Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 18:28:22 (6219)

1996-05-17 18:28:22# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[18:28]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það þyrfti að flytja langa ræðu um Marx og kenningar hans hér því ég heyri greinilega að þingmaðurinn er ekki vel kunnugur þeim fræðum en látum það nú vera. En þegar ég tala um blómlegt atvinnulíf er ég að benda á það að þetta frv. hefur ekkert með eflingu atvinnulífs að gera. Einu afleiðingarnar sem þetta frv. mun hafa er að setja samskipti á vinnumarkaði í uppnám og hugsanlega að rústa þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum. Þetta frv. er andstætt þeirri hugmyndafræði að byggja upp blómlegt atvinnulíf, hv. þm.

Við þurfum að hafa í huga að Sjálfstfl. er kannski ekki stjórnmálaflokkur með stórar og miklar hugsjónir. Hann er laustengt hagsmunabandalag, stór flokkur sem hefur valdastöðu sína fyrst og fremst vegna þess mikla fylgis sem hann nýtur. Ég er fyrsti maður til að viðurkenna það að kjósendur vilja þetta. Kjósendur hafa alltaf rétt fyrir sér. Ég geri ekki athugasemdir við að kjósendur velji Sjálfstfl. eins og hann er og hefur verið í málflutningi sínum. Í mínum huga er niðurstaða kosninga alltaf heilög. Ég hef hins vegar spáð því, herra forseti, að smám saman renni upp fyrir fleirum að e.t.v. standi ekki mjög mikið á bak við þá hugmyndafræði sem tengist launafólki í hinni praktísku stefnu Sjálfstfl.