Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:17:46 (6166)

1996-05-17 12:17:46# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:17]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn skortur á því að við getum orðið ósammála, ég og hv. þm. og það verður auðveldara með hverjum deginum að vera ósammála hv. þm. eins og hann lætur nota sig í skítverkin á hinu háa Alþingi. En ég mótmæli þessu bara aftur. Ég var m.a. að draga athyglina að því út á hvaða braut er verið að halda með röksemdafærslu af þessu tagi, að um sé að ræða óeðlilega kvöð og íþyngingu og það sé einhvers konar ígildi auðlindaskatts. Ég bið hv. þm. að staldra við og átta sig á því hvar hann endar. Það getur auðvitað ekki endað öðruvísi en þannig að hv. þm. verði á móti löndunarskyldunni almennt. Það er afleiðingin af röksemdafærslu af þessu tagi því auðvitað má segja að það sé með vissum hætti takmörkun og þá með vissum hætti auðlindaskattur að menn skuli yfir höfuð þurfa nokkuð að vera að landa eða koma við á þessu skeri. Það getur vel verið framtíðarsýn hv. þm. Ég tel að ég sé ekki að gera honum upp meiri skoðanir en hann var að gefa mér að það sé þá kannski framtíðarsýn hv. þm. að hægt sé að sækja þennan afla meira og minna á Íslandsmið með stórum frystiskipum sem landi bara þar sem þeim sýnist og séu í reynd gerð út þaðan sem þeim sýnist og þaðan sem ódýrast er eða er það það sem menn eru að hugsa? Ég held að menn verði að draga einhver mjög skýr mörk. Ég tel að það sé gert í lögunum og hafi verið gert í lögunum um stjórn fiskveiða og öðrum þeim ákvæðum sem gilt hafa um þetta efni. Staðreyndin er auðvitað sú að það eitt og sér að breyta þessu mundi náttúrlega ekki leysa málið því að fleiri ákvæði koma þarna við sögu sem hv. þm. þyrfti þá líka að fara í að breyta. En ég, herra forseti, tel að engin rök séu fyrir því að breyta frv. í þessa veru og enn síður eftir að hafa heyrt röksemdafærslu hv. þm. Það væri enn hættulegra og vitlausara að breyta þessu eftir að hv. þm. Vihjálmur Egilsson er búinn að reyna að rökstyðja að svo eigi að gera.