Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:33:39 (6207)

1996-05-17 16:33:39# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að hafi ég notað orðið ,,úrskurður`` um álitsgerð Lagastofnunar, hefur mér orðið fótaskortur á tungunni. Ég veit mætavel að Lagastofnun er ekki dómstóll eða úrskurðaraðili. Hún var beðin um að gefa félmn. álit og það gerði hún.

Varðandi skipulagsmálin. Nú hef ég ekki nákvæma skrá um hvernig kosningum er háttað eða hverjar kosningavenjur eru í hinum einstöku félögum. Ég er heldur ekki að leggja til að breyta þeim, enda væri það hugsanlega inngrip í innri málefni stéttarfélaganna. Ég hef ekki alhæft nokkurn skapaðan hlut en ég veit að í a.m.k. sumum stéttarfélögum er sá háttur hafður á að stærri hópurinn eða stærsti hópurinn hefur alla stjórnina og alla trúnaðarmennina. Það tel ég ekki heppilegt fyrirkomulag, alls ekki. Ég hygg að ef hv. þm. hugsuðu sig um þætti þeim það ekki bermilegt skipulag á Alþingi ef stærsti flokkurinn ætti t.d. að eiga alla þingmennina og alla ríkisstjórnina. (Gripið fram í: Og ráða stefnunni?) Það er eðlilegt að það myndist meiri hluti í fulltrúalýðræði en það er engin ástæða til þess að sterkasti aðilinn hafi öll völd. Ég held að það sé mikið atriði í okkar lýðræðisskipulagi að minni hlutinn hafi líka möguleika til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.