Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:27:19 (6232)

1996-05-18 11:27:19# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:27]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki setið lengi eða samfellt í þeirri nefnd sem vann að frv. Ég hef komið inn í nefndina á seinni stigum, fyrst og fremst varðandi umfjöllun þessa máls. Hv. þm. Ágúst Einarsson hefur jafnframt mér setið sem fulltrúi Þjóðvaka í nefndinni og við höfum jöfnum höndum tekið þátt í þeirri vinnu sem þar hefur farið fram.

Ég er á þeirri skoðun að það hefði almennt verið til bóta ef lengur hefði verið unnið með frv. og sum ákvæði þess séu e.t.v. ótímabær og það hefði verið rétt að við hefðum tekið okkur betri tíma til yfirferðar þeirra. Ég tek undir ýmislegt af því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði en ég er jafnframt með efnislega fyrirvara við frv. sem fram munu koma í máli mínu.

Að öðru leyti vil ég segja almennt um þetta frv., herra forseti, að það er býsna merkilegt, fyrst og fremst fyrir þær sakir að það staðsetur okkur á ákveðnum stað og í tíma í atvinnusögu þjóðarinnar. Í fyrsta lagi vegna þess að það fjallar um samskipti okkar við útlönd hvað varðar fiskveiðisamninga og það segir okkur ákveðna sögu. Í öðru lagi eru líka ákvæði um viðskipti okkar við útlönd. Í báðum þessum tilvikum, herra forseti, þar sem fjallað er um samskipti okkar við útlönd, hvort sem um er að ræða fiskveiðisamninga eða viðskipti, er verið að takmarka rétt frá því sem nú er. Með frv., ef að lögum verður, er vissulega verið að takmarka rétt til veiða frá því sem nú er og jafnframt er í II. kafla frv. verið að takmarka rétt til viðskipta frá því sem nú er. Þetta er athyglisvert og ætti að verða okkur umhugsunarefni, ekki síst fyrir þær sakir að við höfum talað fjálglega um útrás, ekki bara íslenskra útgerða heldur hugvitsmanna og þeirra sem selja þekkingu og þjónustu á erlenda grund með þá þekkingu sem þessir aðilar hafa öðlast af þjónustu við íslenskan sjávarútveg. Við erum að tala um alþjóðleg viðskipti, ekki bara með fisk heldur líka með hugvit og þekkingu.

Herra forseti. Ég vil alltaf setja spurningarmerki við það hvort eðlilegra sé að við seljum þessa hluti alla erlendis og ítreka þá spurningu sem ég hef áður varpað fram úr þessum stóli: Af hverju ekki hér?

Í II. kafla frv., þar sem fjallað er um landanir erlendra fiskiskipa og viðskipti við þau, ætti það auðvitað að vera okkur íhugunarefni að á sama tíma og við viljum meina þjónustuaðilum okkar að eiga viðskipti við tiltekin skip ákveðinna þjóða eru Íslendingar að hasla sér völl í þeim sömu löndum seljandi það hugvit, þá þekkingu og þjónustu sem má ekki selja hérlendis. En að þessu mun ég koma betur á eftir.

Ef litið er á frv. eins og það liggur fyrir skipta að mínu mati mestu máli I. og II. kafli frv. Fyrsti kaflinn fjallar fyrst og fremst um veiðar íslenskra skipa í erlendri lögsögu eða á úthafinu og þar finnast mér athyglisverðust og jafnframt helst gagnrýniverð þau ákvæði sem fram koma í 5. og 6. gr. og síðan í 8. gr. Í 5. gr. frv. sem og í 6. gr. er heimildarákvæði þess eðlis að ráðherra geti bundið úthlutun veiðileyfa á úthafinu, hvort sem heldur er varðandi deilistofna eða aðrar fisktegundir því að skip afsali sér aflaheimildum í lögsögu Íslands. Er þá mismunandi hversu miklu viðkomandi aðilar verða að afsala sér til þess að fá veiðileyfi. Ef þannig háttar til eins og er með býsna marga að menn eiga ekki heimildir innan lögsögu, verða þeir skertir til samræmis. Mér finnst þetta ákvæði býsna athyglisvert fyrir þær sakir að hér er verið að taka upp, herra forseti, veiðileyfi. Hér er þessum tilteknu aðilum gert að greiða fyrir það leyfi sem þeir fá til þess að veiða á úthafinu. Þetta er auðvitað merkilegt fyrir þær sakir að menn hafa ekki verið fáanlegir til þess að taka upp veiðileyfi hvað varðar veiðar innan lögsögu þar sem við erum þó sannanlega að tala um veiðar úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. En þegar kemur að úthafinu þar sem við erum ekki að tala um sameiginlega auðlind þjóðarinnar, þá ætlum við að láta menn greiða veiðileyfagjald.

[11:30]

Sú sem hér stendur hefur talað fyrir því að sjávarútvegurinn greiddi fyrir sínar veiðiheimildir. Ég er meðflm. að þáltill. þess efnis og í umræðum um síldina fyrir fáeinum dögum gerði ég það að minni tillögu að síldarkvótarnir yrðu boðnir upp. Með þeim hætti væri líklegast að við næðum einhverju sem kalla mætti réttlæti í þeirri úthlutun. Á það er ekki fallist en á sama tíma er komið fram með veiðileyfagjald í þessum geira veiðanna. Þá er það ekki svo, herra forseti, að þetta gjald sé greitt íslenskum stjórnvöldum sem eins konar þóknun fyrir umsýslu eða samninga sem gerðir eru um veiðarnar. Nei, þetta gjald er greitt þeim sem eiga fyrir heimildir innan lögsögunnar. Það eru þeir sem eiga að fá greiðsluna vegna þess að þær heimildir sem afsalað er, er úthlutað jafnharðan ókeypis til þeirra sem eiga fyrir eða hafa fengið úthlutað heimildum innan lögsögu. Þeir mega síðan samkvæmt gildandi lögum versla með þessar heimildir sín í millum.

Það kann vel að vera að einhverjum finnist þetta réttlæti og þetta sé, eins og hæstv. ráðherra gat um áðan, til að bæta stöðu flotans í heild. En ég verð að segja, herra forseti, að ef menn ætla að bæta stöðu flotans í heild með því að taka af einum til að færa öðrum hafa gefist ótal tilefni til þess á undanförnum árum. Þegar veiðiheimildum var úthlutað í innfjarðarrækjuna á Skjálfandaflóa fyrir nokkrum árum var þeim sem þau veiðileyfi fengu gert að afsala sér á móti veiðiheimildum í þorski. Það er síðasta dæmið um að slíkt hafi verið gert innan lögsögu. Eigi að síður hefur orðið býsna mikil breyting á högum ýmissa útgerða, ekki hvað síst vegna þess hvað rækjan hefur aukist. En ég hef ekki séð að fram hafi verið farið innan núgildandi laga, laganna frá 1990, með ákvæði þess efnis að ráðherra, með svo sértækum hætti eins og hér er gert ráð fyrir, láti menn gjalda fyrir veiðiheimildir í tilteknum stofnum eða aukningu við þá veiði sem þeir höfðu fyrir.

Ég ætla að endurtaka, herra forseti, svo það valdi engum misskilningi að ég er ekki á móti því að útgerðin greiði fyrir sínar veiðiheimildir. Ég gagnrýni einungis að hér skuli eiga að heimila að aðeins þeir sem veiða á úthafinu skuli borga og að þeir skuli borga þeim sem eiga fyrir eða hafa fyrir veiðiheimildir innan lögsögu. Í því er einfaldlega ekki það jafnræði sem við ættum að hafa við úthlutun þeirra gæða sem rétturinn til veiða vissulega er. Spá mín er sú að ef þetta ákvæði verður nýtt, þá leiði það okkur út í slíkt fen að það fer eins og fór með þær tilfærslur sem menn voru með æfingar í áður en lögin 1990 voru sett, að það endi í feni sem menn ráða ekki við og snúið verði af þeirri braut.

Af því að áðan kom fram það mat formanns nefndarinnar að efni þessa frv. væri það sem mestan stuðning hefði í nefndinni, er kannski rétt að bæta því við að sá stuðningur gat verið breytilegur eftir einstaka greinum og jafnvel ákvæðum innan greina. Ég er ekki alveg viss um að það hafi verið meirihlutastuðningur við öll atriði en ég virði þá niðurstöðu formanns að líta svo á að lengra hafi e.t.v. ekki verið komist hvað varðar þá hluti sem hér um ræðir, heldur hafi Alþingi einfaldlega borið í framhaldi af þessari vinnu að taka á því máli. Hér er um slíkt stórmál að ræða og grundvallarmál að ég held að það sé rétt að sú umræða fari fram hér í sölum Alþingis. En þessi ákvæði, herra forseti, snúast að mínu mati fyrst og fremst um jafnræði þeirra sem fá úthlutað veiðiheimildum hvort sem er innan lögsögu eða utan. Ég sé ekki alveg rökin fyrir því að þeir sem veiða innan lögsögu njóti þess mikla forgangs sem hér er verið að leggja til.

Hvað varðar 8. gr., fyrir utan smávægilegar orðalagsbreytingar sem ég mun koma á framfæri í nefnd, vil ég líka vekja athygli á því að þar er gert ráð fyrir að hluti þeirra sömu útgerða og gert er að greiða fyrir sínar veiðiheimildir eiga skyndilega að standa algerlega á eigin fótum, þ.e. þær eiga að standa undir kostnaði við það veiðieftirlit sem verður á viðkomandi svæði og eftir þeim samningum sem takast. Í öðru orðinu er því í rauninni sagt: ,,Jæja greyin mín, svo eruð þið þarna á eigin vegum og sjáið um ykkur sjálfir með því að greiða fyrir alla þá þjónustu sem þið fáið.`` En á hinn bóginn er sagt: ,,Svo skuluð þið gjalda klúbbnum sem er með heimildirnar innan lögsögu fyrir að fá að fara.`` Þarna finnst mér gæta ákveðins ósamræmis og mér finnst hálfpartinn, herra forseti, að hér eimi eftir af þeim fordómum, ótta eða kannski vanþekkingu á því fyrirkomulagi veiðanna sem við núna köllum úthafsveiðar. Þetta eru veiðar sem eru settar hér á einhvers konar annars flokks bás sem að mínu mati er ekki réttmætt. Ég vil ítreka það sem bæði hefur komið fram hjá mér og öðrum að það efnahagsjafnvægi og sá bati sem hefur verið á undanförnum árum er ekki hvað síst því að þakka að við höfum átt skipstjórnarmenn og útgerðarmenn, fullhuga sem hafa haft kjark til þess að fara í þessa útgerð, hafa þorað að taka þá áhættu sem því fylgir og hafa með framgöngu sinni dregið mikla björg í bú. En ég geri ráð fyrir því að um þessi mál náist framhaldsumræða, ekki bara í þingsölum heldur einnig í nefndinni og síðan áfram í þinginu eftir að menn eru búnir að fara nákvæmar ofan í saumana á ýmsum þeim atriðum sem nefndin hefði, ef betri tími hefði gefist til farið nánar í.

Hvað varðar II. kafla frv. vil ég, herra forseti, víkja að þeim ákvæðum sem eru íþyngjandi fyrir íslenska viðskiptaaðila fram yfir það sem er í lögunum frá 1992. Mér finnst, herra forseti, að hér séum við að upplifa ákveðinn núning sem er á milli þess framleiðsluþjóðfélags sem við þekkjum og þess þjónustu- og upplýsingasamfélags sem við stefnum inn í og nútíminn kallar á og er okkur lífsauðsynlegt ef við ætlum að bjóða upp á þá fjölbreytni í atvinnu og möguleikum á Íslandi sem eru þess megnugir að laða að og halda hér menntuðu hæfileikafólki. Við hljótum að velta því fyrir okkur um leið og við skoðum þau ákvæði sem eru í frv. um fiskveiðar erlendra skipa í II. kaflanum hvernig best sé að standa að viðskiptabanni. Í því sambandi er rétt að skoða hvernig lögin frá 1992 hafa gagnast okkur. Hafa þau leitt til þess sem við væntum eða hafa þau e.t.v. fyrst og fremst skaðað okkur?

[11:45]

Ég held að það hljóti alltaf að vera álitamál hvenær við setjum lög þessa efnis, hvernig í það er farið. Ef niðurstaðan er sú að við erum ein í því að halda uppi viðskiptabanni og það að banna landanir erlendra fiskiskipa sem eins og stendur í 10. gr. brjóti í bága við samninga um nýtingu og varðveislu lifandi auðlinda hafsins ásamt því sem stendur í lögunum frá 1992, ef við erum ein um það, ef þau skip sem ella hefðu sótt hingað þjónustu sækja til Færeyja, til Írlands, til Nýfundnalands og þar verða til viðskiptahagsmunir, þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki séu aðrar leiðir betur færar en þær að lögbinda þessa hluti á þann hátt sem hér liggur fyrir. Nú er ég ekki að mæla með því að við galopnum alla hluti heldur einungis að við veltum fyrir okkur í fullri alvöru þeim hagsmunum sem um er að ræða.

Annars vegar eru vissulega þeir fiskveiðihagsmunir sem um er að tefla, þ.e. að reyna að bægja frá þeim skipum sem ekki eru með samning til viðkomandi veiða. Það eru þeir hagsmunir sem við þekkjum svo vel --- frumvinnslusamfélagið --- þeir hagsmunir sem felast í nýtingu auðlindanna, þ.e. fyrst og fremst þeirrar auðlindar sem hafið er. Hins vegar eru þeir möguleikar sem felast í þjónustu og í upplýsingu, sem felast í nýtingu þeirrar auðlindar sem er í þekkingu og reynslu þessarar þjóðar. Og, herra forseti, ég held að þeir hagsmunir og sú atvinna sem skapast við nýtingu þeirrar auðlindar sé svo mikilvæg að við verðum að horfa til þeirra í mun ríkari mæli en mér virðist gert í þessu frv.