Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:56:18 (6176)

1996-05-17 12:56:18# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:56]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. þm. að hann teldi að þrátt fyrir að þessi regla yrði lögfest yrði henni beitt þannig að ekki þyrfti að óttast atriði eins og ég benti áðan á en ég held að fáir hv. þingmenn hafi einmitt bent á í umræðum að þeir óttist það mjög að stjórnvöldum sé falið vald umfram það sem nauðsyn krefur og hann hefur ítrekað haldið því fram héðan úr ræðustól að sporin hræði í þessum efnum ef löggjafinn er að fela stjórnvöldum mjög víðtækar heimildir. Þess vegna vildi ég ítreka og benda á að þegar verið er að lögfesta ákvæði um hlutlæga ábyrgð, þ.e. það þurfi ekki að sanna sök, sé það ekki í samræmi við þann hugsunarhátt sem tíðkast í nútímaréttarríkjum. Ég óska eftir að sjútvn. tæki það aftur til skoðunar hvort það liggi svo mikið við að ná að minnsta kosti einhverjum ef ekki tekst að sýna fram á sök. Ég held að það sé nauðsynlegt að skoða þetta ákvæði frekar.