Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:13:49 (6075)

1996-05-15 14:13:49# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til efnislegrar atkvæðagreiðslu um 1. gr. þessa frv. Eins og fram hefur komið og rækilega hefur verið rökstutt af okkar hálfu sem því erum andvíg teljum við að lögleiðing þess með þeim hætti sem hér stendur til sé ógæfuspor og við greiðum því atkvæði gegn greininni eins og venja er þegar um frv. er að ræða sem menn eru andvígir og fyrst kemur til atkvæða 1. gr. þess.

Ég mótmæli sérstaklega því sem formaður efh.- og viðskn. sagði áðan að hér sé um vel samið og vel unnið frv. að ræða. Það er öðru nær. Það liggur fyrir m.a. í fjölda breytingartillagna frá meiri hlutanum sjálfum að frv. var hrákasmíð eins og það kom inn í þingið og er enn stórgallað og illa unnið. Það liggur enn fremur fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur sjálf viðurkennt að óhjákvæmilegt sé að taka málið til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna þess að enn eru á því augljósir gallar og fingurbrjótar sem á að reyna að lagfæra. Það eru því öll rök, bæði efnisleg og pólitísk, fyrir því að fella þetta frv. úr því að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar féllst ekki á að taka það til sín eins og greidd voru atkvæði um áðan. Ég segi nei, herra forseti.