Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:44:42 (6186)

1996-05-17 14:44:42# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:44]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ákveðinn kjarni máls sem spurningin stendur um, þ.e. að líta á þetta álit sem eitthvað sérstaklega gilt og kenna það við Háskóla Íslands. Það er í rauninni ekki réttmætt. Þessar stofnanir háskólans eru tæki viðkomandi kennara eða starfsmanna við deildir til þess að selja út vinnu sína. Háskóli Íslands getur tæplega haft mikið með þetta að gera. Lagadeild háskólans hefur ekkert um þetta fjallað. Þar fyrir utan getur þessi álitsgerð alveg staðið fyrir sínu sem álit viðkomandi tveggja hv. lögfræðinga sem undir það skrifa og er ekkert á móti því að sjálfsögu. Það er margt vafalaust nýtilegt sem þar kemur fram í einstökum efnum.

Ég minni á það, virðulegur forseti, að það hefur verið leitað til lögfræðinga. Til dæmis fékk fyrrv. utanrrh. mikla doðranta frá Hagfræðistofnun háskólans um kosti þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Og í sambandi við EES-málið var leitað eftir áliti tilgreindra prófessora um það hvort EES-samningurinn bryti í bága við stjórnarskrána. Einn hv. prófessor við lagadeild háskólans hafði snarsúist um 180 gráður um þetta efni á tæpu ári. Þetta er ekki merkilegra en svo í mörgum tilvikum.