Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 14:50:53 (6096)

1996-05-15 14:50:53# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[14:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni satt best að segja alveg ótrúlegt ákvæði þar sem ætlunin er að taka inn í lagatexta matsatriði af þessu tagi og búa um það með þeim hætti sem lagagreinin kveður á um. Að það skuli sett í vald yfirmanns að meta hvort tiltekinn starfsmaður hafi náð fullnægjandi árangri í starfi og án nokkurra leiðbeininga skal síðan beita viðurlögum ef svo telst ekki vera af hálfu viðkomandi yfirmanns. Hér er verið að fela yfirmönnum og ráðherra geðþóttavald án nokkurra takmarkana og án nokkurra verklagsreglna sem fyrir lægju um það hvernig með skuli fara. Þetta er hluti af þeirri ógeðfelldu breytingu sem er að verða á þessum lögum að annars vegar hafa forstöðumenn og ráðherrar heimildir til persónubundinna launauppbóta en á hina hliðina hafa þeir vald til að reka menn eins og þeim sýnist ef þeir teljast ekki hafa náð fullnægjandi árangri í starfi að þeirra mati, að mati forstöðumannanna. Þetta er ósæmilegur umbúnaður að öllu leyti og mun gerbreyta andrúmslofti á opinberum vinnustöðum til hins verra og er eitt af því versta við þetta frv. og er þá mikið sagt.