Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:07:20 (6231)

1996-05-18 11:07:20# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:07]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ekki alls fyrir löngu öðlaðist hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gildi þegar nægilega mörg ríki höfðu staðfest samninginn til þess að hann teldist vera skuldbindandi að alþjóðalögum. Eitt af meginatriðum þess sáttmála er rétturinn til frjálsra veiða á úthafinu sem nú er orðinn alþjóðalög. Í krafti þess réttar höfum við Íslendingar verið í auknum mæli að sækja út á hið opna haf til þess að stunda þar veiðar og höfum á nokkrum árum breyst úr dæmigerðri strandveiðiþjóð í strandveiðiþjóð og úthafsveiðiþjóð í senn. Almenna reglan sem nú er viðurkennd að þjóðarétti er fullt frelsi til veiða á úthafi. Í krafti þeirrar reglu hófum við Íslendingar m.a. Smuguveiðarnar sem hafa fært okkur björg í bú á umliðnum árum og lagt grundvöll að veiðireynslu sem mun án efa nýtast okkur í framtíðinni.

Ég vil aðeins minna á það, herra forseti, að það var ekki sátt um að við nýttum þau réttindi vegna þess að hæstv. sjútvrh. hafði tilbúna reglugerð á borði sínu sem hann átti aðeins eftir að undirrita, um að meina íslenskum fiskiskipum að nýta þennan rétt samkvæmt hafréttarsáttmálanum, að nýta réttinn til frjálsra veiða á úthafinu. Það var ekki fyrr en lagt var á borðið fyrir hann í þáverandi ríkisstjórn að hann hefði ekki leyfi til þess að gefa út slíka reglugerð, að hann féllst á að gera það ekki og á því byggjast nú veiðar okkar á þessum slóðum sem lögðu grundvöllinn að frekari sókn Íslendinga út á hafið. Við skulum því ekki líta fram hjá því að samkvæmt gildandi þjóðarétti er okkur frjálst að veiða hvar sem er á úthafinu utan fiskveiðilögsögu ríkja og að með þeim tillögum sem hér eru lagðar fram er verið að leggja til að því ástandi verði breytt. Það er því ekkert smámál sem við erum að ræða hér og nú.

Vissulega byggja þessar tillögur sem hér eru gerðar á úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var tilbúinn af þeirra hálfu þann 4. ágúst 1995. En engin einasta þjóð, ekki einu sinni við Íslendingar sjálfir, hefur fullgilt þennan sáttmála þannig að það munu efalaust líða mörg ár, ef marka má hvað tók mörg ár að staðfesta hafréttarsáttmálann uns hann varð að alþjóðalögum, þangað til úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið fullgiltur af nægilega mörgum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna til þess að teljast vera skuldbindandi alþjóðalög og á meðan gildir 87. gr. hafréttarsáttmálans að alþjóðalögum um frelsi til veiða á úthafinu. Þess vegna er það spurning, virðulegi forseti, hvort við séum á réttum tíma að afgreiða þetta mikilvæga mál, þ.e. að svipta íslenskar útgerðir rétti til frjálsra veiða á úthafinu sem þær hafa samkvæmt alþjóðalögum, í trausti þess að úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði einhvern tíma í framtíðinni fullgiltur af nægilega mörgum ríkjum til þess að hann taki við sem alþjóðalög af 87. gr. hafréttarsáttmálans.

Það er líka umhugsunarvert hvort það er rétt af okkur að takmarka þannig okkar eigin rétt til þess að veiða á úthafinu þegar engin önnur þjóð er að vinna það sama verk og Alþingi Íslendinga er ætlað hér að gera. Við erum að stíga fram fyrir skjöldu til þess að takmarka rétt íslenskra útgerða til frjálsra veiða á úthafinu þó svo það séu alþjóðalög og muni gilda sem alþjóðalög í næstu framtíð að slíkur réttur liggi fyrir hjá öllum öðrum þjóðum en okkur. Við erum þarna að ganga fram fyrir skjöldu til þess að takmarka rétt íslenskra útgerða til veiða á úthafinu mörgum árum áður en slíkt mun teljast alþjóðalög og mörgum árum áður en aðrar þjóðir munu grípa til sömu úrræða. Þrátt fyrir að ýmislegt sé gott í frv., þá erum við með þessum hætti að takmarka rétt íslenskra útgerða sem verða einu útgerðirnar í heiminum sem ekki mega nýta sér réttindi 87. gr. hafréttarsáttmálans um frelsi úthafsins. Það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort við séum að stíga hér ótímabært skref eða hvort ástæða hefði verið fyrir okkur að hafa um þetta samráð, a.m.k. við þjóðir sem við eigum mest samstarf við í sjávarútvegsmálum og verða þeim samferða um slíkar lagasetningar þannig að það verði sambærilegar reglur sem gilda fyrir þær og okkur. Ég vildi aðeins varpa þessu fram, virðulegi forseti, til umhugsunar. Úthafsveiðisáttmálinn kveður á um þjóðaréttarlega byltingu hvað varðar veiðar á úthöfunum en sú bylting hefur ekki náð fram að ganga og mun ekki gera það fyrr en nægilega margar þjóðir hafa staðfest þann sáttmála til þess að hann öðlist gildi sem alþjóðalög. Og ég ítreka það enn, virðulegi forseti, að sáttmálinn hefur ekki enn verið lagður fyrir Alþingi Íslendinga til staðfestingar þannig að við erum að búa til innlenda lagasetningu á grundvelli ákvæða í sáttmála sem Alþingi Íslendinga hefur ekki einu sinni staðfest.

En hvað sem því líður, þá er ýmislegt í þessu frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands sem gæti horft til heilla, ekki síst ef aðrir fylgdu fordæmi okkar Íslendinga. Ég vil sérstaklega geta þess að frv. hefur tekið miklum breytingum í þeirri tveggja ára vinnu sem liggur að baki því frv. sem nú er lagt fram. Frv. var upphaflega t.d. þannig úr garði gert að hæstv. sjútvrh. hefði nánast fengið leyfi til þess að stjórna allri útgerð íslenskra skipa, bæði á úthafinu og í lögsögum annarra ríkja hvar sem er í heiminum eftir geðþótta. Það hefur nú verið afnumið. Þær tillögur voru ekki samþykktar þannig að frv. byggist nú fyrst og fremst á því að hæstv. sjútvrh. fær heimild til veiðistjórnunar með þeim takmörkunum sem frv. þó setur honum til þess að uppfylla þá fjölþjóðlegu samninga sem Ísland hefur gert um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum.

[11:15]

Það er orðið meginefni frv., þ.e. réttur hans byggist á því til afskipta af veiðum íslenskra fiskiskipa að Ísland hafi gert samkomulag um veiðarnar við önnur ríki. Þó er það ekki alveg einhlítt vegna þess að á einstaka stað í frv. virðast menn vera að veita sjútvrh. nokkru meiri heimildir en þær sem ég nefndi, eins og í 3. gr. þar sem segir, með leyfi forseta, að ráðherra skuli setja reglur um veiðar íslenskra skipa utan lögsögu sem nauðsynlegar eru til að fullnægja almennum skyldum Íslands til verndunar lifandi auðlindum hafsins o.s.frv. þannig að þessa grein væri hægt að túlka þannig að Alþingi væri að veita hæstv. sjútvrh. heimildir til þess að setja reglur um veiðar íslenskra skipa á svæðum þar sem Ísland er ekki aðili að neinum alþjóðlegum samþykktum um veiðistjórnun eða veiðikvóta eða umgengni um fiskstofna þó svo meginefni frv. lúti að því að slík stjórnun sé ráðherra aðeins heimiluð á þeim svæðum þar sem Ísland er aðili að slíku samkomulagi. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann telur að þessi grein veiti sjútvrh., ekki endilega honum persónulega heldur sjútvrh., heimild til þess að setja reglur um veiðar íslenskra skipa t.d. í lögsögu annarra ríkja sem liggja fjarri hefðbundnum veiðislóðum íslenskra fiskiskipa, jafnvel þó svo ekkert samkomulag sé milli Íslendinga og viðkomandi ríkis um samstarf í fiskveiðimálum. Telur hæstv. ráðherra að 3. gr. veiti honum heimild til þess að setja reglur um veiði íslenskra skipa undir slíkum kringumstæðum?

Þá vil ég einnig í þessu sambandi vísa til ákvæða í 6. gr. Í næstsíðustu mgr. 6. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er einnig heimilt að setja reglur sem nauðsynlegar eru til að takmarka veiðar í öðrum tilvikum sbr. 3. gr., og skal hann í þeim efnum leita álits Hafrannsóknastofnunarinnar.``

Telur hæstv. ráðherra að þetta opni honum heimild til þess að setja íslenskum skipum sem veiða á fjarlægum slóðum veiðireglur eða veiðitakmarkanir þó svo ekki liggi fyrir samkomulag um veiðistjórnun á þeim svæðum sem Ísland er aðili að?

Ég lýsi yfir sérstakri ánægju minni með 2. gr. þessa frv. þar sem rætt er um að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þetta er að sjálfsögðu til þess að styrkja það sem kemur fram í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, að það sé ekki heldur í úthafsveiðum, jafnvel ekki í veiðum í landhelgi annarra ríkja sem samkomulag hefur náðst um hægt að ná eignarrétti eða óafturkallanlegu forræði yfir veiðiheimildum sem úthlutað er samkvæmt samkomulagi sem Ísland hefur gert um veiðistjórnun við önnur ríki. Þó langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra um 3. mgr. 4. gr. þar sem segir:

,,Ákvæði 2. mgr. gilda einnig um veiðar íslenskra skipa í lögsögu annarra ríkja úr þeim stofnum sem um ræðir í 5. gr.``

Þá langar mig til að spyrja: Ef svo væri að í fiskveiðilögsögu annarra ríkja væri veittur eignarréttur að kvóta, þ.e. skip sem þar veiddu gætu talið sér þann kvóta sem þau hefðu til eignar, kemur þá 2. gr. frv. í veg fyrir það að íslensk skip sem hefðu leyfi til að veiða þarna og fengju úthlutaðan kvóta til jafns við skip heimalandsins gætu litið svo á að sá kvóti sem þau hafa fengið úthlutaðan með þessum hætti væri þeirra eign eða ná ákvæði 2. gr. einnig yfir þessi tilvik?

Í 5. gr. eru ákvæði um að skip sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt ákvæðum greinarinnar á veiðum utan lögsögu Íslands úr stofnum sem veiðast bæði innan og utan hennar skuli afsala sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands um allt að 20% af þeim aflaheimildum sem ákveðin eru á grundvelli þeirrar málsgreinar. Ég vil aðeins taka fram án þess að hafa um það mörg orð að ég styð þetta ákvæði og tel það vera skynsamlegt og tel ekki óeðlilegt að svona ákvæði sé sett inn í frv. eins og það sem hér er til umræðu. Auðvitað geta menn endalaust deilt um það hver hlutfallstalan eigi að vera, hvort hún eigi að vera 20, 25, 30, 15 eða 10 en um það ætla ég aðeins að hafa þau orð sem einn mætur þingmaður Framsfl. fyrr á öldinni hafði gjarnan við slík tilvik þegar hlutfallstölur voru nefndar í lögum, hv. þáv. þm. Sveinn í Firði, sem sagði um hlutfallstölur almennt að þær væru alltaf óhagstæðar fyrir bændur. Prósentan er alltaf óhagstæð fyrir bændur. Ég tel að það sama gildi um þessar prósentur, að það sé alveg sama hvaða prósentutala væri nefnd, virðulegi forseti, hún teldist ávallt vera mjög óhagstæð fyrir bændur, í þessu tilviki að sjálfsögðu fyrir útvegsbændur þannig að menn geta deilt endalaust um þessa prósentu en út af fyrir sig set ég ekki fyrir mig þá tillögu sem þarna er gerð.

Ég vildi enn fremur spyrja um 5. mgr. 6. gr. þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra getur ákveðið einstökum skipum fasta hlutdeild í afla til lengri tíma en eins veiðitímabils þegar veiðiheimildum er úthlutað skv. 2. mgr. og getur hann þá ákveðið að ákvæði laga um stjórn fiskveiða varðandi framsal veiðiheimilda gildi eftir því sem við getur átt.``

Nú langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig eigi að skilja þetta. Ber að skilja þetta svo að framsal veiðiheimilda samkvæmt þeim úthlutunum, sem gerðar verða samkvæmt frv., verði undantekning frá aðalreglunni? Þ.e. aðalreglan verði sú að ekki sé unnt að framselja þær veiðiheimildir sem úthlutað er samkvæmt þessu frv. og er það þá öðruvísi framkvæmd en framkvæmdin er og verður samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða? Það mætti skilja þessa setningu svo að hér væri um undantekningu að ræða, að framsal veiðiheimilda yrði leyft en ekki aðalregla en ég verð að lýsa því yfir að ég tel það ekki eðlilegt. Ef á að halda þannig á málum að úthafsveiðiskipum sem hafa aflareynslu innan fiskveiðilögsögunnar sé gert að afsala hluta aflaheimilda sinna fyrir að fá aflaheimildir utan lögsögunnar samkvæmt samningum sem Íslendingar hafi gert er í fyllsta máta eðlilegt að það séu sambærilegar vinnureglur sem gildi um meðferð þessara aflaheimilda og þar sem aðalreglan í aflaheimildum innan fiskveiðilögsögunnar er frjáls framsalsréttur finnst mér eðlilegt að það sé sama aðalregla sem gildi um kvótaúthlutanir sem frv. fjallar um.

Þá vildi ég að lokum segja nokkur orð um 8. gr. frv. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir sjútvn. að skoða þá grein alveg sérstaklega og vísa í því sambandi til athugasemda félags úthafsútgerða sem þingmönnum hefur borist, en þar er reiknað út hver kostnaðurinn yrði við það sem kallað er veiðieftirlit í þessari 8. gr. en félag úthafsútgerða leyfir sér að kalla veru sjónarvotta um borð í íslenskum fiskveiðiskipum og vitnar þá sérstaklega til samnings sem gerður var við Kanadamenn þar sem talað er um observers sem ekki verður betur þýtt á íslensku máli en sem sjónarvottur en ekki eftirlitsaðili. Félag úthafsveiðimanna færir rök fyrir því að kostnaður við þetta eftirlit sé mjög verulegur eða samtals á skip í sex mánuði 4 millj. 178 þús. kr. og í 12 mánuði 8 millj. 356 þús. kr. Ef þessar upplýsingar eru réttar er að sjálfsögðu verið að leggja mjög hátt gjald á útgerðir þessara skipa fyrir ekki merkara eftirlit en gert er ráð fyrir að veitt verði í þessari grein. Vissulega er verið að setja veiðigjald bakdyramegin á útgerðir sem nægir til þess að kosta hluta af þeirri þjónustu, ef þjónusta getur nefnst, sem hið opinbera veitir þessum útgerðum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál þurfi að skoða sérstaklega í meðferð sjútvn. en endurtek í lokin það sem ég sagði í upphafi að það er líka spurning hvort það er rétti tíminn núna til að setja lög af þessu tagi þegar sá alþjóðasamningur sem þau byggjast að verulegu leyti á hefur ekki hlotið staðfestingu, ekki einu sinni okkar sjálfra og við rennum algerlega blint í sjóinn með það hvort aðrar þjóðir, sem sækja úthafið til jafns við okkur Íslendinga, munu setja sambærilegar reglur gagnvart sínum útgerðum, sambærilegar takmarkanir og hömlur eins og við erum að setja á íslenska útgerð í þessu frv.