Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:24:10 (6169)

1996-05-17 12:24:10# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:24]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Frv. um umgengni um auðlindir sjávar er til 2. umr. og tók ég þátt í þeirri umræðu sem fór fram við framlagningu frv. og gagnrýndi þá 2. gr. frv. og óskaði eftir því við hv. sjútvn. að það yrði skoðað sérstaklega hvernig bæta mætti þá grein með tilliti til þess að herða á þeim ákvæðum sem þar eru og reyna með lögum að koma í veg fyrir það að menn hentu fiski fyrir borð. Mér sýnist að hv. sjútvn. hafi að sumu leyti skoðað þessa grein með þeirri hugsun að takmarka að afla væri hent fyrir borð og tekið sérstaklega fyrir það sem varðar 3. og 4. málsl. 2. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta, í brtt. ,,Einnig getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð innyflum, hausum og öðru sem til fellur við verkun eða vinnslu, enda verði þessi fiskúrgangur ekki nýttur með arðbærum hætti.``

Ég get út af fyrir sig fallist á að ráðherra geti sett reglugerð um þetta og treysti því að þar verði ekki hleypt of lausum taumnum. Ég veit að meðan þetta ákvæði hefur verið í gildi eru menn skyldugir til að koma með allt að landi. Stöðug tilraun til þess að koma aflanum í verð er í gangi og ég þekki það frá stórum úthafsveiðiskipum sem hafa verið að reyna að koma karfaafskurði í verð að þeir hafa reynt að ná samningum við erlenda hringa sem fyrst og fremst er ætlað að nýta þetta í dýragarða og til stórra búa sem nýta sér úrkast. Þar hafa að því er mér skilst náðst nokkuð viðunandi samningar þó svo að menn telji sig ekki hafa náð því sem þarf til að hægt sé að segja að þetta skili hagnaði. Eigi að síður er að nást árangur í því að gera karfaafskurðinn að verðmæti. Flestum sem hafa kynnt sér þessi mál er kunnugt um að afskurður í þessum tilliti er helmingurinn af karfanum. Það er 50% af karfanum sem fer fyrir borð með því ákvæði sem var í frv. að heimila að henda öllum afskurði og úrkasti fyrir borð. Þar erum við fyrst og fremst að tala um vinnslu um borð í fullvinnsluskipum.

Önnur ákvæði í þessari grein --- og þá er ég fyrst og fremst að tala um 2. mgr. en þar stendur í 1. málsl. ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að varpa fyrir borð afla sem sýktur er, selbitinn eða skemmdur á annan hátt sem ekki hefði verið unnt að komast hjá á þeim veiðum sem um er að ræða.``

Maður verður að geta treyst því að sjómenn hendi ekki neinum afla fyrir borð sem er ekki skemmdur þannig að ég tel að ég geti fallist á að þetta standi áfram en þegar kemur að 2. málsl. 2. mgr. skilja leiðir því að ég get ekki áttað mig á því sem stendur í þessum málsl., með leyfi forseta: ,,Þá er heimilt að varpa fyrir borð fisktegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla enda hafi viðkomandi tegund ekki verðgildi.``

Ég held að flestum sé í fersku minni að tegundir eins og grálúða voru fyrir nokkrum árum, við skulum segja fyrir um 20 árum, aukaafli sem menn hentu vegna þess að þeir töldu hana verðlausa. Síðan er farið að veiða þennan fisk á línu fyrir austan og hann fer að koma meira í troll en áður. Þá er farið að gera úr þessu verðmæti enda sjómenn skyldugir að koma með allan afla að landi. Í dag er þetta með eftirsóttari fisktegundum og erfitt að afla upp í þann kvóta sem menn hafa vegna ofveiði.

Það eru mörg dæmi um það að aukategundir hafa orðið að miklum verðmætum vegna þess að menn hafa sett sig í þá vinnu að reyna að gera þær að verðmætum. Þess vegna tel ég að þetta ákvæði í greininni, að lögfesta þá heimild að menn geti hent fiski fyrir borð, sé mjög skaðlegt. Við eigum ekki að láta slíkt ákvæði fara í gegnum þingið og ég mun því leggja til að þessi setning í þessum málsl. í 2. mgr. verði felld brott.

[12:30]

Í 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. frv. stendur: ,,Loks er heimilt að varpa fyrir borð innyflum og hausum.`` En það er búið að gera breytingar við 3. málsl. af hálfu sjútvn. og ég get svo sem fallist á þær og reynt að treysta því að þarna verði farið varlega með heimildir.

Ég ætla ekki að fjalla meira um 2. gr. en vonast til að sjútvn. skoði sérstaklega þetta ákvæði sem lýtur að 2. málsl. 2. mgr. Ég vil bara minna á að með tilkomu fiskmarkaða er óþarfi að setja sjómenn í þá aðstöðu að þeir hafi leyfi til að henda fiski fyrir borð eins og þeim sýnist ef hann er ekki kvótasettur á íslenska kvótamarkaðnum. Fiskmarkaðir hafa með ótrúlegum hætti komið ýmsum fisktegundum í verð sem var hent hér áður fyrr. Má þar nefna keilu, hlýra og ýmsar tegundir sem margar fiskvinnslustöðvar í dag sérhæfa sig í að vinna. Það er því ,,lapsus`` í þessum lögum að vera að setja svona ákvæði inn og skora ég á hv. sjútvn. að fella þetta ákvæði út. Annars mun ég flytja við það brtt.

Varðandi 6. gr., um vigtun sjávarafla, vil ég minna á umræðu sem hefur farið fram víða í sjávarútveginum. Margir telja að þar sem heimildir útgerða til veiða í íslenskri landhelgi eru án endurgjalds eigi að vera hægt með rökum að skikka þær útgerðir sem veiða í lögsögunni til að sæta ýmsum sérreglum sem aðrir ættu ekki að þurfa að lúta. Þar á ég við að útgerðir sem fá úthlutað úr íslenskri lögsögu ættu t.d. að taka þátt í því að þróa íslenskan skipasmíðaiðnað og halda uppi eðlilegri afkastagetu þar. Auðvitað byggist þetta á því að íslenskur skipasmíðaiðnaður sé samkeppnisfær við erlendan. Ég tel að hann sé það, og meginmarkmið að hann njóti þeirrar vinnu sem skapast af viðhaldi flotans. Mér finnst það verðugt markmið að stefna að. Þess vegna get ég tekið undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er varhugavert að opna þær heimildir sem gefa útgerðinni kost á að nýta sér erlenda möguleika á þessu sviði án þess að nokkur geti skipt sér af því. Ég virði að sjálfsögðu þau sjónarmið að það eigi að leita hámarksafraksturs af þessari grein eins og öðrum, en ég held samt að menn geti viðurkennt að hún nýtur ákveðinna sérkjara í íslenskri lögsögu í umgengni um þessa sameiginlegu auðlind landsmanna, fiskstofnana, og útgerðir verða þá einnig að lúta öðrum sérákvæðum sem hefta þá að einhverju öðru leyti.