Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 17:30:33 (6215)

1996-05-17 17:30:33# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[17:30]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Önnur umræða um þetta mál er býsna alvarlegur hlutur þegar það er haft í huga að ráðleggingar stjórnarandstöðunnar við 1. umr. um að finna þessu máli annan farveg hafa ekki verið aktaðar á nokkurn máta af hálfu stjórnarliða.

Það verður að rifja upp í því sambandi að í vetur var einstakt tækifæri í uppsiglingu. Það var í fyrsta skipti í 10--20 ár sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu sest niður og ætluðu sér að breyta skipulagi á vinnumarkaði. Þetta hafði aldrei tekist áður því löggjöfin, sem við erum að eiga við, er 60 ára gömul eins og við þekkjum og er einn viðkvæmasti lagabálkur í löggjöf okkar. Þarna var í uppsiglingu hugsanleg niðurstaða sem hefði breytt samskiptareglum á vinnumarkaði. Það má benda á að þarna vorum við ekki að finna upp hjólið, aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi, heldur var þetta raunverulega sú aðferðafræði sem best hefur gefist á Norðurlöndunum sem við höfum oft og tíðum sótt fyrirmynd okkar til bæði í löggjöf og stjórnkerfi okkar. Óþolinmæði félmrh. er alkunn í þessu máli, þ.e. að rífa málið með þessum hætti út úr þeim farvegi, setja fram frv., talandi fyrir því og stuðla síðan að breytingum á frv. frá 1. umr. til þess nál. sem við erum að ræða hér.

Reyndar er samræmi í þessu frv. við annað frv. sem við höfum rætt undanfarna daga, þ.e. frv. um réttindi og skyldur. Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur sett sér það að markmiði á fyrsta starfsári sínu að breyta leikreglum á vinnumarkaði. Á það bæði við almenna markaðinn og hinn opinbera markað. Líklega hefur það verið niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna að segja sem svo að því sem við breytum ekki í grundvallaratriðum á fyrsta ári okkar eigum við líklega mjög erfitt með síðar á kjörtímabilinu. Það er alkunn regla í stjórnkerfi okkar að ríkisstjórnir reyni á fyrsta ári að ná fram ákveðnum grundvallarhugmyndum og taka þá þann slag sem því fylgir. Margt bendir til þess að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar og það sé raunverulega sú eina skynsamlega skýring sem ég hef fundið á hegðun hæstv. ríkisstjórnar því að ég ætla það og veit að þeir ráðherrar sem standa að málinu eru síður en svo nokkrir kjánar í því að meta pólitíska stöðu.

Það sem er alvarlegt í þessu efni er sú aðferðafræði sem þeir leggja upp með að breyta leikreglunum á vinnumarkaði einhliða án þess að leita til þess nauðsynlegs samráðs og hafa þann farveg nógu ítarlegan þó svo að málin hefðu vitaskuld getað komið út úr þeim farvegi, byggðan á pólitískri niðurstöðu. Það hefði vel mátt vera. Reyndar enn verr farið af stað í málinu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna því þar var ekkert samráð og engin undirbúningsvinna milli aðila í gangi en það verður ekki sagt um þetta frv. vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins voru þó að ræðast við. Það var reyndar ekki að frumkvæði núv. ríkisstjórnar heldur að frumkvæði fyrrv. félmrh. sem setti það mál í þann farveg.

Frv. það sem við ræðum er lögþvingun og inngrip inn í skipulag verkalýðshreyfingarinnar og markar lagaumgjörð kjarasamninga á mjög ótvíræðan hátt. Það er e.t.v. sú aðkoma sem er mest aðfinnsluverð varðandi þetta mál. Ekki efni frv. hvorki upphaflegt né eins og það kemur út úr 2. umr. heldur það að löggjafinn skuli ætla sér með þessum hætti að grípa inn með einhliða frv. eða einhliða lagasetningu í einn viðkvæmasta þátt lagakerfis okkar. Þessi aðferðafræði hefur ekki verið viðhöfð nokkurs staðar í kringum okkur. Einu fordæmin sem voru upplýst, m.a. í félmn., þar sem menn leituðu fordæma í Evrópa um þessa aðferðafræði, þ.e. að ríkisstjórnarmeirihluti knúði fram breytingar í ósamkomulagi og án þess að spyrja þá aðila sem málið varðar nokkuð. Eina dæmið um þetta er frá stjórnartíð Margrétar Thatcher eða Íhaldsflokksins í Bretlandi. Reyndar má finna vísi að slíku inngripi á Ítalíu en að öðru leyti þekkjast þessi vinnubrögð ekki í Evrópu.

Það er ekki að ástæðulausu, herra forseti, að í Vestur-Evrópu þar sem verkalýðshreyfingin hefur þróast sem mjög sterkt afl um áratuga skeið og mótað bæði hina faglegu vinnu verkalýðshreyfingarinnar og það samningsumhverfi sem blasir bæði hjá verkalýðshreyfingunni og hjá vinnuveitendum heldur er einnig vert að hafa í huga að einmitt þessi aðferðafræði við lagasetningu hefur haft geysilega víðtæk pólitísk áhrif. Við megum ekki gleyma því að mjög víða í nágrannalöndunum, sérstaklega á Norðurlöndum og reyndar bæði í Frakklandi og Þýskalandi og Benelúxlöndunum, svo við nefnum þau ríki sem eru nálæg okkur, eru tengsl stjórnmálaflokka og skipulagðra verkalýðshreyfinga mjög sterk. Þau eru nokkur hér á landi en til að mynda mun minni en við þekkjum frá Norðurlöndunum. Það er eiginlega miklu alvarlegri hlutur þegar ríkisstjórnin gerir það með þessum hætti að nýta sér þann mikla meiri hluta sem hún hefur á Alþingi að grípa inn með því frv. eins og hún gerir.

Varðandi innihald frv. er hægt að hafa mörg orð. Frv. gengur út á það eins og það lítur út núna að sett er upp sérstakt form við atkvæðagreiðslu við samþykkt samninga og boðun verkfalls. Þar er ný aðferðafræði. Þetta er að mati ekki einungis stéttarfélaga heldur einnig flestra sem lesa þann texta vitaskuld inngrip inn í skipulag verkalýðshreyfingarinnar. Nú hafa aðilar á vinnumarkaði samkvæmt almennu félagafrelsi alltaf heimild til þess að skipuleggja starfsemi sína á þann hátt sem þeir kjósa, vitaskuld innan þess lagaramma sem löggjafinn býður þeim. Hins vegar er með frv. lagarammanum breytt og verkalýðshryfingin þvinguð inn í skipulag sem hún kærir sig ekki um og sem hún hefur ekki fengið tækifæri til að takast á um við viðsemjanda sinn. Það er mikilvægt í þessu sambandi að einhliða inngrip af hálfu þriðja aðila í samningsumgjörð eða umgjörð sem varða deilumál tveggja annarra aðila, þ.e. verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda, er vitaskuld mjög alvarlegt mál. Þetta vegur að mínu mati mjög harkalega að ákveðnu grundvallarfyrirkomulagi í tiltölulegu ungu lýðveldi okkar. Ég man ekki til þess að menn hafi nokkurn tímann farið fram með svona aðferðafræði, nýtt sér sinn sterka meiri hluta á Alþingi til að breyta leikreglunum með almennum hætti eins og hér er gert. Við þekkjum inngrip ríkisvaldsins við kjarasamninga eins og hér hefur verið rakið. Hæstv. félmrh. gat um það að oft hefði komið fyrir að menn hefðu t.d. sett bráðabirgðalög í sambandi við kjaradeilur og allir þingmenn geta verið sammála um að vitaskuld er það ekki góð aðferðafræði en velflestir stjórnmálaflokkar hér á landi hafa einhvern tímann tekið þátt í slíkri aðgerð. Þetta er hins vegar miklu alvarlegri hlutur sem hér er að eiga sér stað þar sem sett er heildarlöggjöf í algjörri andstöðu við annan aðilann. Það er augljóst að ekki er verið að breyta leikreglunum til jafnræðis. Það er ekki gætt jafnræðis í breytingum á þessum leikreglum. Við skulum vera hreinskilin, herra forseti, og vissulega gætum við séð fyrir okkur slíka pattstöðu að hið opinbera eða löggjafarvaldið yrði að lögfesta einhverjar sanngjarnar leikreglur þótt það væri ekki með meira en þegjandi samkomulagi þeirra aðila sem standa að málinu. Það er vel hægt að hugsa sér slíka stöðu en það er langt því frá að nokkuð slíkt væri uppi á borðinu í aðdraganda þessa máls. Í stað þess er leikreglunum breytt einhliða til hagsbóta fyrir annan aðilann sem eru vinnuveitendur í landinu. Þetta er samræmi því að ríkisstjórnin hefur visst samræmi í stefnu sinni og þó að hún geri sér ekki alltaf grein fyrir því þá er ákveðin heildarsýn í þessu. Þetta á bæði við frv. um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem ómótmælanlega annar aðilinn er tekinn fram yfir hinn en þetta kemur einnig mjög skýrt fram í frv. um réttindi og skyldur þar sem staða ríkisvaldsins sem vinnuveitanda er styrkt mjög verulega. Þar er sömuleiðis sama aðferðafræðin notuð. Einhliða löggjöf án þess að hinn aðilinn fái nokkra rönd við reist.

Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir vinnustaðarfélögum sem nýju formi við samningsgerð. Ég lýsti því yfir við 1. umr. að það væri eina ákvæðið og eina hugsunin í frv. félmrh., þ.e. hugmyndin sem ég styddi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fyrirkomulag vinnustaðarfélaga gæti hentað mjög vel hér á landi þó svo að það breyti ekki því að vitaskuld setja menn ekki um það einhliða löggjöf heldur er það hugmyndafræði sem þarf að ræðast ítarlega við þá aðila sem málið varðar. Það mál fór út enda gagnrýnt mjög verulega bæði af vinnuveitendum og verkalýðshreyfingum. Og eins og þar kom fram var um að ræða verulega alvarleg inngrip inn í þá umgjörð sem menn hafa búið við.

Þær breytingartillögur hins vegar sem meiri hluti nefndarinnar gerir að öðru leyti eru smásnyrtingar á frv. en engar grundvallarbreytingar eru gerðar í því. Þó er einn hlutur sem er mjög alvarlegur og það er að hæstv. ríkisstjórn tókst að eyðileggja vinnustaðarsamninga. Það finnst mér mjög alvarlegt vegna þessa að þó svo að ég sé fylgjandi vinnustaðarfélögum þá gæti ég vel séð fyrir mér þá þróun gerast með virkari hætti en verið hefur, þ.e. að vinnustaðarsamningar mundu verða umfangsmeiri og víðtækari en raun ber vitni.

Hvernig gerir hæstv. ríkisstjórn eða meiri hluti hennar í nefndinni þetta? Hún gerir það með því að hún ætlar sér að lögbinda fyrirkomulag við vinnustaðarsamninga og sameiginlega atkvæðagreiðslu, kveðandi nákvæmlega á um ferilinn við þá vinnustaðarsamninga. Það er augljóst hvað þetta leiðir af sér. Verkalýðshreyfingin hefur sagt okkur það vegna þess að það eru mjög margir innan verkalýðshreyfingarinnar sem tala fyrir vinnustaðarsamningum þótt svo að Alþýðusambandið hafi ekki verið mikill frumkvöðull í þeim efnum undanfarin ár og áratugi. Vinnustaðarsamningar eru tiltölulega fáséðir hér, m.a. í samanburði við nágrannalöndin. Látum það vera. En þetta er eyðilagt með lögfestingu í 2. gr. frv. með því að kveða upp úr um nákvæma útfærslu við vinnustaðarsamninga og þar á meðal atkvæðagreiðsluna. Í félmn. var m.a. tekið dæmi af Flugleiðum og það hefur oft verið tekið dæmi af Flugleiðum sem heppilegs fyrirtækis fyrir vinnustaðarsamning. Það eru a.m.k. á annan tug stéttarfélaga hjá Flugleiðum og ekkert af því fólki mun vilja gera vinnustaðarsamning undir þessari löggjöf sem kveður skýrt á um að það fer fram heildaratkvæðagreiðsla milli allra félagsmanna.

[17:45]

Smærri stéttarfélög vita nákvæmlega hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að ef gerður er vinnustaðarsamningur ráða félagsmenn VR öllu um niðurstöðu hans. Hin stéttarfélögin fá ekkert tækfæri. Þau mundu kannski vilja gera vinnustaðarsamning og þau vildu kannski semja um tiltekið form atkvæðagreiðslu þar sem þeim væri e.t.v. tryggður einhver réttur. Kannski yrði það sameiginleg atkvæðagreiðsla í einum potti eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég veit það ekki. En ég veit hins vegar ósköp vel að þessi grein þýðir það að smærri verkalýðsfélög munu aldrei ganga inn í vinnustaðarsamning vegna þess að þau eru þá borin ofurliði af félagsmönnum stóra félagsins. Ég tel eitt alvarlegasta efnisatriðið, úr því að ríkisstjórnin var að breyta þessu á annað borð, að hún skyldi klúðra þessum málum. Það er eftir öðru að vilja ekki hlusta á ein einustu rök eða ábendingar sem margar hverjar eru bornar fram af hógværð og vissri þekkingu á málinu eins og hefur komið fram í athugsemdum frá verkalýðsfélögunum. Það má einnig benda á að það eru þó nokkrir þingmenn hér sem bera nokkurt skynbragð á kjarasamningagerð. En það virðist vera alveg brennt fyrir það að hæstv. ríkisstjórn eða ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi hlusti á nokkuð af þeim ráðum sem m.a. við stjórnandstöðuþingmenn höfum verið að reyna að veita. Að einhverju leyti er það vegna þess að það ríkir vanþekking á málinu, það ríkir vanþekking hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum að nokkru leyti varðandi kjarasamninga og það umhverfi sem kjarasamningar eru í. En það var mjög slæmt að þeir skyldu með þessu ákvæði ganga af vinnustaðarsamningunum dauðum. Hæstv. félmrh. þarf svo sem ekkert að trúa mér, en þetta er mitt mat á þeirri stöðu. Hann getur spurt hvern sem er úti í hreyfingunni og hann fær alltaf sama svarið. Þarna var sett vitlaust ákvæði sem mun drepa þessa annars ágætu hugmynd, þótt hugmyndin sé í sjálfu sér ekkert ný. Það hefur margoft verið talað um það og það var eitt af aðalatriðunum í nefndinni að menn vildu, a.m.k. af hálfu verkalýðsfélaganna, fara með kjarasamninga meira inn á einstaka vinnustaði.

Tengireglan var afnumin, danska tengireglan, og ég ætla ekki að fara nánar út í það. Að mati Lagastofnunar var hún talin brjóta í bága við alþjóðasamninga. Það var eitt af þeim atriðum sem fundið var að. Í áliti Lagastofnunar, og þá ekki síður þegar Tryggvi Gunnarsson hæstarréttarlögmaður kom á fund nefndarinnar, kom mjög skýrt fram að frv., jafnvel í þessu formi, er línudans. Hér er verið að dansa á línu. Hvort við erum innan alþjóðasamninga og alþjóðareglna er mikið matsatriði. Ein af afleiðingum samþykktar þessa frv. ef það verður knúið fram, og ég hef ekki neina ástæðu til að halda annað en að ríkisstjórnin ætli að halda fast við það að knýja málið fram, mun líklega verða sú að hún kallar yfir sig málaferli og hugsanlega kæru gagnvart alþjóðastofnunum. Við því er ekkert að segja. Það er hins vegar ámælisvert að menn gátu ekki gefið sér betri tíma til að kanna nákvæmlega hina lagalegu stöðu. Vitaskuld er ekkert gaman, hvorki fyrir hæstv. félmrh. eða Íslendinga almennt, hvort sem þeir eru í stjórn, stjórnarandstöðu eða stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, ef við verðum kallaðir til dóms á erlendum vettvangi. Það er eitt sem er áberandi við þetta frv. Öll verkalýðshreyfingin hefur mótmælt því mjög harðlega. Það finnst enginn talsmaður slíkrar aðferðafræði og innihaldið er harðlega gagnrýnt af öllum verkalýðsfélögum á landinu. Það er hins vegar stuðningur við frv. eins og ég hef getið um áður. Hann kemur frá vinnuveitendum og það endurspeglar það sem ég hef sagt. Hér var leikreglunum breytt einhliða.

Ríkisstjórnin hugsaði þetta mál ekki til enda og það gafst ekki tækifæri til að skoða það í víðara samhengi. Ég hef trú á að vinnuhópurinn hafi einmitt verið að vinna að því og verið að reyna að brjótast út úr miðstýrðu umhverfi kjarasamningsgerðar. Ég tel mjög til bóta ef það væri hægt. Hluti af því eru t.d. vinnustaðarsamningar í einhverju skipulögðu formi. En einn hlutur í þessu máli gleymist algerlega og hefur verið bent á það hér í umræðunni. Það er skipulag vinnuveitenda. Það er miðstýrt skipulag eins og menn vita og nú verðum við að vera sanngjörn, herra forseti. Vitaskuld gildir félagafrelsi líka gagnvart vinnuveitendum. Þeir hafa rétt til að skipuleggja sig með þeim hætti sem þeir kjósa. Þeir hafa kosið að skipuleggja sig þannig að það er einungis einn aðili sem fer með samningsumboð Vinnuveitendasambandsins. Einstök fyrirtæki gera það ekki og heldur ekki einstaka starfsgreinasambönd. Vinnuveitendasambandið er skipulagt eins og Alþýðusambandið í starfsgreinasambönd. Menn þekkja þau, Samtök iðnaðarins, Samtök fiskvinnslustöðva, Landssamband íslenskra útvegsmanna, svo nokkur séu nefnd. Þetta eru starfsgreinasambönd Vinnuveitendasambandsins. Þau fara hins vegar ekki með samningsumboð og þau mega ekki gera kjarasamninga, hvað þá að einstök fyrirtæki megi gera kjarasamninga. Hampiðjan má ekki gera einn einasta kjarasamning. Samtök iðnaðarins, sem Hampiðjan er í, má ekki gera einn einasta kjarasamning. Samningurinn verður að vera gerður af heildarsamtökunum, Vinnuveitendasambandinu, og samþykktur þar í æðstu stjórn þess. Það hefur komið fyrir menn hafi viljað komast hjá kjarasamningi. Eitt dæmi er a.m.k. til um undirritaðan kjarasamning, sem var reyndar undirritaður að því er ég best veit af framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, en hann var ekki staðfestur formlega í framkvæmdastjórn eða af sambandsstjórn Vinnuveitendasambandsins. Þegar kom í ljós að menn vildu bakka út úr þeim samningi þótt þeir hefðu skrifað nafnið sitt undir hann var farið í mál og vinnuveitendur unnu málið vegna þess að það vantaði samþykki æðstu stjórnar Vinnuveitendasambandsins á hann. Undirskrift framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins dugði ekki. Þetta sýnir kannski betur en margt annað hvernig atvinnurekendur hér á landi hafa verið að breyta skipulagi sínu. Þeir hafa verið að breyta skipulagi sínu sl. 10 ár í átt til miðstýringar.

Innan Vinnuveitendasambandsins koma landssamböndin vitaskuld að kjarasamningsgerð. Þegar gerðir eru kjarasamningar t.d. við iðnaðarmenn koma vitaskuld forsvarsmenn iðnfyrirtækja að þeim samningum en það er alltaf undir forustu aðalskrifstofu Vinnuveitendasambandsins í Garðastræti. Nákvæmlega það sama gerist í kjarasamningum sjómanna. Þar er uppistaðan samninganefnd Vinnuveitendasambandsins sem í eru vitaskuld fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna. En það breytir engu. Kjarasamningsgerðin er líka miðstýrð á þessum vettvangi og þess er vandlega gætt að sú miðstýring haldi út í gegn. Menn mega ekki, ef þeir eru aðilar að Vinnuveitendasambandinu, gera kjarasamning. Það er réttur vinnuveitenda að skipuleggja sig með þessum hætti. Þeir hafa hins vegar á undanförnum áratug verið að færast meira yfir til miðstýringar í beitingu á þessu skipulagsformi sínu. Við sáum síðasta dæmið nú um daginn, eins og hér hefur verið vakin athygli á í umræðunni, að oft eru eftirmál vegna kjarasamninga látin eiga sig. Hér er rangt að tala um einhverja sakaruppgjöf. Það er enginn að tala um að einhverjir hlutir hafi verið saknæmir í þessu sambandi. En menn hafa oft rætt um að atburðir sem gerast kannski í harðvítugri kjaradeilu ættu ekki að verða að dómsmáli. Eftir breytingar Vinnuveitendasambandsins á lögum sínum núna í vikunni eða í síðustu viku er þetta óheimilt. Það er enn og aftur verið að tryggja miðstýringuna. Og þetta, herra forseti, er raunverulega eitt það alvarlegasta í skipulagi á okkar vinnumarkaði.

Þótt stéttarfélögin séu með svipaða uppbyggingu og Vinnuveitendasambandið, þ.e. verkalýðsfélögin fara með samningsumboðið en síðan koma starfsgreinasambönd, hvort sem það er Verkamannasambandið, Rafiðnaðarsambandið eða önnur sambönd sem sameinast í Alþýðusambandinu, er samningsrétturinn ótvíræður hjá einstöku verkalýðsfélagi. Þar er sömuleiðis kveðið skýrt á um í lögum og reyndar tryggt í alþjóðasamningum og í stjórnarskrá að verkalýðsfélögin geta samþykkt að framselja samningsumboð sitt til starfsgreinasambands, landshlutasambands eða til heildarsamtakanna, Alþýðusambandsins. Það fer þá með samningana fyrir þeirra hönd eins og oft hefur gerst. Þetta skipulag er ekki fyrir hendi vinnuveitendamegin og það skapar strax ójafna stöðu. Ef menn eru að reyna að setja löggjöf sem á að reyna að færa samningsgerðina meira út í fyrirtækin og auka lýðræðið, eins og stundum er notað sem röksemd í þessu máli, verða menn vitaskuld að skoða báðar hliðarnar. Það er ekki gert í þessu frv. Og þegar við erum að mótmæla inngripi í skipulag verkalýðshreyfingarinnar má alveg með sömu rökum segja: Á löggjafinn að setja lög um það hvernig Vinnuveitendasambandið skipuleggur sig? Ég segi nei. Það er ekki hlutverk löggjafans að takmarka félagafrelsi og skipulagsfrelsi þeim megin, enda á það ekki að vera tilgangur endurskipulagningar á vinnumarkaði.

Við skulum hafa í huga að við höfum t.d. sótt fyrirmynd okkar til Danmerkur og upprunalega er frv. byggt á danskri fyrirmynd. Þó ekki þá aðferðafræði að lögfesta það með þessum hætti, sem er alveg fráleit hugsun. Það hefur verið rakið hér mjög ítarlega, nú síðast af hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, að þótt Vinnuveitendasambandið þar séu líka heildarsamtök þá er samningagerðin sjálf af hálfu vinnuveitenda úti á vinnustöðunum. Þetta er ákveðinn hugsunarháttur sem þar ríkir við kjarasamningsgerðina. Sá hugsunarháttur er ekki til hjá vinnuveitendum hér á landi, því miður. Við þessa endurskoðun á leikreglum á vinnumarkaði hefði hugur þurft að fylgja máli, þ.e. að báðir aðilar hefðu með skipulögðum hætti og í sátt breytt sínum leikreglum. Það má taka sem dæmi að Útgerðarfélag Akureyringa vildi gera kjarasamning og starfsfólkið líka. Jafnvel þótt öll stéttarfélögin, verkalýðsfélögin sem vinna hjá Útgerðarfélagi Akureyringa vildu gera slíkan samning, mætti Útgerðarfélag Akureyringa ekki gera hann samkvæmt lögum VSÍ. Sá samningur yrði að vera gerður af hálfu Vinnuveitendasambandsins þótt ég gerði fastlega ráð fyrir að í þeirri samninganefnd mundu forsvarsmenn Útgerðarfélags Akureyringa skipa mjög stóran sess. En það breytir ekki því að þessi samningsgerð yrði undir miðstýrðri forustu Garðastrætisins eins og oft er sagt.

[18:00]

Það er eiginlega það átakanlega varðandi alla umræðuna að vinnuveitendamegin, þetta á við ríkisvaldið líka því frv. fjmrh. endurspeglar sömu miðstýringarhugsunina, skuli ekki örla á breytingum í hugsunarhætti gagnvart skipulagi á vinnumarkaði sem gæti m.a. falist í því að fyrirtækin kæmu með virkari hætti inn í samningsgerðina. Það segir sig náttúrlega sjálft að ef miðstýrður aðili gerir vinnustaðarsamningana þá passa menn að gera það sem oft er gert í kjarasamningum, þ.e. að semja um lágmarkið og leyfa starfsfólkinu ekki að njóta til að mynda góðrar stöðu fyrirtækisins eins og er mjög algengt annars staðar og raunverulega alls staðar í kringum okkur.

Þessi galli á löggjöfinni að fara inn í löggjöfina með einhliða breytingu í þágu annars aðilans, sem ætlar engu að breyta starfsháttum sínum, gerir þessa atlögu að verkalýðshreyfingunni enn þá alvarlegri. Hendur verkalýðshreyfingarinnar eru bundnar við samningsgerð með þessu frv. á sama tíma og mótaðilinn eflir miðstýringu sína til að geta mætt af enn þá meiri hörku þeim aðilum þegar að kjarasamningsgerð kemur. Það kemur skýrt fram í umsögnum með þessu frv., t.d. frá Alþýðusambandinu, miðstjórn Alþýðusambandsins, sem lýsir yfir fullkominni andstöðu við frekari þinglega meðferð framkomins frv. um breytingar á vinnulöggjöfinni og krefst þess að samningsaðilar vinnumarkaðarins fái svigrúm til að gera frjálsa samninga um samskiptareglur sín á milli. Alþýðusambandið er ekki að neita því að sest verði að vinnu við að endurskipuleggja vinnumarkaðinn. Alþýðusambandið er ekki að segja að allt eigi að vera óbreytt eins og það hefur verið síðustu 60 árin. Síður en svo. Alþýðusambandið sem er að hefja þing eftir næstu helgi er með mikið af tillögum sem varða skipulag á vinnumarkaði sem mundi hugsanlega kalla á breytingar á löggjöf ef þær næðu allar fram að ganga. Það eina sem Alþýðusambandið er að biðja um er að fá að tala við viðsemjanda sinn á jafnréttisgrundvelli til að gera frjálsa samninga um samskiptareglur sín á milli. Þetta er aðalatriðið í málinu.

Mig langar til að vitna í ályktun sem barst félmn., sem er frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, Verkamannafélaginu Dagsbrún og Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, ég held að þær hafi verið meira og minna samhljóða, eða þau skiluðu sameiginlegu áliti. Þetta er a.m.k. svona í samantekt nefndadeildar þingsins. Í umsögn um frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Frumvarpið stefnir þeirri þróun í voða og er afturhvarf`` --- það er verið að tala um kjarasamninga sem skapa festu í efnahagsmálum --- ,,til fyrri áratugar þessarar aldar þegar stéttarfélög hófu baráttu fyrir frumréttindum sínum. Frv. er vægast sagt vanhugsað og lagalega götótt þannig að samningsaðilum verður í lófa lagið með löglegum aðferðum að sniðganga tilgang frv. og riðla framkvæmd laganna með þeim afleiðingum að núgildandi lög verði aftur óskabarn ríkisvalds og samtaka atvinnurekenda. Meint réttindi og frelsi annarra eða almannahagsmunir réttlæta alls ekki þau fjandsamlegu afskipti ríkisvaldsins með frv. af innri málum og skipulagi stéttarfélaga. Frv. hefur þegar skapað mikla ólgu sem ekki sér fyrir endann á. Lögfesting þess gegn vilja félaganna mun á engan hátt leysa þau vandamál sem frumvarpshöfundar telja að blasi við. Þvert á móti mun það í bráð og lengd torvelda gerð kjarasamninga og leggja grunn að harðvítugum og langvinnum kjaradeilum og verkföllum, málaferlum og öðrum skærum. Vilji ríkisvaldið í skjóli þingmeirihluta víkja af braut núgildandi vinnulöggjafar og samskipta og afskipta af innri málum og skipulagi félaganna í anda frv. felur það í sér stríðsyfirlýsingu. Þeirri stríðsyfirlýsingu munu undirrituð félög svara með öllum tiltækum ráðum á næstu missirum og árum. Félögin krefjast þess að frv. verði dregið til baka nú þegar og að samningsaðilar semji sjálfir um samskiptareglur sín á milli.``

Herra forseti. Þetta var úr álitsgerð Dagsbrúnar, Sjómannafélags Reykjavíkur og Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Ég held að í ummælunum hafi verið komist nokkuð skýrt að orði og alveg ljóst hvernig verkalýðshreyfingin metur þessa einhliða aðgerð. Nú eigum við væntanlega að ræða eitthvað um afleiðingarnar því það er greinilegt að frv. er að verða að lögum. Ég nefndi áðan að það er mjög líklegt að það kalli á málaferli. En það sem er e.t.v. mikil hætta á og margir hafa bent á er að þjóðarsáttinni, sem var sameiginlegt átak verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda, ríkisvaldið kom ekki þar að fyrr en búið var að teikna allar útlínur þeirrar efnahagsstefnu, verði stefnt í hættu. Enginn stjórnmálaflokkur getur þakkað sér þjóðarsáttina, það voru aðilar vinnumarkaðarins sem útfærðu þá hugsun og hún náði fram að ganga í kjarasamningum 1990. Það eru sex ár síðan. Þessi þjóðarsátt, við getum kannski kallað það afurhvarf frá verðbólgu frekar en þjóðarsátt, þ.e. að hverfa frá verðbólgunni eins og við þekktum, margfaldri verðbólgu á við nágrannalöndin, þeirri verðbólgu sem var að eta upp allt efnahagskerfi okkar og þjóðfélag. Með framgöngu ríkisstjórnarinnar er hætta á að þjóðarsáttinni sé stefnt í voða. Það er mjög líklegt og verkalýðshreyfingin hefur sagt alveg skýrum orðum að hún ætlar sér að reyna að brjóta þessi lög á bak aftur í næstu kjarasamningum. Það er líklegt að það komi til verkfalla, ekki einungis í þeirri kjarabaráttu, þ.e. baráttu fyrir hærri launum og meiri kaupmætti, því sem menn venjulega takast á um í kjarasamningum, heldur einnig til viðbótar kemur það að reyna að hrinda þessari löggjöf sem verður þá líklega komin í gildi.

Annar þáttur í þessu, sem mun líka hafa afleiðingar mörg ár fram í tímann, er að það hefur orðið trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur oft gerst áður. En það hefur orðið trúnaðarbrestur milli aðila vinnumarkaðarins. Það er orðið býsna langt síðan það hefur gerst. Ég nefndin árið 1990 sem dæmi um að menn gátu náð saman um ákveðna efnahagsstefnu sem hefur komið okkur vel áleiðis þótt svo menn hafi raunverulega allan þann tíma einnig verið að takast á um kaup og kjör.

Það er augljóst að þegar ríkisvaldið breytir einhliða leikreglum á kostnað annars aðilans og fær einungis stuðning frá hinum aðilanum, þ.e. vinnuveitendum, er orðinn trúnaðarbrestur milli verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda í landinu. Sá trúnaðarbrestur sem menn þekkja síðast varð 1989 þegar opinberir starfsmenn gerðu kjarasamning við ríkið og hann var afnumin með lögum ári seinna. Þá var trúnaðarbrestur milli ríkisins, vinnveitenda og stéttarfélaga á opinberum markaði. Varla er gróið yfir þau sár sem fylgdu í kjölfar þess trúnaðarbrests enn þann dag í dag. Sú atlaga og sú löggjöf sem hér er verið að leggja upp með mun líklega hafa víðtækari afleiðingar en það inngrip sem voru kjarasamningar sem gerðir voru á sínum tíma og var það nógu alvarlegt út af fyrir sig. Þessu virðist ríkisstjórnin ekki gera sér neina grein fyrir og hvað þá meiri hluti félmn. sem hefur e.t.v. ekki þá sýn á kjarasamningsumhverfi sem nauðsynlegt er.

Ríkisstjórnarflokkunum virðist vera sama um þetta. Úr því að þeir hafa þetta mikla kjörfylgi og þetta góða fylgi í skoðanakönnunum halda þeir að þeir geti gert allt. Þeir halda að þeir geti gengið yfir skipulagða verkalýðshreyfingu í landinu með þessum hætti eins og þeir gera og segja sem svo, það eru nokkrir formenn að mótmæla. Hæstv. félmrh. sá ekki marga menn 1. maí sem mótmæltu þessu og þeir halda eins og komið hefur skýrt fram hjá þeim fáu stjórnarþingmanna sem hafa talað í þessum málum að þessir hlutir gleymist og það verði fennt yfir þá þegar kemur að næstu kjarasamningum. Spá mín er að svo verði ekki og það séu mjög harkalegir kjarasamningar fram undan. Engin tilraun er gerð í þessu frv. til að auka atvinnulýðræði á íslenskum vinnumarkaði. Vakin var athygli á því við 1. umr. málsins hvort ekki væri athugandi að binda í lög hluti sem þekkjast mjög vel í nágrannalöndum okkar að starfsmenn fái með ákveðnum hætti aðild að stjórnun fyrirtækja. Það er líka hægt að sjá það gerast í opinberri þjónustu að stéttarfélög komi meira að ákvarðanatöku þar en nú er gert. Það örlar ekki á slíkri hugsun í umræðunni af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Í Asíu er t.d. skipulögð verkalýðshreyfing á nokkru undanhaldi á meðan einstaklingsbundnir kjarasamningar hafa rutt sér þar mjög til rúms. Það er svipað fyrirkomulag og menn þekkja í Nýja-Sjálandi, það hefur verið rakið í umræðunni og hefur ekki reynst neitt sérstaklega vel og er þar að auki í andstöðu við hefð á vinnumarkaði okkar og þróunina í þeim nágrannalöndum sem við berum okkur saman við.

Athygli hefur verið vakin á því --- og það væri mjög fróðlegt ef hæstv. félmrh., sem ég sé að er nú gufaður upp, annars er hann nú býsna duglegur að fylgjast með umræðunni. (Gripið fram í: Það þarf nú nokkuð til.) Ég sé að það er enginn stjórnarliði, jú, hv. þm. Magnús Stefánsson er í salnum og hann getur þá borið skilaboð okkar til hæstv. ríkisstjórnar. Ég geri þá ráð fyrir að hann svari líka fyrir Sjálfstfl. Það er merkilegt að í umræðunni um réttindi og skyldur sást ekki nokkur framsóknarmaður og við umræður um stéttarfélög og vinnudeilur þá sést enginn sjálfstæðismaður. Það sýnir þá virðingu sem þessir þingmenn bera gagnvart bæði málinu og Alþingi.

Það hefur verið nefnt hvort ekki ætti að útfæra þetta í anda lýðræðis sem menn vilja auka, hvort ekki ætti að vera atkvæðagreiðsla milli allra félagsmanna Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins áður en þessi mál tækju gildi. Ég held að það væri mjög athyglisvert að fá að vita frá hæstv. félmrh. hvort hann mundi ekki vilja beita sér fyrir því fyrst honum er annt um lýðræðið að það sé meiri þátttaka í samningaferli eins og gert er ráð fyrir í tillögugreinum frv. Þetta mál er vitaskuld hápólitískt. Mér kemur ekki á óvart að Sjálfstfl. gangi fram fyrir skjöldu með einhliða breytingum á leikreglum á vinnumarkaði. Það kemur mér ekki á óvart. Mat mitt á Sjálfstfl. hefur verið það þrátt fyrir að hann sé líklega stærsti launþegaflokkur landsins. Alltaf þegar skerst í odda hefur hann tekið ákveðna hagsmuni fram yfir aðra og það hafa verið hagsmunir vinnuveitenda og hagsmunir fyrirtækja. Menn geta skoðað hvernig Sjálfstfl. hefur tekið afstöðu á undanförnum árum, hann tekur að vísu mjög sjaldan afstöðu, þó kemur það fyrir, þá hefur hann aldrei gengið á hagsmuni þessa hóps. Við erum að sjá stefnu Sjálfstfl. mjög skýrt í þessu frv., um stéttarfélög og vinnudeilur og reyndar í öðrum frv. Það sem er hins vegar athyglisvert er Framsfl., sem er með Sjálfstfl. í framkvæmd stefnu sinnar, miðað við þau kosningaloforð sem Framsfl. gaf. Nú eigum við stjórnarandstæðingar ágætan sérfræðing í málefnum og stefnuskrá Framsfl., gott ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson er ekki á mælendaskrá á eftir mér og hann kann betur að lýsa loforðum og efndum Framsfl. (ÖS: Sálarlífi þeirra.)

[18:15]

En það er eitt sem Framsfl. er að gera, kannski ekki með þessu ríkisstjórnarsamstarfi því hann hefur starfað áður með Sjálfstfl. En með þessum frv. og með þessari stefnu segir hann skilið við að geta kallað sig launþegaflokk og hann segir skilið við að geta kallað sig vinstri flokk. Það er dálítið merkilegt vegna þess að hæstv. félmrh., sem á nokkuð langan pólitískan feril að baki, var alltaf vinstri maðurinn í Framsfl. Hann var sá aðili í Framsfl. sem kunni hvað best þegar á reyndi að gæta þess að hagsmunir launþegahreyfingarinnar væru ekki fyrir borð bornir. Nú hefur hann kúvent enda orðinn ráðherra. Þó hann hafi verið valdamaður nokkuð lengi eru þessar gömlu hugsjónir og hugmyndir og ræður allar gleymdar. Vinstri hliðin á Framsfl. er kalin. Ég veit ekki hvort hún kemur einhvern tímann aftur. Þeir hafa oft kúvent rétt fyrir kosningar og náð árangri með því. Kannski gera þeir það aftur í von um að menn gleymi loforðunum þegar kemur aftur að kosningum eftir fjögur ár. Oft hafa kjósendur ekki langtímaminni. Ég ætla ekki að spá um það. Það er skýrt í þessu máli að frv. er einhliða aðgerð sem hefur ekki þekkst um áratuga skeið til að rétta hlut eins aðila á kostnað annars. En það er samræmi í þessu, þetta endurspeglast í frv. á opinberum vinnumarkaði. Mér finnst þetta endurspeglast í afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á fjárlögum í haust, í stjórn Framsfl. á heilbrigðismálum og velferðarmálum hvað þeir bera skarðan hlut frá borði sem minnst mega sín í þeim málaflokki. Mér finnst þetta líka endurspeglast í þeim aðgerðum sem verið er að ræða á öðrum vettvangi sem tengist fjármagnstekjuskatti þar sem veittar eru geysilega miklar ívilnanir til þeirra sem meira mega sín.

Mér kemur hlutverk Sjálfstfl. í þessari stefnumótun ekki á óvart. Hann hefur oft og tíðum talað þannig og hann hefur alltaf tekið þá afstöðu sem ég lýsti áðan þegar á reyndi. Nú hefur hann tækifæri með miklum meiri hluta og stuðningi Framsfl. að knýja fram stefnu sína. Hreyfing eins og Sjálfstfl. nýtur erlendis um 20--30% fylgis en hér á landi um 40% og það er m.a. vegna launþegafylgis flokksins. Spá mín er hins vegar sú að launþegar uppgötvi smátt og smátt hið rétta andlit Sjálfstfl. og e.t.v. fær þá Sjálfstfl. aðra niðurstöðu í næstu kosningum. Ég ætla ekki að spá um það, það kæmi mér svo sem ekki á óvart. Hins vegar finnst mér að í þessu máli hafi myndast mjög merkileg samstaða allra stjórnarandstöðuflokkanna því oft hafa þeir rifist, a.m.k. fyrir kosningar. Mér finnst mjög merkileg samstaða hafa myndast á Alþingi milli allra þessara stjórnarandstöðuflokka sem hér starfa og verkalýðshreyfingarinnar í andstöðu við þá sýn sem og framtíðarsýn sem ríkisstjórnin er að lögfesta því að hér er auðvitað verið að marka stefnu. Það er ekki nein tækniumræða sem hér á sér stað. Hér er verið að marka pólitíska stefnu langt fram á næstu öld með afgreiðslu þessara frv. því lögin eru býsna gömul og með þessari aðferðafræði er verið að lögfesta stefnu langt fram á næstu öld. Þess vegna finnst mér mjög merkileg sú samstaða sem stjórnarandstöðuflokkarnir og verkalýðshreyfingin hafa náð í málflutningi. Þeir eru einróma andsnúnir þessari stefnu. Við bjóðum upp á aðra möguleika, aðrar leiðir og um það snýst pólitík að fólk fái tækifæri til að velja milli skýrt afmarkaðra leiða. Ég held að þessi slæmu frv. ríkisstjórnarinnar geri það að verkum að pólitísk skil í landinu verða miklu skarpari og gleggri á næstu árum.