra sem að breytingartillögu standa við 3. umr. ásamt mér.

Ég vil vekja athygli á því sem mér finnst vanta í umræðuna oft og tíðum þegar um þetta er fjallað. Það er talað um tæknifrjóvgun sem nokkurn veginn örugga leið ef öllum möguleikum sem tæknin leyfir er beitt, þar á meðal gjafakynfrumum án hindrana og með nafnleynd. Það er auðvitað víðs fjarri að svo sé og óvíst með öllu og reyndar útilokað að það geti orðið þrátt fyrir tækniframfarir, um nokkra allsherjarlausn að ræða. Samkvæmt upplýsingum um tæknisæðingu sem hér hefur verið stunduð, þá er það eitthvað nálægt því helmingur af þeim pörum, af því fólki sem hefur undirgengist slíka meðferð sem fær árangur, eitthvað nálægt því helmingur. Hinn helmingurinn fær þrátt fyrir allt sem fólk leggur á sig í þessu sambandi ekki þá niðurstöðu sem vænst var.

[24:00]

Varðandi glasafrjóvgun er þetta mun lægra hlutfall eða nærri þriðjungur og er þar þó um að ræða enn erfiðari aðgerð fyrir þá sem í hlut eiga. Þetta finnst mér að menn þurfi að hafa vel bak við eyrað þegar talað er um möguleikana til þess að leysa vanda einstaklinganna sem hefur orðið svo fyrirferðarmikill í umræðunni. Ég tel rétt að nefna það vegna þess sem hér hefur komið fram um hversu auðvelt þetta sé allt saman, en ég held að það sé vissara að slá þar varnagla. Ég held að álagið á einstaklingana sem í hlut eiga sé mjög mikið oft og tíðum, margar tilraunir sem fólk gengur í gegnum og fyrir fjölmarga eru lyktirnar þær að enginn árangur næst. Yfir þetta má auðvitað ekki draga fjöður þótt jafnframt sé nauðsynlegt að reyna að létta þessa meðferð eftir því sem fært er samkvæmt settum reglum.

Ég held einnig að hið andlega álag sem þessu tengist sé verulegt og það sé engan veginn hægt að halda því fram að þar sé í rauninni um auðvelda hluti að ræða. Ég held að það sé a.m.k. betra að það sé vel fylgst með þeirri hlið, enda af mjög mörgum hvatt til ráðgjafar í sambandi við þessi mál og að auka ráðgjöf við viðkomandi hjón eða sambúðarfólk sem leitar eftir tæknifrjóvgun til þess að létta því gönguna. Sama gildir síðar að því er varðar barnið.

Ég vil að lokum ítreka að ég tel enga lagatæknilega meinbugi á brtt. okkar fjögurra sem hér hefur verið til umræðu. Ég nefndi þegar ég mælti fyrir tillögunni að mjög hliðstæð tillaga hefði verið mótuð af þremur þingflokkum norska Stórþingsins. Hún er örstutt og náði ekki samþykki. Ég hef hana fyrir framan mig og get lesið hana yfir ef menn vilja á hlýða, en á norskunni er hún þannig:

,,Helsepersonell er pliktet til å sørge for at sædgivers indentitet blir registrert og lagret slik at barnet ved fylte atten år kan ha anlending til å få kjennskap til biologisk fars identitet.``

Í lauslegri þýðingu á íslensku: Heilbrigðisstarfsfólk er skuldbundið til að sjá til þess að upplýsingar um sæðisgjafa séu skráðar og varðveittar þannig að barnið við 18 ára aldur eigi þess kost að fá vitneskju um líffræðilegan föður. Sú tillaga sem samþykkt var gerði hins vegar ráð fyrir nafnleynd og var mjög einföld í sniðum og gildir þannig sem lög. Með vísan til þessa og ef menn vilja bera saman held ég að það sé öllum ljóst að hér er ekki teflt á neitt tæpt vað að þessu leyti og þarf þó ekki neinna sérstakra vitna við.

Síðan vil ég taka það skýrt fram að það liggur ekki nema ein tillaga frá okkur fjórum fyrir. Það er ekki um neina aðra útgáfu að ræða þó að af tæknilegum mistökum hafi annar texti farið í dreifingu. Því er tómt mál að vera að tala um samanburð þar á milli. Ég vek á því athygli og bið menn að ganga út frá þeim tillögum sem fyrir liggja en ekki einhverjum textum sem ekkert gildi hafa.

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram hefur komið hjá mörgum við umræðuna. Við erum að fjalla um svið sem mun stækka og þar sem spurningarmerkjunum mun fjölga, þar sem menn munu vafalaust verða fyrir því að knúið verður á um að fá sem rýmstan rétt til nýrra tilrauna og rýmri löggjafar en gildir nú. Ég held að löggjafarsamkoman, bæði hér sem annars staðar, þurfi að búa sig undir að geta svarað þeim spurningum í vaxandi mæli. Það skiptir afskaplega miklu jafnframt að löggjafinn sé ekki alltaf á eftir í mótun á reglum, alltaf á eftir tækninni, eins og er í þessu tilviki má segja, sem veldur því að erfiðara er að marka þær reglur sem menn gætu hafa verið sammála um fyrir fram að væru eðlilegar viðmiðanir. Þarna hlýtur þó alltaf að vera um ákveðið samspil að ræða og ég bið engan að skilja orð mín þannig að ég vilji útiloka rannsóknir og þróun á þessu sviði eða öðrum. En ég er jafnsannfærður um það að öllum er fyrir bestu að menn finni þar ákveðin takmörk, setji þau mörk og virði þau.