1996-05-15 00:06:58# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[24:06]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi þýðing sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson las upp á norskunni áðan sýni vissulega að þetta orðalag hefur talist eðlilegt í norska þinginu. Og því ekki hér? Kannski það hafi einmitt verið ástæðan fyrir því að tillagan var felld að það er ekki tekið nógu skýrt fram hver réttarstaða gjafans og þiggjandans er.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það er eingöngu þessi tillaga sem hér er til umræðu og það er einmitt þess vegna sem ég lagði mikla áherslu á að lesa upp hina tillöguna. Ef þessi tillaga verður samþykkt vil ég að það komi skýrt fram hvaða merkingu ég legg í réttarstöðu þiggjanda og gjafa, nefnilega þann að nafnleynd eigi að ríkja hjá þessum aðilum þangað til barnið verður 18 ára, en þá verði réttur barnsins og gjafans gagnvirkur.