Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:54:24 (6193)

1996-05-17 14:54:24# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:54]

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að á 35. fundi vinnuhópsins fengu starfsmenn hans heimild til að semja texta um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og lögum um sáttastörf í vinnudeilum sem leiddu af hugmyndum í áfangaskýrslunni. Á 40. fundi vinnuhópsins var nýjum tillögum fylgt úr hlaði með þeim orðum að hér væri um fyrstu drög og umræðugrundvöll að ræða.

Það var síðan á formannafundi landssambanda Alþýðusambands Íslands sem ákveðið var að hafna þeim drögum og taka upp beinar viðræður við samtök atvinnurekenda með það að markmiði að hrinda tillögum vinnuhópsins í framkvæmd með kjarasamningi. Þess vegna er það hárrétt sem hér er sagt að það voru formenn landssambanda ASÍ sem settu málið í allt annan farveg og höfnuðu samráði við fulltrúa ríkisvaldsins um framvindu málsins.

Varðandi ábendingar stéttarfélaganna þá hef ég útskýrt í ítarlegu máli að það er búið að taka mjög mikið tillit til þeirra. Það er búið að taka út 1. greinina, það er búið að lækka þröskuldana og það er búið að breyta ákvæðum um það hvernig ríkissáttasemjari á að leggja fram miðlunartillögur. Frv. hefur því tekið miklum breytingum og það er vegna ábendinga stéttarfélaganna og Lagastofnunar Háskóla Íslands.