Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 18:30:25 (6220)

1996-05-17 18:30:25# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[18:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á mjög mörg atriði og ég hlýddi á hana í herbergi mínu. En ég er með eina spurningu til hv. þm. Að mínu mati er vandi verkalýðshreyfingarinnar sá að félagsmenn hennar eru ákaflega óvirkir. Þeir mæta ekki á fundi og þeir sækja ekki kosningar hjá félögunum. Þetta stafar vafalaust að einhverju leyti af ,,skylduaðildinni`` sem aftur á móti stafar af því að ef menn voga sér að segja sig úr stéttarfélagi þá missa þeir vinnuna. (Gripið fram í: Sums staðar er 90% þátttaka.) Fyrirspurninni er beint til hv. þm. en ekki til þingmanna hér úti í sal. Getur hv. þm. bent á eitthvert dæmi um að frv. hafi áhrif á sæmilega virk félög sem geta vænst þess að rúmur helmingur félagsmanna taki þátt í starfi þeirra og taki þar af leiðandi þátt í kosningum og öðru slíku? Hv. þm. kvartar undan því að sjálfstæðismenn láti ekki sjá sig. Við erum að sinna ýmsum störfum og ég var í mínu herbergi og hef hlustað á alla umræðuna hingað til. Fyrir nokkrum dögum var hér umræða þar sem haldnar voru 40 ræður á 36 tímum um u.þ.b. 20 atriði. Ég byrjaði að hlusta á þá umræðu og það sem gerist þegar ræðutími er svo yfirþyrmandi er það að góð rök, sem menn hafa undirbúið vel og vendilega, týnast. Þau komast hreinlega ekki til skila. Ég ætla að biðja hv. þm. um að hugleiða hvort það sé ekki betra að menn séu gagnorðari og séu ekki að tyggja upp rökin hver eftir öðrum aftur og aftur.