Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:00:23 (6227)

1996-05-18 11:00:23# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það voru talsvert skiptar skoðanir í úthafsveiðinefnd um ýmis atriði þessa máls. Jafnvel lá þar fyrir beinn ágreiningur um einstaka þætti eins og gengur. Undir það get ég tekið en ekki skrifað upp á hitt að í nefndinni hafi alls ekki farið fram nein grundvallarumræða um verkefni nefndarinnar og þau frumvarpsdrög sem hér eru til umræðu. Þetta starf er búið að taka yfir tvö ár eða á þriðja ár og af og til hefur verið gert áhlaup að samningu þessa frv. á tveggja ára tímabili. Hv. þm. sat að vísu ekki í nefndinni allan þann tíma en ég leyfi mér að fullyrða að oft og tíðum hafi farið fram innan nefndarinnar hin mesta umræða sem ég hef tekið þátt í á síðari árum um ýmis grundvallaratriði, t.d. varðandi þróun hafréttarins og úthafsveiðimál, samninga við önnur ríki og fyrirkomulag þessara mála hjá okkur. Og tel ég mig þó hafa verið á vettvangi yfirleitt þar sem þessi mál hafa verið til umræðu þannig að ég mótmæli því. Það er ekki sanngjörn lýsing á starfi nefndarinnar sem hefur haldið tugi funda og eytt miklum tíma í þessi mál, að sakast um að ekki hafi farið þar fram mikil umræða, grundvallarumræða þess vegna. En hitt er rétt að það leiddi eftir sem áður ekki til samkomulags.

Ég bið hv. þm. að láta ekki áhuga sinn á því að koma á auðlindaskatti villa sér sýn í þessum efnum þó ekki hafi orðið um það samkomulag í nefndinni. Það er ekki þar með sagt að það sé við það að sakast að þau mál hafi ekki verið rædd. Ég held reyndar að meiri umræður um það tiltekna atriði hefðu ekki skilað annarri niðurstöðu. Það lá einfaldlega og liggur fyrir ágreiningur sem við þurfum að horfast í augu við.