Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:47:24 (6188)

1996-05-17 14:47:24# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:47]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar með álit Lagastofnunar og gildi þess. Það var ekki nefndin sem slík sem samþykkti að biðja um þetta álit. Þótt vissulega hafi ekki komið fram nein mótmæli frá minni hlutanum var það ósk meiri hlutans að beðið yrði um þetta álit.

En það sem ég ætlaði fyrst og fremst að gera athugasemd við eru aðferðirnar sem hæstv. ríkisstjórn notar til þess að réttlæta vinnubrögð sín í tengslum við þetta mál og þá fyrst og fremst forsöguna. Það er í raun og veru með ólíkindum hvað það er sem hægt er að draga upp. Ekki nóg með að að skoðanakannanir séu gerðar sem vægast sagt eru túlkaðar á mjög frjálslegan hátt, heldur vitnar hv. frsm., ef ég tók rétt eftir, í samráðsfund með fulltrúum á Alþjóðavinnumálaþinginu sl. sumar. Þegar hún talaði um samráðið og aðdraganda lagasetningarinnar vitnaði hún í einhvern fund með fulltrúum á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Mér er kunnugt um þennan fund en eftir því sem mér er sagt var þar aðeins um óformlegan spjallfund að ræða og engar samþykktir gerðar. Nú má vel vera að ég rugli þessum fundum saman, en ég vil spyrja hv. frsm. hvaða þýðingu þessi fundur hefur varðandi vinnubrögðin í tengslum við þetta frv. Hvaða samþykktir voru gerðar þar? Telur hv. frsm. slíkan fund vera lið í því sem við köllum samráð á vinnumarkaði?