Upplýsingalög

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 16:50:33 (6142)

1996-05-15 16:50:33# 120. lþ. 138.10 fundur 361. mál: #A upplýsingalög# frv. 50/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[16:50]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil einnig segja örfá orð til skýringar á því að ég er einnig með fyrirvara á nefndaráliti allshn. Reyndar þarf ég ekki að hafa um það mörg orð þar sem minn fyrirvari snertir sömu grein og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði grein fyrir.

Ég vil taka undir með honum að þetta frv. er að mörgu leyti mjög merkilegt og fékk ítarlega umræðu í nefndinni og ég vil fagna sérstaklega þeirri breytingu sem hefur verið gerð á 8. gr. frv. um að upplýsingar um einstaklinga úr sjúkraskrám og skýrslum sálfræðinga og félagsráðgjafa verði ekki gerðar opinberar eftir 80 ár. Ég tel að þarna geti verið um svo mikil einkamál að ræða að það sé ekki forsvaranlegt og ég fagna því að það náðist samstaða um þá breytingu á 8. gr.

Ég er ekki alveg jafnsannfærð og hv. þm. Ögmundur Jónasson um það hvort nefndarálitið dugar í þeim tilgangi að öll kjör komi upp á yfirborðið. Þarna er talað um að það verði opinn aðgangur að upplýsingum um launakjör einstaklinga, launakjör opinberra starfsmanna og þar með taldir einstaklingsbundnir samningar. Ég vil bara benda á að samkvæmt því frv. sem við vorum að ræða rétt áðan verður yfirmönnum heimilað að umbuna einstökum starfsmönnum. Um það spunnust mjög miklar umræður í nefndinni hvort allt það sem gerðist í slíkum samningum, sem eru einstaklingsbundnir, mundi falla undir þetta ákvæði. Mér sýnist því eins og ákvæði 5. gr. séu enn þannig að það verði ekki möguleiki að komast að því hver raunveruleg kjör opinberra starfsmanna verða og þar með t.d. að fylgjast með því hvort þessi nýju ákvæði, sem á að fara að lögfesta samkvæmt því frv. sem við ræddum áðan, muni t.d. auka launamun kynjanna.