Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:19:28 (6080)

1996-05-15 14:19:28# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða 1. tölul. breytingartillagna á þskj. 887 frá meiri hluta efh.- og viðskn. Við í þingflokki Alþb. og óháðra og minni hlutinn almennt munum sitja hjá um þessar breytingartillögur, fyrst og fremst vegna þess að þær breyta engu um eðli málsins eins og fram hefur komið og breyta engu um andstöðu stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar við málið. Flestar eru breytingartillögurnar minni háttar tæknilegar lagfæringar, tilraunir til að lappa upp á þetta illa unna og hroðvirknislega gerða frv. og er þó langt frá því að þar sé róið fyrir hverja vík.

Með vísan til þessa eru breytingartillögurnar miklu fremur staðfesting á því að hér er ótækt mál á ferðinni, þær endurspegla ekki vilja til þess að ná samkomulagi um málið þar sem ekki er hróflað við þeim efnisatriðum í frv. sem mestur ágreiningur er um. Við sjáum því ekki ástæðu til þess að vera að taka efnislega afstöðu til einstakra breytingartillagna þar sem þær breyta ekki neinu um andstöðu okkar við málið í heild.