Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 16:42:44 (6213)

1996-05-17 16:42:44# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[16:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Hitt frv. var rætt fyrir skemmstu í mjög ítarlegum umræðum og ég ætla ekki að fara að vekja þær upp aftur.

Það er rétt að það komi fram að ég hef ekki spurt eitt einasta verkalýðsfélag um það hvort það vilji leggja blessun sína yfir þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir. Mér fyndist til of mikils mæls eftir allt sem á undan er gengið að óska eftir því að þau legðu blessun sína yfir það. Ég tel eðlilegt að menn fari í þetta mál af yfirvegun og kynni sér hvernig frv. er útbúið og hvernig þessi lög koma til með að verða. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta er ekki fullkomin lagasetning frekar en önnur lagasetning sem við vinnum að hér og vinnum þó yfirleitt eftir bestu samvisku. (ÖJ: Er þetta ekki lagasetning í anda Thatcher?) Þetta er ekkert lagasetning í anda Thatcher. (ÖJ: Og aðferðafræði hennar.) Hreint ekki. Það er fjarri lagi. Kannski hefur hv. þm. fundið einhvern thatcherisma í frv. fjmrh. en hann er ekki í þessu.