Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:37:23 (6210)

1996-05-17 16:37:23# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir að flytja ræðu við upphaf þessarar umræðu. Það er meira en sagt verður um ýmsa aðra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni að menn setji fram sín sjónarmið og reyni að taka þátt í málefnalegri umræðu.

Eitt vil ég gagnrýna í ræðu hæstv. ráðherra og óska eftir því að hann geri nánari grein fyrir. Það er þegar hann ýjar að því að verkalýðshreyfingin hafi lagt blessun sína yfir það frv. sem hér er. Hæstv. ráðherra segir að menn hafi ekki opinberlega fallist á þetta frv. og ekki formlega samþykkt það. Hið sanna í þessu máli er að hvert einasta verkalýðsfélag á Íslandi og öll heildarsamtök launamanna á Íslandi hafa krafist þess að frv. verði tekið út af borðinu.

Hæstv. ráðherra segir enn fremur í anda Birtings forðum að allt þetta sé til betri vegar. Á sama tíma er öll verkalýðshreyfingin að mótmæla frv. Öll verkalýðshreyfingin er að óska eftir því að það verði tekið út af borðinu og sett inn í annan farveg. Mér finnst hæstv. ráðherra líka kominn út á mjög hálan ís þegar hann vill fara að skipta sér af innra skipulagi verkalýðshreyfingarinnar. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá að engin almannasamtök í landinu eru lýðræðislegri en verkalýðshreyfingin á Íslandi. Hvergi koma eins margir einstaklingar að ákvarðanatöku og einmitt innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er mjög vafasamt, eins og hæstv. ráðherra gerði, að alhæfa um skipulag þar á bæ því að þar gilda mjög mismunandi reglur.

Að lokum vil ég segja þetta: Hæstv. ráðherra hefur sagt í ræðustóli og einnig í fjölmiðlum að verkalýðshreyfingin eigi að snúa sér að því að hækka kaupið og að laun séu of lág og það þurfi að hækka þau. Það þarf tvo til, hæstv. ráðherra, og það vill svo til að hæstv. ráðherra er í aðstöðu til þess að hækka kaupið því að hann ásamt öðrum ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn heldur um pyngjuna og stýrir streyminu þaðan út.