Fjárreiður ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 17:28:01 (6145)

1996-05-15 17:28:01# 120. lþ. 138.11 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[17:28]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem kom til umræðu á haustdögum og umræðan var sérstaklega að til umfjöllunar á þessu frv. yrði skipuð sérstök nefnd. Venjuleg meðferð hefði verið að vísa frv. til umfjöllunar í fjárln. og að hún hefði vísað ákveðnum liðum til hv. efh.- og viðskn. Ég lét það skýrt í ljós að skilningur minn væri sá að það mundi flýta fyrir málinu að setja upp sérnefnd þar sem allir stjórnmálaflokkar Alþingis ættu aðild að og á þann hátt var farið með málið.

Skoðun mín var sú að það ætti að vera unnt að ljúka umfjöllun og afgreiðslu núna fyrir þinglok í vor og mér sýnist að það muni rætast, herra forseti, og ég lýsi yfir ánægju með það. Ég vil vekja athygli á því að Ríkisendurskoðun hefur ekki hvað síst lagt sitt lóð á vogarskálar með umfjöllun og ábendingum um breytta og skilvirkari meðferð í fjárreiðum ríkisins.

Það er nauðsynlegt að breyta vinnulagi við framsetningu reikningsskila ríkisins og laga hana að nútímalegum háttum. Atriði eins og að setja upp reikninga á sama hátt og tíðkast hjá fyrirtækjum á almennum markaði. Ríkisreikningur, fjárlög og fjáraukalög eru verkfæri sem eru til notkunar fyrir þá aðila sem stýra fjárreiðum ríkisins. Samlíkingin um verkfæri í tösku á hér sannarlega við því hvert verkfæri þarf til síns brúks. Uppsetning og framkvæmd þessara atriða hafa verið að smábreytast undanfarin ár til hins betra. Það er nú unnt með góðum skýringum þó að komast nokkurn veginn til botns í frumvörpum, uppsetningu og reikningsskilum.

[17:30]

Nú hafa menn meiningar um að færa þessi mál til nútímahátta og vinna gögn þannig að skil séu ljós um ráðstöfun og fjáröflun og hver má og á að gera hvað. Í meginatriðum miðar frv. að því að aðlaga ríkisreikning og fjárlög betur að breyttum kröfum um upplýsingar varðandi samhengi ríkisfjármála og efnahagsmála, árangur í ríkisstarfseminni og fjármálastjórn hins opinbera eins og rakið er í athugasemdum með frv. En til þess að ná fram markmiðum frv. þarf að sjálfsögðu að ráðast í nokkuð viðamiklar endurbætur á gerð fjárlaga og ríkisreiknings. Það þarf að gera miklar breytingar á uppsetningu eða uppbyggingu og framsetningu þingskjala, fjárlaga og fjáraukalaga. Það þarf að færa þau að mínu mati að öllu leyti í nýjan búning því að umbæturnar sem ætlunin er að lögfesta með frv. hafa ekki verið teknar upp í fjárlagaritum fram til þessa.

Ég vil sérstaklega lýsa ánægju með þann áfanga sem ég tel að hafi verið náð og ég lít reyndar til þess björtum augum að fjárreiður ríkisins verði skiljanlegri fyrir þá sem hafa áhuga á að skilja fjármunameðferð ríkisins.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum fjmrn. fyrir þeirra störf að þessu máli og eins þeirri sérnefnd sem undir stjórn hv. þm. Sturlu Böðvarssonar hefur skilað inn markverðum tillögum í málinu og gert á því breytingar til bóta í tölusettum liðum. Sérstaklega vil ég þó tilnefna 6. tölul. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að gerðar séu auknar kröfur til ráðherra um samráð áður en mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Þannig er í fyrsta lagi lögð til sú breyting á 30. gr. að hlutaðeigandi ráðherrum verði, auk kröfu um samþykki fjmrh., gert skylt að hafa samráð við fjárlaganefnd Alþingis áður en gerðir eru verksamningar eða samningar um rekstrarverkefni til lengri tíma en eins árs.`` Þetta m.a. er eitt af því mikilvægasta sem hefur náðst að lagfæra í annars að mínu mati vel framsettu frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar en ég ítreka ánægju mína með frv. og lít til þess að það verði mjög til bóta í vinnu fjárln. og þingsins og fjárreiður ríkisins verði skiljanlegri fyrir þá sem á þeim hafa áhuga.