Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 11:39:43 (6162)

1996-05-17 11:39:43# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[11:39]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hlýt að segja hér nokkur orð út af þeim breytingartillögum sem hér eru fluttar af tveimur hv. þm. Ég kýs að gera það í sérstakri ræðu en ekki í framsöguræðu minni sem talsmaður sjútvn. eða formaður hennar.

Ég vil fyrst segja að það kom nokkuð á óvart þegar tveir hv. stjórnarliðar boðuðu eftir yfirferð um málið og eftir að samstaða hafði tekist í grófum dráttum um breytingartillögur við frv. að þeir mundu skrifa undir nál. með fyrirvara. Hér er á ferðinni stjfrv. og ég hafði frekar búist við því þegar búið var að leggja þetta mikla vinnu í að ná samkomulagi um breytingartillögur að þá næði nefndin að verða samferða um það. Þetta hafði síðan aftur áhrif á það að aðrir og þá þingmenn stjórnarandstöðu töldu sig enn síður bundna af því að standa að málinu án fyrirvara en ella. Það er að vísu rétt að taka fram að báðir hv. þm., Vilhjálmur Egilsson og Einar Oddur Kristjánsson, höfðu gert skilmerkilega grein fyrir afstöðu sinni til viðkomandi efnisatriða sem hér eiga við. Að því leyti lá málið ljóst fyrir í nefndinni en mér hafði ekki verið ljóst að von væri á því að tveir hv. stjórnarþingmenn mundu hverfa frá fyrirvaralausum stuðningi við málið. En það liggur nú fyrir.

Þá vil ég segja um breytingartillögurnar sjálfar og þá fyrst um breytingartillögu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að ég er á móti henni. Ég tel þá reglu sem er í 6. gr. frv. fyrst og fremst staðfestingu á þeirri reglu sem í gildi hefur verið hér lengi að öllum afla af Íslandsmiðum sé, nema annað sé sérstaklega heimilað af ástæðum sem menn þekkja svo sem þegar verið er að nýta ferskfiskmarkaði í nágrannalöndunum, landað á Íslandi og hann veginn hér. Ég vek athygli á því að hér er verið að nýta fiskstofna úr efnahagslögsögu Íslands, sameiginlegri auðlind landsmanna. Það er ekki einkamál viðkomandi útgerða eða veiðiréttarhafa hvernig þeir fara með þann afla. Ég tel einnig að það væru nokkuð sérkennileg skilaboð til t.d. íslensks skipasmíðaiðnaðar og þjónustuaðila við sjávarútveginn ef við færum að rýmka að þessu leyti okkar löggjöf umfram það sem við værum þá samningsbundin til. Ég tel það að sjálfsögðu eðlilega hugsun að beina afla af Íslandsmiðum í land hér. Hér á hann að auka umsvif og skapa störf og tekjur á Íslandi. Ég er líka á móti því að gera nokkrar þær breytingar sem mundu enn skekkja samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar og íslenskra þjónustuaðila gagnvart þeim sem í nágrannalöndunum eru. Ætli það sé ekki öllu meiri hneisa á hina hliðina að íslenskur skipasmíðaiðnaður t.d. hefur án nokkurs teljandi stuðnings verið látinn glíma við niðurgreiddan og verulega ríkisstyrktan iðnað í nágrannalöndunum. Með þeirri einu undantekningu að um tíma á síðasta kjörtímabili komust á minni háttar framlög, hefur í raun ekkert verið gert til þess að bæta íslenskum skipasmíðaiðnaði upp þessa ósanngjörnu samkeppnisaðstöðu. Ég held þess vegna að það væru heldur slök skilaboð ef við vildum auðvelda mönnum að sigla með afla beint til löndunar erlendis ef þeir hygðust fara t.d. í einhvers konar viðhald eða viðgerðir á sínum skipum þar. Er hér um að ræða kvöð og íþyngjandi aðgerð gagnvart viðkomandi útgerð í slíkum tilvikum? Já, að sjálfsögðu getur það verið þannig. Og ég segi á móti hvað með það? Erum við að komast inn á þá braut í sambandi við nýtingu fiskimiðanna að eingöngu sértæk hagsmunasjónarmið viðkomandi útgerða skuli ráða gagnvart slíkum þáttum? Er orðið óleyfilegt að leggja nokkrar kvaðir á menn sem vissulega geta bitnað á þeim með íþyngjandi hætti í einstökum tilvikum? Ég er ósammála því sjónarmiði. Ég held að menn verði verulega að vara sig ef lagt er út á slíka braut. Eru menn þá jafnvel tibúnir til að halda áfram og ganga svo langt að lokum að útgerð frá Íslandsmiðum geti þess vegna að stærstum hluta til verið í því formi að senda stór verksmiðjuskip frá erlendum höfnum hingað sem fari aftur þangað með aflann? Eða hvar ætla menn að láta staðar numið? Ég veit að vísu að hér er ekki verið að leggja slíkt til en mér finnst hugsunin sem að baki liggur vera af þessum toga og ég vara við því að menn fari umhugsunarlaust og gagnrýnislaust í þessa átt. Ég er alls ekki sammála því að þarna geti ekki verið og sé ekki réttlætanlegt að leggja á menn kvaðir af þessu tagi. Auk þess er eftirliti og allri skoðun af okkar hálfu best fyrir komið í þeim tilvikum þegar aflanum er landað samkvæmt okkar eftirlitskerfi og ekki þarf að treysta þar á að viðurkenna vigtun eða eftirlit á erlendri grund.

[11:45]

Ég tel líka að orðalag greinarinnar eins og það er í frv. sé alveg fullnægjandi þannig að við einstökum tilvikum sem upp koma og þá fyrst og fremst tengjast vélarbilunum, sé hægt að bregðast. Ég held að ef farið væri út á þá braut t.d. að ætla að fara að túlka það hvað skyldu teljast meiri háttar viðgerðir og hvað minni háttar, ef breytingartillaga hv. þm. yrði samþykkt, þá gæti orðið býsna erfitt að draga mörkin. Ætli það yrði þá ekki þannig að það gæti orðið mjög vaxandi þrýstingur á að berja í gegn að minni og minni verk teldust falla undir þessa undanþágu. Við vitum að það getur verið mönnum hagstætt af öðrum ástæðum, a.m.k. af og til, að geta landað afla sínum erlendis. Þar er stundum í boði ódýrari olía eða ódýrari þjónusta af einhverju tagi. Spurningin er þá sú hvort við ætlum að ýta undir slíkt. Ég, herra forseti, legg til að þessi breytingartillaga hv. þm. verði felld.

Þá kem ég að seinni brtt. á þskj. 929 frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Hún er af nokkuð öðrum toga. Ég segi að ég skil að mörgu leyti hvað hv. þm. er að fara. Það má auðvitað spyrja sig að því hvort þessi refsiákvæði eigi að vera á þennan hátt upp sett í hverjum einstökum lögum. Menn geta líka spurt: Er ástæða til að hafa fyrir utan þau fjölþættu refsiákvæði eða viðurlög sem lögin búa yfir og lög um stjórn fiskveiða og veiðar í landhelginni o.s.frv., þar sem úir og grúir af möguleikum til að beita menn fésektum, gera afla upptækan svipta menn veiðileyfi o.s.frv., að til viðbótar komi þá tugthúsvist og viðurlög af því tagi sem fjallað er um í 24. gr.? Um þetta má að sjálfsögðu alveg ræða. Ég segi á móti að ef okkar refsilöggjöf er þannig upp byggð á annað borð að gagnvart stórfelldum og ítrekuðum afbrotum eins og hér eiga við, þá sé refsiramminn slíkur að það geti varðað allt að sex ára fangelsi, þá á það auðvitað ekkert síður að eiga við um afbrot gagnvart þessari löggjöf en annarri. Menn verða náttúrlega að gæta sín líka í því að búa ekki til misræmi á þá hlið að það komi út eins og menn telji afbrot gagnvart þessari löggjöf eitthvað léttvægari en annarri. Nú veit ég að það vakir ekkert slíkt fyrir hv. þm. með breytingartillögunni og hann hefur útskýrt það. En þau svör sem við fengum í sjútvn. voru að hér væri um algerlega sambærilegan frágang á refsi- eða viðurlagaákvæðunum að ræða eins og í mörgum sambærilegum og helstu sambærilegum tilvikum þar sem sérstök refsiákvæði eru tekin upp. Það var meira að segja upplýst að alveg sérstakur spesíalisti í svona refsiákvæðum hefði verið settur í það að útbúa þennan hluta frv. Þar af leiðandi er það niðurstaða mín að það sé þá ekki ástæða til þess að ganga öðruvísi frá þeim málum í þessu frv. sérstaklega eða þessum lögum en almennt tíðkast. Ég er því þeirrar skoðunar að það sé rétt að láta þessi ákvæði halda sér. Um það getur svo að sjálfsögðu verið ágreiningur hvort yfirleitt eigi að ganga frá löggjöfinni svona og svo geta menn sjálfsagt líka lengi rætt um sjálf viðurlögin, hvað sé hæfilegt í þessum efnum. En ég minni aftur á að hér er fyrst og fremst um það að ræða að hámarksrefsing, refsiramminn er stilltur af miðað við sex ár fyrir stórfelld og ítrekuð ásetningsbrot. Það hefur jafnframt verið upplýst að um það eru engin fordæmi að gengið hafi verið svo langt í viðurlögum. Það er nánast frekar um að ræða svona fræðilegan möguleika að refsing gæti orðið af þessum toga. Það er afar fátítt að um varðhaldsdóma eða fangelsi sé yfir höfuð að ræða gagnvart þessari löggjöf eða löggjöf okkar á sviði sjávarútvegs. Ég legg því til, herra forseti, sömuleiðis að þessi brtt. á þskj. 929 verði felld og frv. afgreitt með því að samþykkja breytingartillögur sjútvn. en á því verði ekki gerðar frekari breytingar.

Vegna þess sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði síðan um úrkastsmálin og stærð þess vandamáls, þá get ég út af fyrir sig tekið undir margt af því sem þar kom fram. Það liggur þannig að allt frá því að þeir hörðustu segja að þetta sé allt saman lygi og rógur og það sé engum fiski hent og upp í hitt að það heyrast næstum því stjarnfræðilegar tölur í þeim efnum. Það er afar líklegt að sannleikurinn liggi einhvers staðar þarna á milli. Ég held að það sé alveg borin von, það sé hið mesta óraunsæi að neita því að eitthvað hljóti að vera til í rökstuddum fullyrðingum, könnunum og öðru slíku sem liggja fyrir og benda eindregið til þess, því miður, að talsvert sé um það að fiski sé hent og að vissar aðstæður, aflamarkskerfið þar með talið, geti haft á það áhrif. Þá er spurningin: Hvernig er hægt að nálgast þetta vandamál? Er hægt að átta sig á stærð þess og hvaða úrræðum er hægt að beita? Ég held að það væri tilraunarinnar virði að reyna með viðurkenndum könnunaraðferðum að fara í mjög vandaða könnun þar sem menn að sjálfsögðu nytu trúnaðar og nafnleyndar, að það væri reynt að fá menn til samstarfs um það að reyna að greina þetta vandamál og slá á stærð þess. Ég tel að sjútvn. hafi t.d. fengið mjög heiðarlegar heimsóknir þar sem menn voru að reyna að segja hluti sem þeim líður illa yfir að búa yfir vitneskju um. Það var gert í góðri trú og góðri meiningu. Og það er að sjálfsögðu ekki ástæða til þess að skjóta sendiboðann þó að hann sé boðberi válegra tíðinda ef hann er að gera skyldu sína. Þvert á móti ber að virða það ef menn eru að koma slíkum upplýsingum á framfæri.

Spurningin er þá fyrst og fremst: Hvað er til ráða? Eru til einhver úrræði innan ramma núgildandi stjórnkerfis fiskveiða og löggjafar sem gætu a.m.k. dregið úr þessu vandamáli? Ég er þeirrar skoðunar að það væri a.m.k. tilraunarinnar virði að prófa ákveðið fyrirkomulag með aflaheimildir þó ekki væri nema til reynslu og sjá hvort menn hefðu ástæðu til að ætla að það mundi skila tilætluðum árangri, að það kæmi að landi afli sem ella væri fleygt í sjóinn.

Þá kem ég að hugmyndum hv. þm. Péturs H. Blöndals sem hann reifaði í sjútvn. og eru reyndar gamalkunnar. Staðreyndin er sú að sú hugsun sem þar er á ferðinni er nánast nákvæmlega hin sama og hefur oft verið hreyft á Alþingi og fluttar tillögur um, þ.e. að þegar eða ef eða svo lengi sem menn búi við aflamarkskerfi, takmarki ásókn í fiskstofnana í því formi að magn þess afla sem landað er sé takmarkað, þá verði að sjá við þeirri hættu að það geti hvatt til úrkasts með því að opna mönnum einhverja möguleika fyrir löndun afla fram hjá aflamarki. Að sjálfsögðu má það þó ekki vera svo að það sé mönnum beinlínis hagstætt að nýta sér þá möguleika möguleikanna vegna og það verður að sjá fyrir því þannig að þetta sé frekar íþyngjandi en hitt fyrir menn eftir sem áður og treysta þá á að með því að opna slíka möguleika takist að rækta upp í ríkari mæli en nú er það hugarfar að það skuli hirða allan afla. Ég held að þetta snúist að sjálfsögðu ekki síst um það að reyna, mér liggur við að segja, að varðveita það hugarfar sem ég held að sé fyrir hendi, að menn vilji að sjálfsögðu reyna að gera verðmæti úr öllu sem í veiðarfærin kemur og um borð í skipin kemur. Mér fannst hv. þm. Pétur H. Blöndal reyndar taka dálítið glannalega til orða í tvígang áðan þegar hann tók dæmið sitt af hálfa tonninu af þorski og sagði svo: ,,Að sjálfsögðu henda þeir því. Að sjálfsögðu henda þeir því svo.`` Ég held að það sé þannig að það geri enginn nema nauðugur að henda fiski í sjóinn eins og hv. þm. reyndar sagði og spurningin snúist frekar um það að mönnum séu skapaðar aðstæður til þess.

Menn segja gjarnan að kvótakerfið sé ekki sökudólgurinn og ætla sér síðan að sanna það með því að það heyrist ljótar sögur af umgengni um fiskstofna t.d. uppi í Barentshafi þar sem enginn kvóti er og fiski hafi verið hent í sjóinn áður en kvóti kom til sögunnar og hvort tveggja er rétt. Ég hef t.d. upplýst það að ég hef staðið að því að moka tonnum af fiski í sjóinn á Halamiðum um áramótin 1976/1977. Það var ekki kvótanum að kenna heldur því að það veiddist bara meira en réðist við að hafa undan. Staðreyndin er sú að menn stjórna því ekki alltaf upp á kíló hvað fer inn í veiðarfærin og hvað kemur upp og vantar reyndar mikið upp á. Enn síður var það náttúrlega í þá daga þegar ekki voru jafnfullkomin mælitæki og nú eru.

Við skulum þá aðeins líta á aðstæðurnar í heild sinni sem eru fyrir hendi í dag því það er meira en bara aflamarkið eitt og takmarkaður kvóti og takmarkaðar veiðiheimildir í þorski sem hér koma til sögunnar. Það eru líka þær efnahagslegu aðstæður og það efnahagslega umhverfi sem menn eru í. Það er auðvitað þannig að þeir sem minnstan hafa kvótann búa gjarnan við lökustu afkomuna, er það ekki? (Gripið fram í: Jú.) Jú, það er trúlegt, þannig að menn eru þá jafnframt að fjalla um þá sem eru í erfiðastri aðstöðu eða veikasta hafa stöðuna til þess að bæta sér upp skort á veiðiheimildum með því að kaupa meira. Þá benda menn á að það sé hægt að leigja þær. Já, það er hægt að leigja þær. En hvað kostar það? Það kostar iðulega meira að leigja kíló af þorski heldur en fæst fyrir þann sama þorsk þegar hann er lagður upp á markað. Hversu hvetjandi er það þá fyrir menn að leysa vandamálið þannig eða hitt þó heldur ef þeir standa frammi fyrir því að þeir eru óvart komnir með nokkur tonn af þorski í snurvoðina og upp á dekk og þeir hafa samband í land og spyrja: ,,Hvað mundi kosta mig að leigja fimm tonn af þorski til að landa þessu kasti sem ég óvart fékk í morgun? Ég ætlaði að taka kola eða ýsu, en þetta reyndist bara því miður vera þorskur. Ég er hérna með fimm tonn af þorski en ég á ekki nema 500 kg eftir af kvóta.`` Jú, þeir fengju kannski það svar að það kosti svona um 100 kr. kg. Þar á ofan leggst svo viss kostnaður sem menn hafa af því að koma aflanum í land, setja hann á markað o.s.frv. Þeir geta vænst þess að fá 90 kall. Þessi afli verður að koma til skipta til áhafnar ef hann á annað borð kemur í land. Hvernig lítur dæmið þá út? Það lítur þannig út að viðkomandi útgerðarmaður er kannski að spara sér í beinhörðum útgjöldum tugi króna á hvert einasta kíló sem hann hendir í staðinn fyrir að koma með að landi. Þetta eru aðstæðurnar. (Gripið fram í.) Ja, ég ætla ekki að reyna að forðast að nota það orð. Ég er að reyna að draga upp þá mynd sem sannanlega er fyrir hendi og má helst aldrei ræða um því þetta er allt saman feimnismál. En þetta er svona og ég hef algerlega borðleggjandi dæmi um að svona aðstæður hafa komið upp. Ég var t.d. staddur á fiskmarkaði ekkert óskaplega langt í burtu í fyrrasumar og fékk þessi dæmi beint inn á borð þar sem snurvoðarbátar höfðu lent í því að kasta á þorsk. Þeir höfðu ætlað sér að ná öðrum tegundum en farið fram yfir kvóta. Þeir höfðu samband við viðkomandi fiskmarkað og spurðu: ,,Hvað kostar að leigja kílóið af þorski?`` Svo reiknuðu þeir dæmið út. Það vildi reyndar svo til að einn bátanna kom með þetta í land og tók á sig kostnaðinn með þeim orðum að þetta væri svo fallegur fiskur. ,,Ég gat bara ekki hent honum.`` Aðrir gerðu þetta ekki, töldu sig ekki hafa efni á því. Menn þurfa að borga með þeirri hugsun stórfé að þeir vilji ekki henda fiski.

[12:00]

Ég held og reikna með að það væri hægt að gera ríkar kröfur til þess að menn gerðu þetta í anda góðrar umgengni og þess að sóa ekki verðmætum ef þeim væri það kleift, mér liggur við að segja án þess að taka á sig stórkostleg útgjöld vegna þess. En dæmið eins og það snýr að mönnum í þessum tilvikum er auðvitað þannig að það er beinlínis hvetjandi, það er beinlínis efnahagslegur hvati fyrir hendi fyrir menn að henda. Þetta er oft og tíðum þannig að það hefur gengið mjög á veiðiheimildirnar þegar líður á kvótaárið og menn eru þá að reyna að drýgja tekjurnar og halda uppi verkefnum fyrir sína útgerð með því að sækja í aðrar tegundir. Dagskipunin er auðvitað eins og ég sagði áðan að stunda útgerð meira og minna þannig á Íslandi í dag að nota þorskinn sem meðafla með öðrum tegundum. En þá eru aðstæðurnar oft og tíðum þessar.

Svo geta menn spurt: Hvernig stendur á því að leigukvótinn er svona dýr? Hvers konar ástand er það? Það kemur til af öðrum ástæðum. Þetta er jaðarkostnaðarverð sem er algerlega óraunhæft og er borið uppi af allt öðrum ástæðum en þeim að menn leigi þorskkvóta til þess að landa þorski. Verðið myndast við allt aðrar aðstæður en þær. Þetta háa leiguverð myndast t.d. að hluta til í gegnum línutvöföldunarkerfi þegar hvert leigt tonn af þorski í viðskiptum við annan aðila sem leggur til tonn á móti og tvöfaldast síðan í línuútgerð mánuðina nóvember--febrúar, er orðið að fjórum. Auðvitað er allt annað mál að leigja eitt tonn af þorski á 100 kr./kg ef þú mátt veiða fjögur þegar þannig er ástatt orðið. Þetta er t.d. dæmi um það að kerfið eins og það er úr garði gert getur myndað algerlega óraunhæfar viðmiðanir af þessu tagi. Síðan lenti ég í rökræðum við lærðan mann ofan úr háskóla sem ætlaði að fara að sanna fyrir mér heilmmikla hluti um arðsemismöguleika og umfang eða upphæðir í auðlindaskatti út frá leigukvótaverði. Hann sagði að ef maður lítur á verðið á leigukvótanum, 100 kr. á kg og skoðar svo hvert verðið í langtímaviðskiptum með veiðiheimildir ætti þá að vera og hvað þetta segir um rentuna sem ætti að vera hægt að taka út úr sjávarútveginum, þá er það svona og svona. Þessi lærði maður virðist ekki hafa áttað sig á því hvernig leiguverð á fiskveiðiheimildum myndast á Íslandi í dag. Það er algerlega óraunhæft út frá því sjónarmiði séð að maður leigi til þess að landa viðkomandi afla. Það er út í hött. Það er stórt tap á því, enda myndast það með öðrum hætti. Rækjutogari sem fyrst og fremst er að stunda veiðar á úthafsrækju en fær einhver kíló af þorski af og til með getur auðvitað leigt sér nokkur tonn til þess að það líti betur út og allt það. Ef 98% af aflaverðmætinu er eftir sem áður einhver önnur tegund, þá er það orðinn hverfandi jaðarkostnaður sem hann tekur á sig við það. Þannig eru ýmis dæmi um slíkt.

Það getur verið réttlætanlegt hugsanlega við tilteknar veiðar að leigja þorsk ef þú ert að fá kannski níu tonn af einhverjum öðrum afla á móti hverju einu af þorski sem þú þarft með í þær veiðar og að sjálfsögðu getur kerfið virkað þannig. En við aðrar aðstæður á það ekki við og þá held ég að menn eigi að horfast í augu við það og vera menn til þess að reyna að taka á því.

Menn óttast gjarnan að ef opnað yrði fyrir einhverja jafnvel þó um væri að ræða mjög takmarkaða löndun meðafla, þá mundi allt fara á hvolf og menn mundu sækja í að gera út á þá möguleika o.s.frv., o.s.frv. Í skýrslu nýtingarnefndarinnar er dregin upp ægileg hryllingsmynd af einhverjum vítahring sem færi í gang. Að sjálfsögðu held ég að engum heilvita manni hafi dottið í hug annað en um yrði að ræða einhvern veginn mjög takmarkaða möguleika. Maður gæti hugsað sér að þetta yrði t.d. prófað þannig að meðaflamöguleikinn væri 10% í viðbót ofan á veiðiheimildir viðkomandi skips í þorski og punktur þannig að menn hefðu þetta svigrúm til að koma með að landi umfram sinn afla kannski eitthvert slíkt magn. Síðan yrði séð fyrir því að þessi afli yrði tekinn og seldur og fénýttur, einungist tæplega beinum útgjöldum viðkomandi útgerðar yrði skilað til baka, þannig að menn fengju svona rétt rúmlega fyrir ís og löndunarkostnaði og öðru slíku og tækju eftir sem áður á sig nokkurt óhagræði. Fjármunirnir sem hið opinbera fengi hins vegar við sölu á aflanum rynnu t.d. til öryggismála sjómanna. Þá mundi þar skapast mjög mikið aðhald um borð í skipunum um að þessir möguleikar væru nýttir. Ég get vel séð það fyrir mér t.d. að ef annaðhvort þyrlusjóður Landhelgisgæslunnar eða rekstur Öryggisskóla sjómanna nyti þessara fjármuna, þá mundi verða býsna vel fyrir því séð af sjómönnum um borð í íslenskum fiskiskipum að komið yrði með fisk að landi sem hægt væri að landa á þessum grundvelli og nýta í þágu slíkra verkefna. Og ég er ekki viss um að menn mundu telja það sérstaklega eftir sér umfram önnur viðvik um borð að sjá fyrir því.

Ein röksemdin enn sem síðan er oft notuð gegn þessu er sú að þetta þýði ekki neitt því að menn munu nota þessi 10% og henda svo áfram. En hvað gerist þá? Hvað eru menn að segja þá? Það sem gerist er að þessi 10% koma þó að landi í staðinn fyrir að fara í hafið. Menn geta nefnilega ekki hvort tveggja reynt að skjóta þessar hugmyndir annars vegar með því að neita vandamálinu og segja að það sé engu hent, en hins vegar segja að það þýði ekkert að gera svona ráðstafanir af því að menn muni henda samt. Það gengur ekki upp. Og ég segi: Ef við vinnum það með einhverjum ákvæðum af þessu tagi að það kæmi þó að landi nokkurra þúsunda tonna afli sem ella færi í hafið og þó að allt annað yrði óbreytt, þá erum við þó því betur stödd. Og einu öðru til: Við fengjum upplýsingarnar um þetta sem tekið er úr stofninum og ekki er talað um í dag, því í reynd er ekki gert ráð fyrir því í fiskveiðiráðgjöfinni að nokkru sé hent og af skiljanlegum ástæðum kannski. Ætli það yrði ekki býsna erfitt fyrir þá ágætu vísindamenn að fara og reyna að skjóta eitthvað á það hvaða prósenta það ætti að vera. Ég er því og hef lengi verið þeirrar skoðunar að menn ættu að þora að horfast í augu við þetta mál eins og það liggur og hafa kjark til þess að gera, við getum þess vegna kallað það ákveðnar tilraunir til þess að glíma við það. Ég fullyrði að það færi ekki neitt á hvolf í fiskveiðistjórnkerfinu þó að menn prófuðu að útfæra einhverja reglu af þessu tagi. 10% meðafli miðað við þorskkvótann væru þá um 15 þúsund tonn og væntanlega yrði hann aldrei neitt nálægt því allur nýttur. Ýmsir mundu alls ekki sækjast eftir því nema síður væri. Ég sé því ekki að það stórkostleg áhætta yrði tekin. Það er langt innan við þær teygjur sem verið hafa í stjórnkerfinu á undanförnum árum og oft hafa leitt til þess að aflinn hefur farið tugi þúsunda tonna fram úr ráðgjöfinni þó að eitthvað slíkt væri prófað.

Ég er þeirrar skoðunar, a.m.k. hvað stærri fiskiskipin áhrærir, að við eigum að reikna með því að sókninni verði stjórnað á grundvelli aflamarks á næstu árum. Ég sé ekki að neitt annað sé raunsætt en að reikna með því að svo verði og þeir sem vilja og ég tala ekki um sérstaklega þeir sem eru eindregnastir stuðningsmenn þess kerfis, ættu að hafa forgöngu um að reyna að glíma við þá ágalla og þá vankanta sem því eru samfara í staðinn fyrir að vera yfirleitt í þeim hópi sem neitar að ræða og neitar jafnvel tilvist hluta af þessu tagi. En það hefur því miður verið þannig að hörðustu talsmenn kvótakerfisins hafa yfirleitt jafnframt verið þeir sem hafa algerlega neitað að horfast í augu við það að nokkuð af þessu tagi væru fylgifiskar þess. Það er að mínu mati ekki mjög víðsýn eða hyggileg afstaða. Þvert á móti held ég að einmitt þeir menn ættu að leggja mest af mörkum til þess að reyna að lagfæra þá ágalla sem á kerfinu eru ef þeir vilja viðhalda því og tryggja það í sessi.

Þess vegna er ég sammála því að með þetta mál þurfi að vinna áfram og reyna að skoða hvort ekki er unnt að grípa til einhverra ráðstafana. Ég er að vísu ekki viss um að blessuð umgengnisnefndin sé líkleg til þess að gera stóra hluti í þessum efnum miðað við röksemdafærslu hennar í skýrslunni og hefði jafnvel talið að heppilegra væri að setja til þess að skoða þetta einhverja aðra menn með opnari huga en þar er. Ég vil jafnframt taka fram vegna þeirra hugmynda sem hv. þm. Pétur Blöndal reifaði í sjútvn. að ég mundi ekki treysta mér til að standa að samþykkt þeirra eins og þær eru þar fram settar. Ég tel að það sé nauðsynlegt að hafa þessar heimildir á vissan hátt takmarkaðar og afmarkaðar, a.m.k. fyrst um sinn meðan látið yrði á það reyna í hve miklum mæli þær yrðu nýttar. Ég hef hugsað mér að þetta yrði útfært á þann veg að um yrði að ræða takmarkaðar hlutfallslegar heimildir sem tengdust veiðiheimildum viðkomandi aðila. Væntanlega væri fyrst og fremst ástæða til og fyrst og fremst raunsætt að þetta tæki til þorsks, sérstaklega eins og nú er ástatt á Íslandsmiðum, þ.e. að kvóti þar er jafnlítill í hlutfalli við aðrar tegundir og raun ber vitni. Það kann að breytast á næstu árum. E.t.v. kunna að verða aðrar aðstæður uppi innan fárra ára og aðrar tegundir í sambærilegri stöðu og þorskurinn nú og þá mundu menn taka á því.

Þetta ætla ég, herra forseti, að láta duga um þá þætti málsins sem ég hef gert að umtalsefni, en hvet að lokum hv. þingmenn til þess að fella brtt. á þskj. 972 og 929.