Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 10:39:03 (6226)

1996-05-18 10:39:03# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[10:39]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mjög mikilvægt mál sem þarf að ræða vandlega. Ég ætla að byrja á að vitna í nokkur orð úr stefnuskrá Kvennalistans. Þar segir að Íslendingar eigi að hafa forustu um að settar verði reglur um veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum og að samningum verði náð milli þeirra þjóða sem nýta sameiginlega þau svæði. Það þótti því mjög eðlilegt að taka þátt í starfi úthafsveiðinefndar sem samdi þetta frv. Fyrst sat í nefndinni, þáv. þingkona Kvennalistans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, en eftir kosningarnar vorið 1995 tók ég sæti í nefndinni. Auk fulltrúa stjórnmálaflokkanna sátu í nefndinni fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi ásamt embættismönnum sjútvrn. eins og komið hefur fram. Nefndarstarfið var um margt mjög fróðlegt og var gagnlegur samráðsvettvangur þingflokka og hagsmunaaðila um úthafsveiðimál og samningaviðræður við erlend ríki um þau efni.

Frumvarpsvinnan sjálf hófst ekki fyrr en eftir að úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lauk með samkomulagi um nýjan alþjóðasamning í ágúst sl. Fljótlega var ljóst að ekki næðist samkomulag um þetta frv. og að einstakir nefndarmenn hefðu fyrirvara við einstakar greinar frv. og jafnvel frv. í heild eins og segir reyndar í skilabréfi nefndarinnar. Ég vil því undirstrika að það frv. sem hér liggur fyrir er alls ekki sameiginleg niðurstaða nefndarinnar. Fljótlega kom í ljós að í raun var enginn vilji í nefndinni til að ræða um grundvallarforsendur. Hvaða grundvallarforsendum eigi að ganga út frá og því fór í raun ekki nein grundvallarumræða fram í nefndinni eða að minnsta kosti ekki sú grundvallarumræða sem ég hefði talið nauðsynlega.

Stefna ríkisstjórnarinnar og flestra hagsmunaaðila fór saman og því fór sem fór. Greinargerðin birtist t.d. alsköpuð á einum af síðustu fundum nefndarinnar. Ég fór þá fram á að bæta inn eins og einni setningu um forsendur nefndarinnar en það fékkst ekki samþykkt. Bent var á að við þingmenn gætum gert athugasemdir í þingsölum.

Í greinargerð frv., þessari sem ég ætlaði að gera athugasemdir við stendur á bls. 9, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið byggir að miklu leyti, þar sem við getur átt, á þeim meginsjónarmiðum sem gilt hafa um stjórn fiskveiða innan efnahagslögsögu Íslands hin síðari ár. Þar sem í núgildandi lögum um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 34/1976, er gert ráð fyrir því að ráðherra geti sett þær reglur sem honum þykir þurfa, svo sem til samræmingar við reglur í fiskveiðilandhelgi Íslands er því, að þessu leyti, ekki um neina byltingu að ræða.``

Þarna vildi ég vekja athygli á því að nokkrir nefndarmanna, einkum fulltrúar Kvennalistans og Alþfl., töldu alls ekki sjálfgefið að fara þær leiðir sem farnar eru í þessu frv. Ég tel t.d. að meira tillit hefði átt að taka til 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna frá árinu 1990, þ.e. sameignarákvæðinu um nytjastofnana og til þeirrar grundvallarreglu að úthafsveiðar séu frjálsar í stað þess að hlaða enn frekar undir þá sem fengu kvótann gefins árið 1984. Þetta er grundvallaratriði sem verður að koma skýrt fram. Það er að mínum dómi nógu mikið misrétti sem felst í því hvernig núverandi lög um stjórn fiskveiða eru útfærð, þ.e. þessi mikla mótsögn á milli 1. gr. og annarra greina, þó ekki sé það einnig ætlunin að færa úthöfin og allar úthafsveiðarnar í hendur sömu aðila og nú eiga kvótann í fiskveiðilögsögunni. Kvótann sem samkvæmt lögum er sameign þjóðarinnar allrar en ekki bara þeirra sem ,,eiga`` núverandi kvóta.

Hvernig hafa úthafsveiðarnar, sem hafa vissulega verið mjög merkilegt innlegg í og merkileg viðbót við okkar fiskveiðar á undanförnum árum, verið fjármagnaðar? Þær hafa verið fjármagnaðar með því að núverandi kvótaeigendur hafa leigt út fiskveiðiheimildir sínar og gert alla aðra að leiguliðum til þess að ná veiðireynslu og ná undir sig úthafsveiðunum á grundvelli kvótans frá 1984. Nú á þessi veiðireynsla þeirra á úthöfunum að færa þeim sérstakan rétt til úthafsveiða umfram alla aðra.

[10:45]

Ég vil taka fram að vissulega hefur í mörgum tilvikum verið um áhættusamar frumkvöðulsveiðar að ræða. Ég tel fullkomlega réttlætanlegt í frv. að ráðherra sé heimilt að láta þessa frumkvöðla fá, eins og þarna er ætlunin, 3% heildaraflans úr flökkustofnum svokölluðum eins og síld og loðnu og 5% heildaraflans úr öðrum stofnum, sbr. 5. og 6. gr. frv. Slíkt getur vel átt við enda geri ég ekki athugasemdir við það atriði sem slíkt.

Það má segja að ég geti að miklu leyti sætt mig við ákvæði fyrstu fjögurra greina frv. þótt það sé t.d. ekki alveg ljóst við hvað er átt í 4. gr., þar sem segir að veita eigi leyfi til skipa sem fullnægja skilyrðum laga um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Því vil ég spyrja hæstv. sjútvrh., hvort þarna er eingöngu átt við þau skip sem eiga aflahlutdeild í efnahagslögsögu Íslands eða hvort þarna er átt við skip sem sigla undir íslenskum fána. Mér er ekki alveg ljóst þegar ég les þetta yfir hvað átt er við með þessu ákvæði.

7.--16. gr. frv. eru að mínu mati einnig nokkuð ásættanlegar. Enda alls ekki mikill ágreiningur um þær innan nefndarinnar. Ég tel að margt það sem þar er sagt um nauðsynlegt veiðieftirlit sé mjög mikilvægt.

Þó 1. mrg. 10. gr. sé umdeild, þ.e. hvort banna eigi erlendum skipum sem veiða í trássi við alþjóðasamninga í hafinu í kringum Ísland að landa hér afla eða fá þjónustu, virðist alveg ljóst að það hentar íslenskum fiskihagsmunum að hafa þetta ákvæði svona á meðan veiðireynsla vegur þungt í alþjóðasamningum og það virðist vera sjónarmið t.d. þeirra úthafsútgerða sem stunda veiðar á Flæmingjagrunni og víðar. Það virðist vera að fólk sé að keppast við að afla sér veiðireynslu og því getur verið varhugavert að við heimilum slíkar landanir því þá auðveldum við öðrum þjóðum t.d. veiðar á Reykjaneshrygg. Frá þessu sjónarmiði finnst mér því 1. mgr. 10. gr. mjög eðlileg þó talsmenn samtaka iðnaðarins og Útflutningsráðs og fleiri hafi bent á að við þetta hafi tapast mjög mikil viðskipti sem beinist til nágrannalandanna í staðinn, t.d. Færeyja. Þarna þyrfti að nást samstaða við nágrannalöndin því það þjónar litlum tilgangi að loka einir á erlend skip. Hins vegar er ljóst að þegar úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna tekur gildi verða Íslendingar samningsbundnir til að veita ekki þjónustu skipum sem veiða í trássi við samkomulagið. Því tel ég að ákvæði 1. mgr. 10. gr. séu eðlileg þótt orðalagið mætti vera jákvæðara, þ.e. að heimilt væri að koma og fá þjónustu nema þegar þeir brjóta í bága við alþjóða samninga.

Að þessu sögðu má ljóst vera að aðalóánægja mín með þetta frv. beinist að 5. og 6. gr. frv. sem reyndar voru þær greinar sem fengu langmesta umfjöllun í nefndinni.

5. gr. fjallar um stofna sem veiðast bæði innan og utan lögsögunnar eins og t.d. síld og loðnu. Þar á að byggja á sömu reglum og gilda um veiðar innan lögsögunnar eftir því sem við getur átt þótt skipum sem ekki eiga veiðirétt innan lögsögunnar sé heimilt að veiða þessa stofna utan lögsögunnar, það skal tekið fram. Þá er í þessari grein mikilvægt heimildarákvæði að mínu mati til ráðherra þess efnis að skip sem fær leyfti til þessara úthafsveiða verði á móti að afsala sér allt að 20% sinna aflaheimilda innan lögsögunnar. Þetta finnst mér mjög mikið réttlætismál. þ.e. að minni skipin sem ekki fara til úthafsveiða fái aukinn rétt til veiða innan lögsögunnar en hinir verði þá meira fyrir utan. Sú prósenta sem þarna er var á tímabili í frv. 30% en hagsmunaaðilum tókst að fá hana niður í 20% og þetta er eingöngu heimildarákvæði. Í þokkabót hefur Kristján Ragnarsson, sem sat í nefndinni fyrir LÍÚ, séð ástæðu til að mótmæla þessu heimildarákvæði. Ég vil vekja sérstaka athygli á mótmælum hans sem hafa borist þingmönnum sem og öðrum. Í ályktun hans eftir starf nefndarinnar segir m.a.:

,,Í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsdraga er fylgdu fyrrgreindu bréfi er ákvæði um að ráðherra geti bundið leyfi til veiða úr stofnum er ganga inn og út úr lögsögu því skilyrði að útgerð afsali sér heimildum innan lögsögu sem nemi allt að 20% af aflaheimildum þeim er hún fær.

Ég leyfi mér að vara við að þessi ákvæði veki væntingar um að þær útgerðir sem veiðar stunda utan lögsögu séu færar um að greiða fyrir rétt til veiða með þeim hætti er hér greinir``.

Áfram ætla ég að vitna í þetta bréf:

,,Uppboð á veiðiheimildum með þessum hætti tel ég óframkvæmanlegt og óréttlátt og verði því beitt er hætt á að veiðiheimildir á úthafinu falli niður öllum til tjóns.``

Herra forseti. Það verður því að mínu mati mjög fróðlegt að fylgjast með því, ef þetta frv. verður einhvern tímann að lögum, hvort núv. sjútvrh. eða sjútvrh. framtíðarinnar koma til með að nota þessa heimild í trássi við LÍÚ.

6. gr. frv. gildir um aðra stofna, t.d. rækjuveiðar á Flæmingjagrunni eða veiðarnar í Barentshafi. Í þeirri grein á að byggja að stórum hluta á veiðireynslu þannig að kappið á Flæmingjagrunni og í Smugunni mun skila þessum útgerðum árangri. Að minnsta kosti þeim sem byrjuðu nógu snemma því það á að miða við bestu þrjú veiðitímabil undangenginna sex tímabila. Sé samfelld veiðireynsla ekki fyrir hendi má ráðherra ákveða þetta einn og það eru nefndir ýmsir þættir sem hann á að taka mið af. En þetta er mjög laust í reipunum allt saman þannig að í raun er það ekki mikil framför miðað við þær heimildir sem nú eru í lögunum frá 1976. Prósentuhlutfallið sem úthafsútgerðir eiga að afsala sér af fiskveiðiheimildum innan lögsögunnar var 15% á tímabili en lokatalan er 10%.

Í stuttu máli tel ég mjög mikilvægt að Íslendingar eigi frumkvæði að því að settar verði reglur um veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum og að við setjum íslenska löggjöf um þessi mál svo framarlega sem það er nauðsynlegt vegna alþjóðasamninga og til að koma í veg fyrir ofveiði og að ýta undir skynsamlega stjórnun, eftirlit og verndun fiskstofna á úthöfum. Þetta frv. fullnægir þessum markmiðum að mörgu leyti en að auki, vegna ákvæða 5. og 6. gr., færa þau réttinn til veiða á úthöfum meira og minna í hendur tiltekins hóps sem er að stórum hluta sami hópurinn og hefur haft einokun á veiðum innan fiskveiðilögsögunnar samkvæmt núv. aflamarkskerfi. Þessar greinar auka því enn meira á þá óánægju sem nú ríkir vegna stefnunnar um stjórnun fiskveiða og auka enn á misræmið sem er á milli 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða sem kveður á um sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum og því hvernig lögin frá 1990 eru útfærð að öðru leyti.

Það er ekki verið að segja í þessu frv. að allir Íslendingar sem hafa til þess leyfi geti veitt á úthöfunum, bara að stórum hluta þeir sem hafa veiðiheimildir í lögsögunni eða verulega reynslu á úthöfunum. Eins og ég sagði eru það að stórum hluta eru þeir sömu og fengu kvótann gefins árið 1984. Þetta er að mínu mati mikið óréttlæti sem þjóðin má ekki sætta sig við og þjóðin verður að átta sig á. LÍÚ-forustan ætlar með þessu frv. að leggja kló sína yfir úthöfin líka út á ,,eign`` sína á aflahlutdeild innan lögsögunnar og veiðireynsluna á úthöfum sem þeir hafa fjármagnað, eins og ég sagði hér fyrr í minni ræðu, með því að gera aðra sjómenn og útgerðir að leiguliðum. Þessir leiguliðar berjast nú fyrir tilvist sinni og halda uppi vinnu í frystihúsum út um landið sem flest hver eru rekin með halla. Þessari einokun LÍÚ verður að linna.

Hæstv. forseti. Þessi ríkisstjórn, eins og við höfum séð undanfarna daga, er ekki þekkt fyrir samráð almennt við aðra. Hún er ekki þekkt fyrir samráð við hagsmunaaðila þegar annars vegar eru kennarar eða launþegar eða opinberir starfsmenn. En þegar kemur að sjávarútvegi þá ráða hagsmunaaðilar ferðinni. Þá fá þeir að sitja í öllum nefndum og það er svo sannarlega á þá hlustað. Það er svo mikið hlustað á þá að minni réttlætistilfinningu er gróflega misboðið.

Það er von mín að þetta frv. fái víðtæka umfjöllun þannig að réttlætiskennd þjóðarinnar verði einnig misboðið. Ekkert annað getur komið í veg fyrir að það verði lögfest á meðan núverandi valdhafar og LÍÚ ráða ferðinni. Það getur aldrei orðið sátt um að stjórnvöld úthluti gæðum sem samkvæmt lögum eru í eigu allra landsmanna jafnt til fárra útvalinna án endurgjalds. Flestir sjá að þetta kerfi er a.m.k. siðferðilega í dauðateygjunum nema þeir sem eiga hagsmuna að gæta. Það væri því mjög mikill skaði ef það yrði lögfest svona. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég á eftir hálfa mínútu af ræðu minni og óska eftir að fá að ljúka henni.

(Forseti (GÁ): Tíminn er búinn.)

Herra forseti. Hugmyndin um að setja veiðiheimildir á uppboð var mjög mikið rædd í þessari nefnd en hún fór ávallt út af borðinu og þess vegna sitjum við uppi með það frv. sem hér er á borðum. Ég á eftir örlítið brot af ræðu minni og kem því nánar að þessu hér á eftir.