Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:25:38 (6202)

1996-05-17 16:25:38# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:25]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður virðist hæstv. ráðherra vera í eins litlum tengslum við veruleikann nú og hann var við 1. umr. málsins og það að hæstv. ráðherra skuli fara fram og hefja sína ræðu á því að frv. hafi milli 1. og 2. umr. tekið þeim breytingum sem það hefur tekið vegna þess að hann hafi tekið tillit til efnislegrar gagnrýni verkalýðshreyfingar er slík öfugmæli að ekki er hægt að sitja þegjandi undir þeim. Auðvitað eru ástæðurnar allt aðrar eins og hér hefur komið rækilega fram bæði af hálfu frsm. meiri hluta og minni hluta nefndarinnar. Það var eingöngu um það að ræða að lögfróðir aðilar sem og alþjóðasamningar sögðu einfaldlega fyrir um það þannig að hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórn hefur þvert á móti í engu komið til móts við ábendingar og athugasemdir af efnislegum toga frá verkalýðshreyfingunni. Þar situr allt við það sama og hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra þar í fararbroddi eru fullkomlega sambandslaus þegar kemur að þeim nauðsynlegu samskiptum sem við erum að fjalla um efnislega.

Það að standa fyrir framan hv. þingmenn í heilan hálftíma og dásama lýðræðið og (Gripið fram í: Sjálfan sig.) sjálfan sig, svo ég gleymi því ekki, honum finnist þetta og honum finnist hitt í nafni lýðræðisins, eru enn og aftur slík öfugmæli að það er sárara en tárum taki að hlusta á þetta allt saman þegar menn eru að fjalla um 58 ára gamla löggjöf sem er tætt sundur og saman og er auðvitað ekkert annað en hrein og klár aðför, virðulegi forseti, gegn þessu sama lýðræði þannig að hafi menn endaskipti á hlutunum þá er hæstv. ráðherra alger sérfræðingur á þeim vettvangi.