Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:34:45 (6170)

1996-05-17 12:34:45# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:34]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ákvæði 2. gr. má viðurkenna að hún er nokkuð vandasöm í framsetningu af því að almenna reglan þar er sú, eins og fram hefur komið, að það skuli hirða og koma með að landi allan afla. En veruleikinn er sá að það er óhjákvæmilegt að veita frá þessu ákveðnar undanþágur og beinlínis í allra þágu í því tilviki t.d. að unnt sé að sleppa undirmálsfiski af færum sem ætla má að geti lifað af og haldið áfram á beit.

Varðandi tegundir sem ekki sæta takmörkunum og hafa ekkert verðgildi er ekki hægt að horfa fram hjá því að enn er slíku til að dreifa í einhverjum mæli. Ég get þó verið sammála hv. þm. um að menn verða að passa sig á því að taka ekki í burtu þann hvata sem þarf að vera fyrir hendi til þess að leita stanslaust að nýtingarmöguleikum. Reynslan hefur sýnt, einkum og sér í lagi seinni árin, að fyrir nánast allar tegundir finnst markaður ef eftir því er leitað. Þá vil ég leggja áherslu á að það er ekki ætlunin með þessu orðalagi að slaka á nokkurn hátt á þeirri framkvæmd. Ef t.d. aðili eins og aflakaupabankinn eða fiskmarkaður býður þó ekki sé nema fáeinar krónur í kg af einhverri tegund eða einhverju kvikindi verða umsvifalaust virk ákvæði laganna um að allan slíka afla skuli hirða.

Í breytingum sjútvn. felst einmitt viðurkenning á þessu orðalagi. Við vildum ekki láta greinina gagnvart vinnsluskipunum vera orðaða eins og frv. er til þess að vera ekki að setja þann svip að það væri almenn opin heimild fyrir því að henda hlutum, ég tala ekki um t.d. afskurði en hann var talinn upp eða er talinn upp í 2. gr. frv. eins og það er úr garði gert. Ég vek athygli hv. þm. á að t.d. afskurður er felldur niður í upptalningunni þegar kemur að því hvað ráðherra geti heimilað með reglugerð. Ég tel því að sjútvn hafi snúið málinu talsvert í þá átt og vil fyrir mitt leyti undirstrika að það ber ekki að túlka þetta svo að það sé verið að slaka í neinu á í þeim efnum. Það ber að sjálfsögðu að reyna að leita markaða fyrir allar tegundir sem nýtanlegar eru og um leið og eitthvert verðgildi er fáanlegt eða finnanlegt fyrir tegund, verða ákvæði laganna um að hún skuli koma að landi virk.