Fjárreiður ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 17:17:50 (6144)

1996-05-15 17:17:50# 120. lþ. 138.11 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[17:17]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er býsna merkilegt mál, þ.e. fjallar um heildarlöggjöf um fjárreiður ríkisins. Það er kannski við hæfi þegar fjallað er um svo mikilvægan málaflokk, að þá er eiginlega enginn í salnum nema nokkrir hv. stjórnarandstæðingar eins og oft áður, en ég sé satt best að segja engan stjórnarliða nema hv. formann sérnefndarinnar á tali við forseta. Það er eftir öðru að fjmrh., sjálfur flutningsmaðurinn, sem við höfum hvatt oft til að vera viðstaddan í umræðu undanfarna daga, skuli ekki hafa fundið sér tíma til að vera við 2. umr. málsins. Við því er svo sem ekkert að gera. Ég ætla a.m.k. ekki í þetta sinn að gera neina kröfu til þess að hann hlusti á 2. umr. málsins. Þess hefur verið gætt að halda allri vinnu varðandi þetta mál á mjög svo faglegum grunni og sú löggjöf sem er að líta dagsins ljós hefur hlotið mjög vandaðan undirbúning.

Þegar undirbúningur hófst við löggjöfina var markmiðið ekki einungis að setja heildarlög um fjárreiður ríkisins heldur að laga þessi mál að alþjóðlegri þróun. Það var m.a. lagt upp með það að gera ákvæði sem skýrðu efnahag betur og færa ýmislegt í ríkisbókhaldi og ríkisreikningi nær því sem viðgengst í fyrirtækjaumhverfi og þá til glöggvunar og bætts eftirlits. Það er sömuleiðis gert ráð fyrir í frv. að draga saman helstu stærðir í stofnunum ríkisins, ríkisaðila, þ.e. bæði fyrirtæki, stofnanir, lánastofnanir og eru margir fleiri aðilar sem tengjast opinberum rekstri sem fá rúm í hinum nýju fjárlögum og ríkisreikningi. Í fjárlagafrv. er aðilum skipt í eina fjóra hluta, A, B, C, D sem sýnir betri yfirsýn yfir þau mál sem verið er að fjalla um hverju sinni.

Jafnframt eru í frv. lánsfjárlög tekin inn í fjárlagafrv. og það er mjög til bóta. Einnig má geta þess að fjárlagafrv. verður umfangsmeira og þannig úr garði gert að eftirlit og stjórnun í kjölfar þessarar lagasetningar verður mun einfaldari. Ég átti sæti í sérnefndinni og það er mat mitt að hér hafi vel tekist til við vinnu. Það var faglega farið yfir málið og þær breytingartillögur sem nefndin leggur til sem hún varð sammála um eru allar til bóta. Ýmis ákvæði voru skýrð betur og tekið tillit til ábendinga sem komu frá nefndarmönnum um þá þætti sem betur mættu fara.

Hv. þm. Sturla Böðvarsson, formaður sérnefndar, hefur skýrt breytingartillögur sérnefndarinnar og ég sé ekki ástæðu til að fara yfir þær neitt frekar. Hins vegar vek ég athygli eins og hann gerði reyndar líka á teimur atriðum í nefndaráliti varðandi það að knúið er á um að eignaskrá verði færð upp og það sem ekki er fært til eignar í eigu ríkisins verði þá gert með skilvirkum hætti. Þetta er mjög nauðsynlegt til að menn geti lagt enn betur til atlögu við það að stilla upp efnahagsreikningi ríkisins eftir því sem hægt verður og er það í samræmi við þróun víða erlendis að ná betri tökum á þeim þætti ríkisfjármála.

Í öðru lagi varð nokkur umræða í nefndinni um færslu á vöxtum en eins og þingmenn vita búum við hér á landi við svokölluð verðbólgureikningsskil sem er einsdæmi í heiminum. Við erum að taka tillit til verðbólgu í reikningsskilum okkar sem var vitaskuld nauðsynleg aðferðafræði þegar við bjuggum við verulega verðbólgu og langt umfram aðrar þjóðir. Nú er þessi aðferðafræði hins vegar að verða býsna úrelt. Þótt fræðilega megi færa rök fyrir því að til bóta sé að taka tillit til verðbólgu þótt lítil sé gerir þetta það að verkum að alþjóðlegur samanburður getur reynst býsna erfiður og það torveldar okkur í pólitískri umræðu um umsvif ríkisins með þessari útfærslu.

Sú hugmynd var rædd í nefndinni hvort ríkið ætti að ganga á undan að fara út úr verðbólgureikningsskilum. Það er hægt á tiltölulega auðveldan hátt. Það hefði þá knúið á um að á almenna markaðnum yrðu þau mál skoðuð ítarlega en það hefði útheimt flókna lagasetningu sem vitaskuld hefði ekki verið hægt að gera nema að lokinni nákvæmari skoðun. Niðurstaðan í nefndinni varð hins vegar sú að leggja ekki til breytingar á færslu vaxta hjá ríkinu. Hins vegar er óskað eftir að ríkisreikningsnefnd, sem er sá aðili sem hefur umsjón með þessum þáttum, muni fylgjast náið með þróun mála á næstu missirum. Þetta er einungis ábending til aðila um að vera viðbúnir því að breyta þessum færslum ef menn telja ástæðu til en á þessu stigi er ekki tekin nein stefnumarkandi ákvörðun í því efni en það má búast við að sú umræða verði vaxandi á næstu missirum eftir því sem okkar lága verðbólga festist í sessi.

Ég held að meginniðurstaða úr þessu nefndarstarfi sé sú að hér sé komin heildarlöggjöf sem bæti áætlunargerð í ríkisrekstri. Það eru fjölmörg ákvæði sem gera það að verkum að það verði bæði faglegri vinnubrögð við fjárlagagerðina og við eftirlit á ríkisumsvifum þar sem við kemur bæði Ríkisendurskoðun og þeirri umræðu um ríkisfjármál sem fer alltaf fram á hinu háa Alþingi. Það þarf hins vegar að íhuga í kjölfar á samþykkt þessa frv. hvernig Alþingi sjálft ætlar að breyta starfsháttum sínum því að það er ljóst að lánsfjárlög og tekjuöflunarfrumvörp hafa hingað til fengið meðhöndlun í efh.- og viðskn. á meðan fjárlagafrv. sjálft er í meðförum fjárln., en reyndar sent til umsagnar einstakra fagnefnda. Það er full ástæða til þess, í kjölfar samþykktar frv., sem ég vænti fastlega að verði núna á vorþingi, að forsætisnefnd Alþingis taki til skoðunar breytingar á starfsháttum nefnda sem leiða af breyttri uppsetningu fjárlagafrv. Ég tel í heildina að um sé að ræða bæði merka löggjöf, góða löggjöf og vel undirbúna löggjöf. Ég hefði kosið að fleiri mál frá hæstv. fjmrh. væru jafn vel undirbúin og þetta frv. en það verður ekki á allt kosið í þeim efnum.

Ég get þess sérstaklega að sérnefndin sem starfaði með þátttöku allra þingflokka vann vel. Umfjöllun var fagleg um þennan flókna málaflokk í nefndinni og það ber að þakka sérstaklega formanni sérnefndarinnar, hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, fyrir góða stjórn á þessari vinnu og að út úr nefndarstarfinu skyldi ekki einungis nást samstaða allra þingmanna heldur einnig breytingartillögur sem horfa allar til bóta við þá löggjöf sem við erum að ræða.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Ég fagna því að málið sé komið til 2. umr. og ég tel að með lögfestingu þessa máls á vorþingi sé stigið stórt skref fram á við til að bæta áætlunargerð, fjárlagafrv. og eftirlit í ríkisrekstri og þá er vel.