Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:50:43 (6190)

1996-05-17 14:50:43# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:50]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi ákvörðun var ekki tekin á fundi félmn. Það má vel vera að hún hafi verið tekin í samráði formanns og varaformanns nefndarinnar. Í raun og veru skiptir þetta ekki öllu máli. Ég hefði aldrei mótmælt því að málið væri sent Lagastofnun til skoðunar. Það er alls ekki það sem hér um ræðir. Það er einungis verið að segja að álit Lagastofnunar er ekki óskeikult. Þetta er einungis álit tveggja lögmanna. Lagastofnun tekur það fram í áliti sínu að hún felur þessum tveimur einstaklingum að gera úttekt á málinu og skoða það. Auk þess eru þessir tveir einstaklingar með allan fyrirvara á niðurstöðu sinni, sérstaklega með vísan til þess að þeir hafi fengið mjög skamman tíma til að gera grein fyrir málinu og gera álitið. Í álitinu sjálfu settu lögmennirnir tveir fyrirvara fyrir því og sá lögmannanna sem kom fyrir nefndina ítrekaði hann.