Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:49:19 (6189)

1996-05-17 14:49:19# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:49]

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hér er víst um einhvern misskilning að ræða. Ég skal með ánægju lesa þennan kafla aftur upp. Hann hljómar svo, með leyfi forseta:

,,Á fyrstu fundum vinnuhópsins áttu sér stað almennar umræður um samskiptareglur aðila vinnumarkaðarins á Íslandi. Í framhaldi af þeim var talin ástæða til þess að taka til sérstakrar athugunar reglur um gerð kjarasamninga á vinnustöðum. Hefur víða verið leitað fanga um heimildir til samanburðar í þessu efni. Meðal annars áttu fulltrúar félmrn., ASÍ og VSÍ fund með fulltrúum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf sl. sumar.

Varðandi það sem fram kom um álit Lagastofnunar skal það tekið skýrt fram hér að það var ákveðið í nefndinni að leita eftir áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands. Það komu ekki fram nein mótmæli frá aðilum sem sátu þar á þeim fundi. Textinn sem var sendur upp í Lagastofnun Háskóla Íslands var saminn sameiginlega af mér og hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur sem er formaður félmn. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir skrifaði undir bréfið þannig að þetta var ekki hugmynd sem kom einungis frá okkur. Þetta var sameiginlegt í nefndinni. Það er alveg skýrt.