Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:41:12 (6172)

1996-05-17 12:41:12# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, LB
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:41]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess ræða hér aðeins frv. til laga um umgengni um auðlindir sjávar. Ég vil taka það fram að ég er fylgjandi þessu frv. og tel nauðsynlegt að setja um það reglur. Ég tek undir þau markmið sem koma fram í 1. gr. um að stuðlað verði að því að auðlindir sjávar verði nýttar með sjálfbærum hætti til að tryggja til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina. Mig langar þó aðeins að vekja athygli á tveimur eða þremur greinum. Það hefur þó verið gert. Hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafa þegar gert það. En mig langar að vísa aðeins í 2. mgr. 4. gr. og benda á að það mat sem er sett í hendur embættismanna. Þeir þurfa að meta það hvort það líklegt sé að þær aflaheimildir sem eru til staðar dugi fyrir þeirri sjóferð sem fyrirhuguð er. En þetta er þannig úr garði gert að það er ljóst að þetta ákvæði muni ekki á nokkurn hátt verða virt. Það mun ekki nýtast og er gersamlega tilgangslaust að vera að lögfesta ákvæði með þessum hætti. Það er aðeins til þess fallið að setja embættismenn í þá aðstöðu að þeir eigi þess ekki kost að fylgja þessu ákvæði fram.

Megintilefni þess að ég kveð mér hljóðs er að mig langar að fjalla örlítið um refsiákvæði þessa frv. sem er um margt mjög merkilegt og greinilegt að menn ætla að leggja mikið á sig í því skyni að ná til viðkomandi sjómanna. Mér sýnist nauðsynlegt að þeir fái a.m.k. einhverja hvíld á vegum hins opinbera. (Gripið fram í: Byggja eitt fangelsi í kjördæminu.) Ekki veit ég hvort fangelsisbygging á Litla-Hrauni sé liður í sjávarútvegsstefnu sjútvrh. en a.m.k. er búið að byggja við fangelsið á Litla-Hrauni.

Ég vil reyndar taka fram að ég er hlynntur þeirri tillögu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson bar fram áðan um að það sé ekki nauðsynlegt að setja í lög að ítrekuð brot skuli varða fangelsi allt að sex árum. Það er einu sinni þannig með blessaða fiskana að þeir hafa ekki nákvæmar upplýsingar um það hverjir hafa aflaheimildir og hverjir ekki. Í ljósi þess geta þeir álpast í veiðarfæri sem tilheyra skipum sem ekki eiga aflaheimildir og að setja menn jafnvel í steininn fyrir vikið gengur einhvern veginn ekki upp.

Í öðru lagi vil ég benda á að í 2. mgr. 24. gr. er kveðið á um ákveðna lágmarksfjárhæð sem sekt skuli nema við fyrsta brot. Þær reglur sem hér er vitnað til eru annars vegar ákvæði laga þessara og hins vegar ákvæði sem ráðuneytið eða sjútvrh. setur með reglugerð. Lágmarkssekt skal vera 400 þús. kr., alveg sama hvaða regla er brotin. Þetta er óvenjugróft að svona ákvæði skuli sett í lög.

[12:45]

Ég vil einnig benda á merkilega reglu í 25. gr. Þar er kveðið á um að sekt megi jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 24. gr. megi ákvarða lögaðila sekt þótt sök hans verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem starfa í þágu hans enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðila.

Með öðrum orðum þarf ekki að sanna að viðkomandi einstaklingar hafi brotið af sér. Það þarf aðeins að sýna fram á brot og mér virðist sem svo að í kjölfarið megi velja þá einstaklinga sem sektir skuli leggja á. Að minnsta kosti er ekkert í þessum lögum sem kemur í veg fyrir að þeir megi nánast velja þann aðila sem er gert að sæta sektum, hvort það er eistaklingur, lögaðili eða einhver annar. Ég sé að hv. formaður sjútvn. var að ræða við starfsmenn þingsins en ég er að tala um 25. gr., tala um þá hlutlægu reglu sem þar kemur fram og ég er að benda á að eins og hún lítur út nú þá sé sjútvrn. nánast í sjálfsvald sett hverjum skuli refsað og hverjum ekki. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að kokknum skuli refsað, ég sé ekkert sem kemur í veg fyrir það. (Gripið fram í.) Það má vel vera að kokkurinn eigi skilið að fá einhverja sekt en að það skuli vera fært á vald ráðherra að ákveða hvort honum skuli gerð sekt eða ekki er vægast sagt mjög óeðlilegt. Í raun og veru hélt ég að slíkar reglur, sem birtast í 21. gr., heyrðu til liðinni tíð, þ.e. menn væru ekki að setja slíkar reglur í lög að ekki þyrfti einu sinni að sýna fram á að einhver hefði brotið af sér. Ég hélt að þetta tilheyrði löngu liðinni tíð en svo virðist ekki vera.

Síðan vek ég athygli á því að í greininni kemur einnig fram að það er engin skylda að brotið hafi nýst nokkrum einasta manni og það hafi ekki verið neinum til hagsbóta enda kemur fram að forsenda þess að mönnum sé gerð sekt á grundvelli þessa ákvæðis sé það að brotið hafi orðið eða getað orðið lögaðilum til hagsbóta. Þarf að sýna fram á brot, hv. formaður sjútvn.? Það er spurning? En ef það hefði verið framið brot þá hefði það getað orðið til hagsbóta fyrir þann sem hefði hugsanlega framið brotið. Ég sé ekki hvernig hægt er að lesa þetta öðruvísi og ekki nema hæstv. sjútvrh. verði svolítið á bryggjunni og bendi á þá sem hann telji æskilegt að sekta hverju sinni. En til þess að bæta gráu ofan á svart í þessu frv. þá segir svo í athugasemdum með þessari 25. gr. að hún þarfnist ekki frekari skýringar. Ég veit ekki hvort sá sem hér stendur nái ekki lágmarksgreind eða meðalgreind en a.m.k. þarf ég einhverjar skýringar á þessu. Mér þætti vænt um það að formaður sjútvn. kæmi upp á eftir og upplýsti okkur um það hvort þetta ákvæði þurfi ekki skýringar við og ég vænti þess að hann geri það. Það er ljóst, virðulegi forseti, að það má ná til þessara sjómanna með öllum tiltækum ráðum og ef ekki tekst að sýna fram á að þeir hafi brotið af sér og sýna fram á sök verði þeir bara teknir á einhvern annan hátt.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Eins vildi ég vekja athygli á því, þrátt fyrir að ég muni styðja frv., að þetta frv. tekur ekki á þeim raunverulega vanda sem er uppi sem er brottkast afla. Þetta frv. gerir það alls ekki. Þegar menn setja í lög ákvæði eins og þau sem er að finna í 24. og 25. gr. fæ ég ekki betur séð en það hvetji frekar til þess en hitt að afla skuli hent. Að minnsta kosti í sumum tilvikum er verr af stað farið en heima setið.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það þar sem ég átta mig ekki alveg á því hvað verið er að fara þarna í 25. gr. að mér þætti vænt um að formaður sjútvn. kæmi upp og útskýrði þetta fyrir mér því það kemur líka fram í greinargerðinni að greinin þarfnist ekki skýringar en ég held það sé nauðsynlegt að að minnsta kosti einhverjar skýringar komi fram.